Fjármögnun sjóðs til að auka verðmæti íslenskra sjávarafurða

Þriðjudaginn 11. mars 2003, kl. 22:12:56 (4798)

2003-03-11 22:12:56# 128. lþ. 96.23 fundur 688. mál: #A fjármögnun sjóðs til að auka verðmæti íslenskra sjávarafurða# þál., ÁSJ
[prenta uppsett í dálka] 96. fundur, 128. lþ.

[22:12]

Árni Steinar Jóhannsson:

Virðulegi forseti. Ég ætla aðeins að bæta við örfáum orðum. Ég er sammála því sem fram kom hjá hv. þm. Guðjóni A. Kristjánssyni að hæstv. ríkisstjórn er að opna augun fyrir því að sú vegferð sem farið var í með stofnun Fjárfestingarbanka atvinnulífsins, niðurfellingu sjóða og með því að setja sjóði atvinnulífsins í Fjárfestingarbankann og síðan í Íslandsbanka, var röng aðferð. Ríkisstjórnin hefur selt báða ríkisbankana þrátt fyrir aðvaranir um að ákjósanlegt væri að eiga alla vega annan bankann sem hefði markmið um að efla atvinnulíf og standa við bakið á fyrirtækjum, sérstaklega þá á landsbyggðinni með sérstakri sýn eins og gert er í öðrum bönkum sem við erum jafnvel aðilar að, eins og Norræna fjárfestingarbankanum.

Þetta er allt umhugsunarefni. Ég fagna þessari sjóðmyndun. Ég held að hún sé algjörlega nauðsynleg til þess að við stöðnum ekki í því sem við erum að gera. Þarna er gríðarlegur virðisauki. Það er svo sem sama hvenær menn átta sig á því að gera þarf hluti upp á nýtt. Menn áttuðu sig kannski seinna á að þeir höfðu skilað töluverðum árangri, því að sjóðir atvinnulífsins gerðu það sannarlega. Ég er nú þeirrar skoðunar að ekki líði á löngu þar til við þurfum að gera það sama gagnvart iðnaðinum og iðnaðaruppbyggingu í landinu. Hæstv. ríkisstjórn hefur að vísu haft tilburði til þess að gera það í gegnum Byggðastofnun þannig að ég er sammála hv. þm. Guðjóni A. Kristjánssyni að við erum að vissu leyti komin í hring hvað þetta varðar.

Það er gríðarlega mikilvægt fyrir okkur að eiga möguleika á því að nýta auðlindir landsins skynsamlega. Við verðum ávallt að hafa opin augu fyrir því hvernig er best að standa að slíku.

[22:15]

Hv. sjútvn. er með mál inni sem kemur hér til kasta þingsins, er lýtur að aðskilnaði veiða og vinnslu. Ég tel að það sé liður í þessari vegferð til virðisauka í sjávarútvegi. Þáltill. var að vísu breytt, ef ég man rétt, þannig að hún er meira (Gripið fram í: Er þetta ekki bréf?) í formi bréfs til hæstv. ríkisstjórnar. En það er alveg augljóst að þar eru gríðarlegir möguleikar í formi smærri fyrirtækja sem sérhæfa sig á hinum ýmsu sviðum og hafa miklu meiri sveigjanleika en stóru fyrirtækin. Það þarf að standa við bakið á slíkum aðilum, þeir eru í mörgum tilfellum í beinu sambandi við markaðsaðila í útlöndum, mjög sérhæfða markaði, kannski einstaka veitingahúsakeðjur, og þarna sýnist manni að sé gríðarlegur virðisaukamöguleiki fyrir hendi.

Síðan vil ég taka undir það að auðvitað er full ástæða til að fjalla um það hvernig menn geta síðan sótt um í slíka sjóði. Gömlu sjóðirnir voru með alveg skýrar reglur um það hverjir áttu möguleika á því að fá fjármagn og á hvaða forsendum. Það er mikilvægt fyrir okkur öll að standa að slíkum reglum sem séu þá gegnsæjar og aðgengilegar fyrir alla miðað við sömu forsendur. Við mundum náttúrlega ekki vilja að slík sjóðmyndun yrði til þess að takmarka fjármagnsstreymi t.d. til bara þeirra stóru sem hygðu á einhvers konar verðmætaaukningu, og við getum nefnt í því sambandi þorskeldi. Það verða líka að vera möguleikar á því fyrir nýja aðila að koma inn og sækja í slíka sjóði á jafnréttisgrunni. Það er mjög mikilvægt.

Þess vegna tek ég undir þá gagnrýni að e.t.v. hefðum við þurft að fjalla betur um það hvers konar regluverk eigi að gilda um lán eða framlög úr slíkum sjóðum. Gömlu atvinnuvegasjóðirnir voru með tiltölulega skýrar reglur hvað þetta varðaði og t.d. ef menn ætluðu sér að kaupa bát voru þeir næstum öruggir með framlag úr Fiskveiðasjóði ef þeir áttu möguleika á mótframlögum og fjármögnun að öðru leyti, og það var þá sama hver var. Við megum ekki með svona sjóðmyndun falla í þá gryfju að það yrði bara geðþóttaákvörðun ráðuneytisins og gæti þá leitt til þess að mínu mati að menn færu frekar í að hygla þeim eða veita fyrirgreiðslu sem eru stærstir í greininni. Ég held að það sé í mörgum tilfellum alls ekki heppilegast til þess að ná þeim árangri sem að er stefnt varðandi aukningu á verðmætum í sjávarfangi og vinnslu.

Ég vil aftur fara inn á jákvæðu nóturnar, þetta er í þeim anda sem við viljum vinna. Við getum rætt um útfærsluna og regluverkið í nefnd og skoðað það betur en ég tel að það sé góðra gjalda vert að þetta sé gert gagnvart sjávarútveginum og ég mundi gjarnan vilja standa að því að sjá svona fyrirkomulag sett í gang gagnvart öðrum greinum atvinnulífsins í landinu. Ég held að það sé sérstaklega mikilvægt fyrir grunngreinarnar. Sjóðir landbúnaðarins gengu að vísu aldrei inn í FBA, Fjárfestingarbanka atvinnulífsins. Stofnlánadeild landbúnaðarins er enn við lýði og það er nú að margra mati ein meginástæða þess að bændur hafa getað farið í nýsköpun og nýja uppbyggingu, t.d. bændur í mjólkurframleiðslu með nýbyggingu á fjósum og tæknivæðingu í þeim. Það hefði að margra mati verið algerlega útilokað ef ekki hefði notið við sjálfstæðs sjóðs Stofnlánadeildar landbúnaðarins. Þannig hefur hægt á öllum fjárfestingum í iðnaði, sérstaklega úti á landi, vegna þess að sjóður þeirra var lagður niður eins og kunnugt er.

Aðeins þessi varnaðarorð inn í umræðuna: Ég held að við þurfum að skoða þetta í hv. nefnd og fá frekari skýringar á því hvernig menn ætla að standa að þessu, en lýsi mig að öðru leyti jákvæðan gagnvart þessum fyrirhugaða sjóði og tel að hann geti átt alla möguleika á því að verða greininni til mikilla hagsbóta þegar fram í sækir, og þjóðinni allri náttúrlega.