Fjármögnun sjóðs til að auka verðmæti íslenskra sjávarafurða

Þriðjudaginn 11. mars 2003, kl. 22:20:30 (4799)

2003-03-11 22:20:30# 128. lþ. 96.23 fundur 688. mál: #A fjármögnun sjóðs til að auka verðmæti íslenskra sjávarafurða# þál., JÁ
[prenta uppsett í dálka] 96. fundur, 128. lþ.

[22:20]

Jóhann Ársælsson:

Hæstv. forseti. Hv. þm. Árni Steinar Jóhannsson talaði um að við gætum rætt um útfærsluna og regluverkið, eins og hann orðaði það, í hv. sjútvn. Það er ekki að sjá á þessu plaggi sem við erum að ræða hér því þar stendur skýrum stöfum að Alþingi sé að lýsa yfir stuðningi við stofnun sjóðs sem sjútvrh. hefur komið á fót. Ég held að nefndarmenn þurfi að fá að sjá stofnskrá eða reglugerð sjóðsins og fá að vita hvernig skipað verður í stjórn eða hefur verið skipað í stjórn og fá upplýsingar frá sjútvrn. um það hvernig þessi mál eru hugsuð öllsömul og gera tilraun til þess að fá tækifæri til að kynna sér hvernig þessi starfsemi á að verða. Það er nú lágmark að Alþingi geri það. En það er greinilegt að hæstv. sjútvrh. gerir ekki ráð fyrir því að hv. nefnd hafi neitt með það að gera hvernig þessi sjóður er hugsaður. Menn fá kannski náðarsamlegast að vita hvernig það er, það stendur ekki í þessum plögum. Það stendur reyndar í þessum plöggum hér að fulltrúarnir í stjórn sjóðsins eigi að marka honum stefnu þannig að það er ýmislegt sem mætti velta fyrir sér þarna.

En ég kom kannski upp í aðra ræðu mína í svolítið svipuðum tilgangi og hv. þm. sem talaði hér áðan, hv. 4. þm. Vestf., Guðjón A. Kristjánsson. Það er auðvitað skondið að menn skuli vera komnir í sömu slóðina aftur eftir að hafa lagt niður sjóði sem voru til þess ætlaðir að gera nákvæmlega þá hluti sem hér eru á ferðinni. Ég get ekki alveg gleymt því hvernig farið var með þá sjóði sem þar var um að ræða. Þá erum við að tala um Iðnþróunarsjóð, Nýsköpunarsjóð, Fiskveiðasjóð, Iðnlánasjóð. Þessum sjóðum var meira og minna steypt öllum inn í FBA á sínum tíma og ríkið hirti peningana, sem t.d. iðnaðarmenn höfðu borgað inn í Iðnlánasjóð áratugum saman. Hæstv. sjútvrh. lét sig ekki muna um að þjóðnýta þá peninga sem iðnaðarmenn og aðrir höfðu greitt inn í þessa sjóði, og reyndar líka sjávarútvegurinn. Ég er nú ekki svo mikill þjóðnýtingarmaður að ég hafi viljað standa að slíkum hlutum vegna þess að þessir sjóðir höfðu hlutverk. (ÁSJ: Bændur létu ekki ... sig.) Nei, rétt er það, bændur voru ekki teknir með í þetta skiptið, en hver veit nema þjóðnýtingarskriðan fari af stað aftur hjá hæstv. ríkisstjórn ef hún lifir af þessar kosningar. Mér finnst alveg ástæða til þess að minna á þetta hér þegar mönnum dettur aftur í hug að stofna sjóði af þessu tagi. Það hefur hvarflað að mér að hæstv. ráðherra sé að sumu leyti að sendast fyrir LÍÚ og forustu útgerðarmanna í landinu til þess að sætta þá aðeins betur við þetta gjald sem hæstv. ráðherra gekkst fyrir að setja á útveginn í fyrravetur, og þannig verði þeir sáttari við að þurfa að fara að borga eitthvað ef þeir fá það til baka með þessum hætti. Stóru fyrirtækin í sjávarútveginum ætla sér mikla hluti í þorskeldi og það er ekki nema allt gott um það að segja sem þessi sjóður á að gera hvað varðar þorskeldi. Það læðist sem sagt að manni að fjármunirnir eigi að renna út og inn og þannig eigi menn að verða sáttari við hlutinn sinn.

Eins og ég segi tel ég fulla ástæðu til þess að hv. sjútvn. fái öll gögn í hendurnar um þennan sjóð sem hæstv. ráðherra er búinn að stofna þannig að hún geti þá a.m.k. gefið umsögn um það hvort eðlilegt sé að Alþingi leggi alla þessa fjármuni til í þá starfsemi sem þarna er um að ræða. Mér finnst hún góðra gjalda verð og ímynda mér að það verði niðurstaðan að menn leggi það til þrátt fyrir allt. Ég sé samt ekki ástæðu til þess að þegja þunnu hljóði þegar menn nota aðferðir eins og þessar til þess að undirbúa mál sem eru þó svona mikilsverð. Það er ekkert vansalaust að efna til úlfúðar um það sem allir gætu verið sammála um að gera.

Ég held líka að það sé ástæða til að halda að mál af þessu tagi séu ekki skemmd í meðförum nefnda á hv. Alþingi. Hér hafa menn metnað til þess að fara yfir þau og skoða og færa til betri vegar ef þeir sjá einhverja þá hluti sem betur mega fara. Ég hef ekki séð að það sé ástæða til að halda að menn séu alvitrir í ráðuneytum, þvert á móti hefur mér sýnst á þeim málum sem oft hafa komið inn á hv. Alþingi að þau hafi tekið breytingum til betri áttar við meðferð í þingnefndum. Hér á sem sagt að stytta sér leið fram hjá sjútvn. Alþingis og alþingismönnum og taka bara við peningunum til þess að borga brúsann. Það er ekki til eftirbreytni.