Fjármögnun sjóðs til að auka verðmæti íslenskra sjávarafurða

Þriðjudaginn 11. mars 2003, kl. 22:42:09 (4805)

2003-03-11 22:42:09# 128. lþ. 96.23 fundur 688. mál: #A fjármögnun sjóðs til að auka verðmæti íslenskra sjávarafurða# þál., GAK (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 96. fundur, 128. lþ.

[22:42]

Guðjón A. Kristjánsson (andsvar):

Herra forseti. Ég held að hv. 1. þm. Norðurl. e., Halldóri Blöndal, sé farið að skjöplast allverulega. Hann talaði um það að ég hefði vitnað til sjóða sem þvílíkt sjóðasukk hefði verið í og hefðu í raun og veru verið orðnir gjaldþrota og annað slíkt.

Ég talaði um Fiskveiðasjóð og Iðnlánasjóð í ræðu minni og það vill svo vel til, herra forseti, að ég er hérna með frv. til laga um stofnun Fjárfestingarbanka atvinnulífsins.

Þar segir, með leyfi forseta, í 6. gr.:

,,Sameiginlegt eigið fé Fiskveiðasjóðs, Iðnlánasjóðs, Útflutningslánasjóðs og Iðnþróunarsjóðs nam í árslok 1995 10.615 millj. kr.``

Og þeir höfðu aukið við fé sitt um 800--1.000 millj. á árinu 1996. Þetta voru alls ekki neinir gjaldþrotasjóðir, hv. þm., þetta voru mjög eignagóðir sjóðir þegar þeir voru sameinaðir og urðu grunnurinn að Fjárfestingarbanka atvinnulífsins. Það voru meira að segja teknar frá þeim sjóðum 3.000 millj. sem voru lagðar til Nýsköpunarsjóðs.

Ég kannast ekki við það, herra forseti, að ég hafi setið í stjórn Fiskveiðasjóðs og hann hafi verið gjaldþrota, ég kem bara alveg af fjöllum í þessari söguskýringu og átta mig bara alls ekki á því hvað hv. þm. er að fara.