Fjármögnun sjóðs til að auka verðmæti íslenskra sjávarafurða

Þriðjudaginn 11. mars 2003, kl. 22:46:24 (4808)

2003-03-11 22:46:24# 128. lþ. 96.23 fundur 688. mál: #A fjármögnun sjóðs til að auka verðmæti íslenskra sjávarafurða# þál., GÁS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 96. fundur, 128. lþ.

[22:46]

Guðmundur Árni Stefánsson (andsvar):

Herra forseti. Hér hefur átt sér stað afskaplega sérkennileg orðræða og eru ekki spöruð hin breiðu spjótin hjá einum helsta forustumanni Sjálfstfl. í garð samstarfsflokksins, Framsfl. Ekki er að undra að hæstv. landbrh. sé hér genginn á dyr því hvílíkar og aðrar eins árásir og hér hafa heyrst af munni hv. 1. þm. Norðurl. e. í garð Framsfl. --- ja, það þarf að fara talsvert langt aftur til þess að rifja upp annað eins. Mér er það ekki minnisstætt að samstarfsflokkar hafi talað svona saman. Ekki meira um það.

Það rifjast hins vegar upp að 1991 kom Sjálfstfl. til valda á grundvelli þess að grípa til hinna almennu aðgerða og leggja á hilluna og til hliðar hinar svokölluðu sértæku aðgerðir sem hv. þm. hefur nú farið mikinn með og talað hér oft og einatt um sem mikil og góð bjargráð og get ég verið honum sammála um margt.

Því vil ég spyrja hv. þm. hvort breyting hafi orðið á með þeim sjóði sem hér er lagður til og fleiri sjóðum sem upp hafa dúkkað upp á síðkastið og auðvitað lykta langar leiðir af kosningavíxlum sem aðrir eiga síðan að greiða.

Ég vil nota ferðina, herra forseti, og spyrja hv. þingmann, af því hann er nú meðal forustumanna þingsins, hvort honum finnist góður bragur á því að Alþingi Íslendinga fái þetta mál til umfjöllunar og væntanlega afgreiðslu þremur dögum fyrir þingslit og þegar það jafnframt liggur fyrir að sá sjóður sem hér er um rætt hefur þegar verið stofnaður og verið komið á fót af framkvæmdarvaldinu. Eru þetta vinnubrögð sem við eigum að temja okkur?