Fjármögnun sjóðs til að auka verðmæti íslenskra sjávarafurða

Þriðjudaginn 11. mars 2003, kl. 22:48:14 (4809)

2003-03-11 22:48:14# 128. lþ. 96.23 fundur 688. mál: #A fjármögnun sjóðs til að auka verðmæti íslenskra sjávarafurða# þál., HBl (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 96. fundur, 128. lþ.

[22:48]

Halldór Blöndal (andsvar):

Herra forseti. Það er ekki nema eðlilegt að ég ræði um ríkisstjórnina frá 1988--1991 vegna þess að hún er hluti af stjórnmálasögunni og efnahagssögu og atvinnusögu okkar Íslendinga. Það verður að horfa til þess og hálfundarlegt að amast við því, en kannski skiljanlegt. Ég vil segja að það er fullkomlega eðlilegt að ekki sé beðið með að leggja þetta mál fyrir Alþingi vegna þess að hér er mikið í húfi. Við höfum orðið vör við það að hvarvetna er verið að vinna að rannsóknar- og þróunarstarfi í sjávarútvegi, til allrar hamingju, vegna þess að í sjávarútveginum hefur orðið mikil hagræðing og vegna þess að innan sjávarútvegsins starfa sterk fyrirtæki sem hafa trú á framtíð sjávarútvegsins og hafa trú á því að með rannsóknar- og þróunarstarfi sé hægt að margfalda verðmæti sjávarútvegsins eða auka skulum við segja --- það er kannski eðlilegra að nota það orð --- og vegna þess að þeim sem ráða þessum fyrirtækjum er í mun að treysta atvinnulíf og atvinnuöryggi á þeim stöðum sem þessi fyrirtæki starfa, eins og við höfum séð og getum nefnt dæmin um, mjög góð fyrirtæki hvort sem við horfum til útgerðarinnar eða fiskvinnslunnar.