Fjármögnun sjóðs til að auka verðmæti íslenskra sjávarafurða

Þriðjudaginn 11. mars 2003, kl. 22:58:39 (4813)

2003-03-11 22:58:39# 128. lþ. 96.23 fundur 688. mál: #A fjármögnun sjóðs til að auka verðmæti íslenskra sjávarafurða# þál., ÖJ
[prenta uppsett í dálka] 96. fundur, 128. lþ.

[22:58]

Ögmundur Jónasson:

Herra forseti. Hér hefur hver stjórnarandstöðuþingmaðurinn á fætur öðrum komið í pontu til að lýsa yfir þeim vilja sínum að átak verði gert til að auka verðmæti íslenskra sjávarafurða. Tilefnið er einmitt þáltill. frá hæstv. sjútvrh. með þetta að markmiði. Það sem menn hafa hins vegar verið að gagnrýna er aðferðafræðin. Hér er gert ráð fyrir ráðstöfun fjármuna úr ríkissjóði fram til ársins 2008, 200 millj. árið 2004, 250 millj. árið 2005, 300 millj. árið 2006, 350 millj. árið 2007 og árið 2008 400 millj. Engin grein er gerð fyrir því hvaðan þessir peningar eiga að koma að öðru leyti en því að þetta kemur úr ríkissjóði. Þingsályktunartillagan er svohljóðandi, með leyfi forseta:

,,Alþingi ályktar að lýsa stuðningi við stofnun sjóðs sem sjávarútvegsráðherra hefur komið á fót og hefur það hlutverk að styrkja verkefni sem stuðla að auknu verðmæti íslenskra sjávarafurða.``

Jafnframt ályktar Alþingi að á næstu fimm árum, 2004--2008, verði sjóðurinn fjármagnaður með framlagi úr ríkissjóði eins og áður var getið um.

Upp á þetta er Alþingi boðið. Ég verð að segja, herra forseti, að þessi ríkisstjórn hefur gert mörg mistök og oft hafa vinnubrögðin verið óvönduð. En enn þá kemur hún fram og ætlar að skrika fótur á síðustu metrunum. Nú skáka þeir hvor öðrum, annars vegar hæstv. sjútvrh. og hins vegar hæstv. samgrh., með loforðum út í loftið af þessu tagi.

[23:00]

Hæstv. samgrh. var spurður hvernig hann ætlaði að fjármagna samgönguáætlun til næstu ára. Svörin voru á þá lund að það yrði gert með því að einkavæða, selja ríkiseignir. Þegar gengið var á hæstv. ráðherra og hann spurður hvað hann ætlaði að selja var svarið nánast þetta: Eitthvað, bara eitthvað.

Þetta eru forkastanleg vinnubrögð. Í raun er verið að biðja Alþingi um að lýsa stuðningi við hæstv. ráðherra, við ráðherra Sjálfstfl. sem er á leið í alþingiskosningar. Þetta kosningaplagg er ekki bjóðandi Alþingi.

En fyrst hæstv. forseti, hv. þm. Halldór Blöndal, fór að rifja upp söguna og fór með okkur aftur til ársins 1988, 1989 og 1990, þegar svokallaðri þjóðarsátt var komið á, langar mig til að segja fáein orð. Árið 1988 sprakk ríkisstjórn undir forsæti hæstv. þáv. forsrh., Þorsteins Pálssonar. Aðild að þeirri stjórn áttu auk Sjálfstfl. Framsfl. og Alþfl. Við tók vinstri stjórn undir forsæti hæstv. þáv. forsrh., Steingríms Hermannssonar. Aðild að henni áttu Alþfl., Alþb. og Framsfl. Þegar hún fékk stjórnartaumana í sínar hendur geisaði verðbólga, óðaverðbólga í landinu. Verðbólgan var hátt í 30% á þessum tíma. Þótt reynt hefði verið að festa gengið fram til ársins 1988, sem þó var aðeins fast í annan endann, var svo komið á árinu 1989 að það féll um 30%. Mönnum reiknast til að kaupmáttur launa hafi fallið um 15% á þessum tíma. Þá myndast um það sátt í samfélaginu, sem aðilar vinnumarkaðar komu að, ASÍ, BSRB, Vinnuveitendasambandið og Bændasamtökin ásamt ríkisstjórninni, að taka höndum saman um að ná tökum á verðbólgunni og keyra hana niður. Það náðist gott samkomulag um þetta efni. Verðbólgan var keyrð niður í 1 eða 2%. Hvert var markmiðið? Menn ætluðu að skapa grundvöll til uppbyggingar og menn kölluðu þetta þjóðarsátt. Hvers vegna? Vegna þess að það átti að hafa réttlætið að leiðarljósi.

Hvað gerist síðan? Í maímánuði, hinn 1. maí árið 1991, er mynduð ný ríkisstjórn, ríkisstjórn Sjálfstfl. og Alþfl. Ég man hvernig blikaði á niðurskurðarhnífana þegar þeir komu úr Viðey. Verkin létu ekki á sér standa. Á næstu árum var það svo um þessa svokölluðu sátt að þjóðin stóð þar ekki lengur að baki. Sáttin var keyrð áfram á kostnað launafólks. Á árinu 1992, því ári einu, skerti ríkisstjórn Sjálfstfl. og Alþfl. barnabætur um 500 millj. kr. Það var á þessum tíma sem farið var að hækka sjúklingagjöldin, efla kostnaðarvitund inni á sjúkragöngunum, eins og þáv. hæstv. heilbrrh. Alþfl. orðaði það, Sighvatur Björgvinsson. Eru menn búnir að gleyma þessu?

Ég er ekki búinn að gleyma þessu. En þetta voru verk hægri stjórnar, ekki vinstri stjórnar. Það var vinstri stjórnin sem keyrði verðbólguna niður og skapaði hér grundvöll til uppbyggingar.