Ábúðarlög

Þriðjudaginn 11. mars 2003, kl. 23:38:14 (4816)

2003-03-11 23:38:14# 128. lþ. 96.25 fundur 651. mál: #A ábúðarlög# (heildarlög) frv., 652. mál: #A jarðalög# (heildarlög) frv., landbrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 96. fundur, 128. lþ.

[23:38]

Landbúnaðarráðherra (Guðni Ágústsson) (andsvar):

Hæstv. forseti. Örstutt. Um leið og ég þakka hv. þm. ágæta ræðu og undirtektir vil ég segja, af því að hann minntist á að margir ættu eftir að veita umsögn um frumvörpin o.s.frv., að sjálfsagt er það rétt. Ég vil bara geta þess að á þeim langa meðgöngutíma sem tekið hefur að semja þessi frv. þá hafa mjög margir aðilar komið að því og veitt umsagnir, svo sem Samband íslenskra sveitarfélaga og búnaðarþing og leitað hefur verið til fjölda aðila þannig að málið hefur fengið ríkulega umfjöllun. Síðasta búnaðarþing fékk þau í hendur og forusta Bændasamtakanna mun skila sínu áliti. Þegar málið kemur hér inn þá hygg ég að það sé nú samt sem áður allþroskað.

En ég tek undir það að þetta eru flókin mál. Ég verð að segja fyrir mig að jarðamál og átök um jarðir og eigendaskipti og þær deilur sem hafa risið eru með erfiðustu málum sem menn komast í, (Gripið fram í.) hvort sem þeir eru löglærðir eða leikir. Því þarf að vera mjög skýr löggjöf um þennan málaflokk en um leið sem einföldust eins og hv. þm. minntist á.

Eins og ég sagði ætlast ég ekki til og auðvitað verða þessi mál ekki afgreidd á þinginu núna. Samt er mikilvægt að hafa komið þeim fyrir þingið til þess að þau geti haldið áfram að þroskast.