Þingsályktunartillaga um hernaðaraðgerðir gegn Írak

Miðvikudaginn 12. mars 2003, kl. 10:37:21 (4821)

2003-03-12 10:37:21# 128. lþ. 97.92 fundur 495#B þingsályktunartillaga um hernaðaraðgerðir gegn Írak# (aths. um störf þingsins), SAÞ
[prenta uppsett í dálka] 97. fundur, 128. lþ.

[10:37]

Sigríður A. Þórðardóttir:

Herra forseti. Ég tek undir málflutning utanrrh. í því máli sem hér er verið að ræða. Ég vil rifja það upp að við höfum margsinnis rætt þessi mál í utanrmn. Alþingis, m.a. með hæstv. utanrrh. Þessi mál voru rædd í umræðum um skýrslu utanrrh. um utanríkismál 27. febrúar sl. Ályktun og samþykkt Sameinuðu þjóðanna liggur fyrir. Hún gengur út á það að afvopna Íraka og það er auðvitað ekki útilokað þar að það geti komið til aðgerða. Menn eru sammála um að slík hótun þurfi að liggja undir.

Ég vakti sérstaka athygli á því í umræðum um utanríkismál 27. febrúar að utanríkisráðherra Svía, Anna Lindh, sem var þá nýbúin að vera hér í heimsókn, lýsti því í blaðaviðtali að slík hótun yrði að vera til staðar gagnvart Saddam Hussein. Mér þótti mjög merkilegt að heyra utanrríkisráðherra Svía koma að málunum með þessum hætti sem lýsir því auðvitað að þar er alþjóðasamfélagið sammála um að þess þurfi. Annars muni ekkert gerast. Þessi mál fjalla um trúverðugleika Sameinuðu þjóðanna, að fylgja eftir þeim samþykktum sem menn gera þar, og fjalla fyrst og fremst um það. Menn hafa deilt um tíma o.s.frv. og þessi mál eru á viðkvæmu stigi. Menn eru að takast á um þau í öryggisráði Sameinuðu þjóðanna og það er ekkert tilefni til þess af okkar hálfu nú að afgreiða ályktun af þessu tagi hér á Alþingi.