Þingsályktunartillaga um hernaðaraðgerðir gegn Írak

Miðvikudaginn 12. mars 2003, kl. 10:39:36 (4822)

2003-03-12 10:39:36# 128. lþ. 97.92 fundur 495#B þingsályktunartillaga um hernaðaraðgerðir gegn Írak# (aths. um störf þingsins), ÖJ
[prenta uppsett í dálka] 97. fundur, 128. lþ.

[10:39]

Ögmundur Jónasson:

Herra forseti. Hv. formaður utanrmn. þingsins segir að hugsanlega komi til aðgerða, og er þá verið að lýsa yfirvofandi hernaðarárás mesta herveldis heims á íröksku þjóðina. Við höfum áður heyrt þennan tón, þennan óbilgjarna og mér liggur við að segja öfgafulla tón frá hæstv. utanrrh. sem talar sama rómi, sömu röddu og haukarnir í Washington. Hann auglýsir eftir skoðunum mínum á mannréttindum og valdbeitingu hernaðarstórveldis. Það stendur ekki á mér að ræða slíkt. En hæstv. ráðherra vill koma í veg fyrir að ég fái að gera það hér á Alþingi vegna þess að stjórnarmeirihlutinn er að meina okkur að taka þessa þáltill. hér til umfjöllunar. Við óskum eftir umræðu um þessi mál og þá mun ekki standa á okkur að gera grein fyrir sjónarmiðum okkar.

Hæstv. ráðherra segir að það sé bærileg samstaða um það á Alþingi að beita Íraka hernaðarofbeldi. Það er þetta, hæstv. utanrrh., sem við viljum láta reyna á. Við teljum að það sé lýðræðislegur réttur okkar sem ríkisstjórnin meinar okkur um.