Þingsályktunartillaga um hernaðaraðgerðir gegn Írak

Miðvikudaginn 12. mars 2003, kl. 10:43:18 (4824)

2003-03-12 10:43:18# 128. lþ. 97.92 fundur 495#B þingsályktunartillaga um hernaðaraðgerðir gegn Írak# (aths. um störf þingsins), SJS
[prenta uppsett í dálka] 97. fundur, 128. lþ.

[10:43]

Steingrímur J. Sigfússon:

Herra forseti. Þetta mál, eins og það stendur núna, snýst ekki um það hvort til greina geti komið að beita valdi einhvers staðar og einhvern tíma í samskiptum aðila. Það snýst ekki um það. Þetta mál, eins og það stendur núna, snýst um það hvort það sé réttlætanlegt að ráðast á Írak á allra næstu dögum eða ekki. Ísland getur með ósköp einföldum hætti skýrt stöðu sína í því sambandi. Það getur tilkynnt hvorum megin hópi ríkja það vill tilheyra, þeim sem ekki telja slíkt réttlætanlegt, þjóðum eins og Frökkum, Rússum, Kínverjum og Þjóðverjum og reyndar almenningsáliti heimsbyggðarinnar að langmestu leyti, eða hvort Ísland vill skipa sér í lið með Bandaríkjamönnum og Tony Blair. Um það snýst þetta mál. Tillagan hefði ósköp einfaldlega komið því á hreint hvorum megin hópi ríkja, þótt ekki sé kannski rétt að tala um það --- í hvorri fylkingunni, skulum við segja, Ísland ætlar að vera. Það er alveg ástæðulaust, herra forseti, að gera einfalda hluti flókna.

Það sem tillagan gengur út á og það sem við vildum fá hér fram á lokadögum þingsins er ósköp einfaldlega þetta: Hvorum megin í þessum fylkingum er Ísland? Um það er spurt úti um allan heim í dag. Sem betur fer eiga Bandaríkjamenn og Tony Blair sér fáa formælendur hvað sem kann að líða möguleikum þeirra til að þvinga fram nægan stuðning í öryggisráðinu við slíka afgreiðslu.

Mér finnst, herra forseti, að það sé mikill ljóður á störfum okkar hér hvað varðar vinnubrögð, hefðir og þá eftir atvikum þingstörf að ekki skuli vera hægt að knýja fram einfalda atkvæðagreiðslu um prinsippmál af þessu tagi þannig að það liggi bara fyrir og sé á hreinu. Stendur Ísland með Frökkum og öðrum þjóðum sem eru að reyna að koma í veg fyrir að ráðist verði á Írak á allra næstu dögum eða er Ísland hinum megin í málinu?