Þingsályktunartillaga um hernaðaraðgerðir gegn Írak

Miðvikudaginn 12. mars 2003, kl. 10:45:32 (4825)

2003-03-12 10:45:32# 128. lþ. 97.92 fundur 495#B þingsályktunartillaga um hernaðaraðgerðir gegn Írak# (aths. um störf þingsins), KPál
[prenta uppsett í dálka] 97. fundur, 128. lþ.

[10:45]

Kristján Pálsson:

Herra forseti. Ég vil lýsa því yfir að ég styð ríkisstjórnina í þeim aðgerðum sem hún hefur ákveðið í þessu máli og tel að þar hafi verið rétt að öllu staðið. Ég tel aftur á móti að umræða um þetta mál í þinginu sé eðlileg og get tekið undir það að mál sem varða svo brýna og mikilvæga hagsmuni fyrir alla heimsbyggðina eigi alveg rétt á umræðu hér á hv. Alþingi.

Það er auðvitað mjög alvarlegt mál að sú staða skuli vera uppi í heimsbyggðinni í dag að Bandaríkjamenn og meðfylgjendur þeirra séu jafnvel að fara í stríð. Það er ljóst eftir sem áður að Saddam Hussein Íraksforseti er einn versti harðstjóri sem þekkst hefur og það er ekki heiglum hent að eiga við slíka menn. Þess vegna hljótum við að taka afstöðu með þeim lýðræðislegu ríkjum sem vilja halda uppi lýðræði í þessum heimi.