Þingsályktunartillaga um hernaðaraðgerðir gegn Írak

Miðvikudaginn 12. mars 2003, kl. 10:47:01 (4826)

2003-03-12 10:47:01# 128. lþ. 97.92 fundur 495#B þingsályktunartillaga um hernaðaraðgerðir gegn Írak# (aths. um störf þingsins), forsrh.
[prenta uppsett í dálka] 97. fundur, 128. lþ.

[10:47]

Forsætisráðherra (Davíð Oddsson):

Herra forseti. Ég átta mig ekki á því af hverju hv. þm. Vinstri grænna kjósa að haga orðum sínum svo hér að hæstv. utanrrh. og ríkisstjórnin vilji stuðla að árás á íröksku þjóðina. Menn vita auðvitað að það er ekki svo. Menn vita auðvitað að sá sem er einvaldur í Bagdad um þessar mundir er kannski mesti óvinur íröksku þjóðarinnar sem fyrirfinnst, enda hefur sá maður ekki hikað við að nota eiturvopn á sína eigin þjóð, myrða þúsundir, tugi þúsunda. Hann hefur farið í stríð við nágranna sína. Þar féll ein milljón manna vegna aðgerða og ákvarðana þessa einvalds. Hvers vegna kjósa menn að haga orðum sínum svo, sem er ekki sannleikanum samkvæmt, að segja að heimurinn skiptist í tvær fylkingar, þá sem telji að komi til greina að gera árás á Írak til þess að losna við Saddam Hussein og hina sem vilja það aldrei eins og sagt var? Frakkar voru nefndir til sögunnar. Frakklandsforseti hefur sérstaklega sagt að valdbeiting hljóti að koma til greina, hins vegar þurfi að gefa meiri tíma, það sé ekki fullreynt. Hann hefur aldrei farið í þá fylkingu sem hv. þm. var að nefna að hann væri í, sem teldi aldrei koma til greina að fjarlægja þennan rudda úr valdastól með valdi. Þvert á móti. Þetta er algerlega mislýsing á atburðunum.

Hæstv. utanrrh. hefur marggert grein fyrir því hér að hann og íslenska ríkisstjórnin hafa ætíð lagst á þá sveifina að fara með friðsamlegum hætti gagnvart þessum manni en þó með fullum þunga hótana. Og það vita allir í þessum sal að það hefði ekkert gerst, það hefur nú lítið gerst hjá vopnaeftirlitinu, en það hefði ekkert gerst nema af því að 300 þús. hermenn bíða þess albúnir að taka í taumana. Þá verða menn að meina þá hótun. Ef þeir mundu lýsa því yfir, eins og hv. þm. hér, að það komi aldrei til greina að fara á hendur Saddam Hussein væri hótunin einskis virði. En þarna er búið að byggja upp 300 þús. manna her og það er óhjákvæmilegt að taka í taumana ef þessi maður hlýðir ekki.