Staða íslenska táknmálsins

Miðvikudaginn 12. mars 2003, kl. 11:01:50 (4832)

2003-03-12 11:01:50# 128. lþ. 97.1 fundur 660. mál: #A staða íslenska táknmálsins# fsp. (til munnl.) frá forsrh., Fyrirspyrjandi KolH
[prenta uppsett í dálka] 97. fundur, 128. lþ.

[11:01]

Fyrirspyrjandi (Kolbrún Halldórsdóttir):

Herra forseti. Ég þakka hæstv. forsrh. fyrir þau svör sem hann gaf og í sjálfu sér fagna ég þeirri yfirlýsingu hans um að það væru langtímamarkmið ríkisstjórnarinnar að taka þannig á þessum málum að þau verði færð til betri vegar. En ég saknaði þess sárlega, herra forseti, úr svari hæstv. forsrh. hvort hann hygðist með því lögleiða íslenska táknmálið sem móðurmál heyrnarlausra.

Ég verð að segja, herra forseti, að það er trú mín að þessi vandræði verði ekki leyst fyrr en táknmál heyrnarlausra er lögfest og jafnvel sett um það ákvæði í stjórnarskrá. Það hefur verið gert í nágrannalöndum okkar, fleiri en einu. Þar sem táknmál hefur verið lögleitt hefur líka verið sett ákvæði í stjórnarskrá um það og það er auðvitað vegna þess að mönnum hefur ekki tekist að koma þeim málaflokki nægilega fyrir án þess að lagalega sé staða málsins algerlega trygg. Við verðum að átta okkur á því, herra forseti, að heyrnarlausir einstaklingar eiga ekki sama aðgang að samfélaginu meðan þeir eiga ekki möguleika á því að fá túlkaþjónustu við hæfi. Og 22 millj. kr. á ári nægja ekki, það hefur margoft sýnt sig. Ég er sammála hæstv. forsrh. í því að gífurlega kostnaðarsamt er að tryggja þennan rétt heyrnarlausra kosti það það sem það þarf að kosta. En við verðum að setja okkur markmið um að ná þeim árangri sem við viljum ná og mér finnst skorta á það að hæstv. ríkisstjórn setji sér tímabundin langtímamarkmið í þessum efnum. Mér finnst starfshóparnir sem settir voru á laggirnar í sjálfu sér hafa átt að gera eitthvað slíkt en þeir hafa ekki skilað þeim árangri sem mér hefði fundist eðlilegt að þeir gerðu. Því sakna ég þess enn, herra forseti, að íslenska ríkisstjórnin gefi okkur yfirlýsingu um það að íslenskt táknmál verði leitt í lög.