Staða íslenska táknmálsins

Miðvikudaginn 12. mars 2003, kl. 11:03:59 (4833)

2003-03-12 11:03:59# 128. lþ. 97.1 fundur 660. mál: #A staða íslenska táknmálsins# fsp. (til munnl.) frá forsrh., forsrh. (svar)
[prenta uppsett í dálka] 97. fundur, 128. lþ.

[11:03]

Forsætisráðherra (Davíð Oddsson):

Herra forseti. Mér þykir að umræðan hafi heldur skýrt þetta mál, sú umræða sem hér hefur farið fram í kjölfar fyrirspurnar hv. þm. Það er alveg ljóst að við höfum nú þegar ákveðið form til að byggja á til þess að auka og gera þjónustu við heyrnarlausa markvissari. Að því eigum við auðvitað að vinna í samráði við þann félagsskap og það er vilji til þess. Það er einnig langtímamarkmið ríkisstjórnarinnar eins og ég segi að tryggja það að lokum að heyrnarlausir geti umgengist móðurmál sitt með þeim hætti að það sé jafngilt því sem aðrir búa við og það á að tryggja með lögum. En ég tel að rétt sé að staðið í þeim efnum að auka smám saman stuðning við þá þjónustu sem nú er veitt, byggja það upp stig af stigi, ekki að gefa út innihaldslitlar stóryrtar yfirlýsingar sem menn eru síðan ár og daga að uppfylla. Það hljómar ágætlega og losar okkur kannski við vandamál hér en ég lít ekki á það sem réttu aðferðina. Auðvitað veit hv. þm. að það eru aðeins tveir, þrír dagar eftir af þessu þingi þannig að á þessu þingi verður ekkert gert sem máli skiptir í því sambandi. Þessu þingi er að ljúka. Það er langtímamarkmið núverandi ríkisstjórnar að vinna að slíku markmiði. Enginn veit hvaða ríkisstjórn situr eftir kosningar. Sumir okkar vona það besta.