Starfslokasamningar hjá varnarliðinu á Keflavíkurflugvelli

Miðvikudaginn 12. mars 2003, kl. 11:08:32 (4835)

2003-03-12 11:08:32# 128. lþ. 97.2 fundur 672. mál: #A starfslokasamningar hjá varnarliðinu á Keflavíkurflugvelli# fsp. (til munnl.) frá utanrrh., utanrrh. (svar)
[prenta uppsett í dálka] 97. fundur, 128. lþ.

[11:08]

Utanríkisráðherra (Halldór Ásgrímsson):

Herra forseti. Varnarliðið hefur á sl. fimm árum gert starfslokasamninga við einstaka starfsmenn sem náð hafa 67 ára aldri. Í samningum þessum hefur verið tekið tillit til starfsaldurs hjá varnarliðinu og greiðslur við starfslok hafa verið sem svarar frá eins til sex mánaða launum. Hver einstakur samningur var gerður af starfsmannahaldi varnarliðsins að viðhöfðu samráði og samþykki þeirra einstöku stofnana varnarliðsins sem hlut hafa átt að máli hverju sinni. Engir slíkir samningar hafa verið gerðir nema slíkt samþykki væri fyrir hendi.

Rétt er að taka fram að starfslokasamningar þessir eiga sér ekki stoð í ákvörðunum kaupskrárnefndar heldur hefur verið samið um þá í hvert og eitt sinn. Þeir hafa einkum verið gerðir þegar þurft hefur að endurskipuleggja og hagræða í starfsliði hjá varnarliðinu án beitingar uppsagna eins og gengur og gerist í fyrirtækjum og annarri starfsemi almennt.

Varðandi seinni spurninguna þá er það rétt að varnarliðið tók upp breytta stefnu varðandi starfslokasamninga í byrju þessa árs. Hætt er að gera starfslokasamninga en hins vegar hafa verið settar reglur um sveigjanleg starfslok eins og víða tíðkast. Íslenskum starfsmönnum er nú gert að ákveða fyrir 70 ára aldur hvenær þeir vilja hætta störfum eða hvort þeir óski þess að starfa fram yfir 70 ára aldur. Framhaldsráðningar eru heimilar að fengnu samþykki yfirmanna þeirra stofnana varnarliðsins sem starfsmaður er ráðinn til og vottorði trúnaðarlæknis.

Fyrsta framlenging getur numið allt að einu ári en seinni framlengingar allt að sex mánuðum hverju sinni með sömu skilyrðum. Þannig geta starfsmenn haldið áfram störfum og átt möguleika á sveigjanleika í ákvörðun starfsloka sinna hjá varnarliðinu. Starfsmannahald varnarliðsins hefur átt fundi með þeim starfsmönnum sem breytingar þessar hafa áhrif á nú þegar og útskýrt þær breyttu reglur sem hér er um að ræða. Starfsmannahaldið mun kynna öðrum starfsmönnum þetta mál enn frekar á næstu vikum. Það hefur ekki verið jafnbrýnt en það mun verða gert.

Rétt er að taka fram að íslenskir starfsmenn varnarliðsins eru starfsmenn hinna ýmsu stofnana varnarmálaráðuneytis Bandaríkjanna er aðild eiga að varnarliðinu. Ráðningardeild varnarmálaskrifstofu utanrrn. annast ráðningu í upphafi en starfsmannahald varnarliðsins, sem er eitt af sviðum flugflotastöðvar varnarliðsins, hefur alla síðari umsjón með íslenskum og bandarískum borgurum er starfa hjá hinum ýmsu stofnunum varnarliðsins.