Samskipti Íslendinga og bandarískra hermanna

Miðvikudaginn 12. mars 2003, kl. 11:18:43 (4839)

2003-03-12 11:18:43# 128. lþ. 97.3 fundur 686. mál: #A samskipti Íslendinga og bandarískra hermanna# fsp. (til munnl.) frá utanrrh., utanrrh. (svar)
[prenta uppsett í dálka] 97. fundur, 128. lþ.

[11:18]

Utanríkisráðherra (Halldór Ásgrímsson):

Herra forseti. Almennar reglur um samskipti Íslendinga og bandarískra hermanna á Keflavíkurflugvelli byggjast á varnarsamningnum frá 1951. Þar segir m.a. í 2. gr. viðbætis við samninginn að liði Bandaríkjanna og skylduliði liðsmanna á Íslandi beri að virða íslensk lög. Síðan segir að íslensk stjórnvöld hafi lögsögu yfir mönnum í liði Bandaríkjanna að því er varðar brot sem framin eru á Íslandi og refsiverð eru að íslenskum lögum.

Þrátt fyrir ofangreinda meginreglu er lögsögu á Keflavíkurflugvelli skipt milli íslenskra og bandarískra stjórnvalda að því marki að samkvæmt 10. tölul. 2. gr. viðbætis við varnarsamninginn segir að lið Bandaríkjanna hafi rétt til að fara með lögregluvald á samningssvæðunum og gera allar viðeigandi ráðstafanir til að halda þar uppi aga, allsherjarreglu og öryggi. Á grundvelli framangreinds ákvæðis í varnarsamningnum um lögregluvald liðs Bandaríkjanna var gerður samningur árið 1988 um löggæslu á varnarsvæðunum. Samningurinn felur í sér að það séu markmið og hagsmunir íslensku lögreglunnar og öryggisvarða varnarliðsins að styðja hvor annan í störfum sínum. Því skuli vinsamleg og fullkomin samvinna ríkja á milli aðila um að framfylgja gildandi lögum og ber hvorum um sig að aðstoða hinn við að vinna hin sérstöku skyldustörf sín. Lögregluvald öryggisvarða varnarliðsins nær ekki lengra en að koma í veg fyrir brot eða framhald brots og ber þeim því skilyrðislaust að kalla til íslenska lögreglu eigi íslenskir ríkisborgarar í hlut.

Varðandi síðari lið fyrirspurnarinnar er rétt að taka það fram að það er að sjálfsögðu reynt með margvíslegum hætti að tryggja að framangreindar samskiptareglur séu virtar. Í fyrsta lagi er sameiginlegt eftirlit íslensku lögreglunnar og öryggisvarða varnarliðsins viðhaft við hlið varnarstöðvarinnar allan sólarhringinn. Sameiginlegt eftirlit löggæsluaðila beggja er innan varnarstöðvarinnar en það felur í sér að bandarískur öryggisvörður er ásamt íslenskum lögreglumanni í eftirliti í varnarstöðinni á íslenskri lögreglubifreið. Ef auka þarf öryggisviðbúnað á varnarsvæðunm er þetta öryggiseftirlit eflt og rétt er að taka það fram að til þess getur komið að mismunandi stig öryggisgæslu sé viðhaft á varnarsvæðunum og þá fer það eftir því hættumati sem ríkir að mati Bandaríkjanna í stöðvum sínum um allan heim. Það á t.d. við um hugsanlegan vopnabúnað eins og hv. þm. tók fram.

Í öðru lagi hafa yfirmenn öryggismála sýslumannsembættisins á Keflavíkurflugvelli og yfirmenn varnarliðsins með sér samráðsfundi a.m.k. einu sinni í viku þar sem samskipti eru rædd og ýmis mál tekin fyrir eins og t.d. kvartanir frá varnarliðsmönnum og Íslendingum og að sjálfsögðu er það í þessum samskiptum eins og öllum öðrum samskiptum að ýmislegt kemur upp sem betur má fara en þessi vettvangur er fyrir hendi og hann hefur reynst mjög góður í því að taka á málum og bæta þessi samskipti og fara yfir þá hnökra sem hafa komið upp og leita úrbóta á þeim.