Hvalveiðar

Miðvikudaginn 12. mars 2003, kl. 11:36:20 (4845)

2003-03-12 11:36:20# 128. lþ. 97.4 fundur 467. mál: #A hvalveiðar# fsp. (til munnl.) frá sjútvrh., Fyrirspyrjandi GuðjG
[prenta uppsett í dálka] 97. fundur, 128. lþ.

[11:36]

Fyrirspyrjandi (Guðjón Guðmundsson):

Herra forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra svarið. Það var skýlaust að með samþykkt ríkisstjórnarinnar fól Alþingi ríkisstjórninni að kynna málstað og sjónarmið Íslands meðal viðskiptaþjóðanna. Það hefur heilmikið verið unnið í því eins og fram kom í máli hæstv. ráðherra og ég tek það fram að ég tel að hann hafi staðið sig vel í því og tek sem dæmi um það að þegar ég var staddur í Bandaríkjunum fyrir hálfu öðru ári þá var mér sagt að hann hefði snúið heilu háskólunum til fylgilags við okkur þar sem voru þúsundir nemenda allir á móti hvalveiðum en allir með þeim eftir að hafa rökrætt við hæstv. ráðherra.

Ég held að ekki verði miklu meira gert í þessu kynningarstarfi. Það er búið að gera þar góða hluti. Okkur reyndist nauðsynlegt að ganga að nýju í Alþjóðahvalveiðiráðið og það höfum við nú gert með fyrirvara varðandi bann við hvalveiðum í atvinnuskyni. Við erum núna viðurkenndir aðilar að ráðinu eftir að nokkrar þjóðir höfðu strögglað gegn okkur á þeim vettvangi. Og það er skýlaus réttur aðildarþjóða ráðsins að stunda hvalveiðar í vísindaskyni. Þær hafa ekki verið stundaðar hér við land hátt í 14 ár og er aðkallandi að hefja rannsóknir að nýju og nauðsynlegt að skoða m.a. áhrif hvala á fiskstofnana sem eru undirstaða afkomu okkar.

Japanar og fleiri þjóðir stunda veiðar í vísindaskyni og okkur er ekkert að vanbúnaði að gera það líka. Hæstv. ráðherra sagði að nú yrði rannsóknaáætlun lögð fyrir Alþjóðahvalveiðiráðið og að fundir þess og vísindanefndarinnar verði í júní. Eftir 19. júní er okkur ekkert að vanbúnaði að heimila þessar veiðar.

Hæstv. ráðherra nefndi milliríkjaverslun með afurðir og það er út af fyrir sig rétt að ekki verður mikið veitt ef ekki tekst að selja afurðirnar. En eins og ég hef oft sagt áður hér á Alþingi, þá held ég að það reyni ekki í alvöru á það fyrr en veiðarnar hafa verið leyfðar. Þess vegna á ríkisstjórnin að heimila hvalveiðar strax eftir fund Alþjóðahvalveiðiráðsins 19. júní. Það mun gleðja okkur flutningsmenn, mig, hæstv. sjútvrh., og hæstv. umhvrh. og fleiri góða menn, og ég minni á það einu sinni enn að um fá mál er meiri samstaða meðal þjóðarinnar en að hefja hvalveiðar að nýju.