Hvalveiðar

Miðvikudaginn 12. mars 2003, kl. 11:38:36 (4846)

2003-03-12 11:38:36# 128. lþ. 97.4 fundur 467. mál: #A hvalveiðar# fsp. (til munnl.) frá sjútvrh., sjútvrh. (svar)
[prenta uppsett í dálka] 97. fundur, 128. lþ.

[11:38]

Sjávarútvegsráðherra (Árni M. Mathiesen):

Herra forseti. Það er rétt hjá hv. fyrirspyrjanda að um margt hefur kynningarstarfið gengið ágætlega þótt þar sé auðvitað enn þá mikið starf óunnið. En við höfum á þessum árum frá því að þál. var samþykkt verið að stíga hvert skrefið á fætur öðru sem færir okkur nær hvalveiðum. Við verðum auðvitað að hafa það hugfast að við erum í alþjóðasamstarfi um þessi mál og við verðum að fylgja þeim reglum sem þar gilda. Það mundi einungis gera róðurinn enn þyngri fyrir okkur ef við reyndum að hefja hvalveiðar án þess að fara eftir þeim reglum sem alþjóðasamfélagið hefur samþykkt og við höfum gengist undir að fylgja.

Því má segja að sú ákvörðun sem nú hefur verið tekin um að leggja rannsóknaáætlunina undir Alþjóðahvalveiðiráðið sé seinasta skrefið í undirbúningnum og því sé næsta skref að taka ákvörðun um hvenær veiðarnar eigi að hefjast en eins og fram kom bæði hjá mér og hv. fyrirspyrjanda verða þær veiðar ekki mjög umfangsmiklar ef ekki er markaður fyrir afurðirnar. En við verðum að óska þess að við fáum góð viðbrögð við áætlun okkar og að jákvæð þróun verði á mörkuðunum og þá ættu hvalveiðar að geta hafist áður en við vitum af.