Álagning STEF-gjalda á óskrifaða geisladiska

Miðvikudaginn 12. mars 2003, kl. 11:43:41 (4848)

2003-03-12 11:43:41# 128. lþ. 97.5 fundur 642. mál: #A álagning STEF-gjalda á óskrifaða geisladiska# fsp. (til munnl.) frá menntmrh., menntmrh. (svar)
[prenta uppsett í dálka] 97. fundur, 128. lþ.

[11:43]

Menntamálaráðherra (Tómas Ingi Olrich):

Herra forseti. Í ljósi þess að stærstur hluti tónlistar og myndefnis sem gefið er út á geisladiskum er efni erlendra höfunda þykir rétt að gera grein fyrir þeim alþjóðlegu skuldbindingum sem íslenska ríkið hefur undirgengist. Með aðild að Bernarsáttmálanum til verndar bókmenntum og listaverkum, samanber lög nr. 74/1947 og auglýsingu nr. 110/1947, og samanber lög nr. 80/1972 og síðan með aðild að svonefndum TRIPS-samningi frá árinu 1994 --- en TRIPS stendur fyrir Trade-Related Aspects of Intellectual Property Rights --- en sá samningur er hluti af stofnsamningi um Alþjóðaviðskiptastofnunina, þá hefur Ísland undirgengist að veita þegnum annarra aðildarríkja svonefnda innlenda meðferð og lágmarksréttindi höfunda. Þeirra mikilvægust eru einkaréttindi höfunda til að gera eintök af verkum sínum, samanber 3. gr. höfundalaga, nr. 73/1972. Frá þeim einkarétti heimilar Bernarsáttmálinn að gerðar séu undantekningar ef ákveðin skilyrði eru uppfyllt. Slíka undantekningu frá einkarétti höfundar er að finna í 11. gr. höfundalaganna þar sem heimild er veitt til eintakagerðar af frumeintaki verks sem útvarpað hefur verið eða gefið út á myndriti eða hljóðriti þegar um einkanot er að ræða. Þessi takmörkun á einkarétti höfundar er háð því skilyrði að höfundur fái sérstakt endurgjald af verði upptökumiðla og tækja vegna upptöku verka þeirra sem þannig fer fram. Gjöldin ber í samræmi við alþjóðlegar skuldbindingar að innheimta hvort sem um innlenda eða innflutta framleiðslu er að ræða og hvílir skylda til að svara gjöldunum á innflytjendum og á framleiðendum.

Í fyrirspurn hv. þm. kemur fram sá misskilningur að framangreind gjöld á myndbönd, hljóðbönd og diska og tæki séu STEF-gjöld en svo er ekki, heldur er um að ræða sérstakt höfundarréttargjald sem rennur til Samtaka höfundarréttarfélaga, þar með talið félaga listflytjenda og framleiðenda, samanber 6. mgr. 11. gr. höfundalaga, sem sjá þá um innheimtu gjaldanna og ráðstafa þeim til höfunda og annarra rétthafa. Framangreind samtök hafa stofnað með sér félagsskap um greinda innheimtu er nefnist Innheimtumiðstöð gjalda samanber reglugerð nr. 141/1985.

Um svonefnd STEF-gjöld er hins vegar fjallað í V. kafla höfundalaganna er varða réttindi listflytjenda og útgefenda til endurgjalds fyrir opinberan flutning verka þeirra. Tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins 2001/29/EB, frá 22. maí 2001, um samræmingu tiltekinna þátta höfundarréttar og skyldra réttinda í upplýsingasamfélaginu, mun renna frekari stoðum undir gjaldheimtu í þágu höfunda þegar einkaréttindi þeirra til eintakagerðar eru takmörkuð með sambærilegum hætti og fram kemur í 11. gr. höfundalaganna. Samkvæmt tilskipuninni er aðildarríkjum ESB og EES skylt að innleiða í landslög sín höfundarréttargjald af óskrifuðum diskum.

Eins og staðan er í dag hefur ekki þótt ástæða til að endurskoða álagningu höfundarréttargjaldsins. Hins vegar kann að reyna á þessi sjónarmið síðar í tengslum við gerð frv. til breytinga á höfundalögum, nr. 73/1972, sem áætlað er að leggja fram á haustþingi 2003 og mun að mestu leyti fela í sér innleiðingu framangreindrar tilskipunar en í 39. skýringargrein hennar segir að við beitingu á heimild eða takmörkunum varðandi eintakagerð til einkanota eigi aðildarríkin að taka hæfilegt tillit til tæknilegra og efnahagslegra breytinga, einkum með tilliti til stafrænnar eintakagerðar og gjaldtöku þeim tengdum þegar áhrifaríkar afritunarvarnir eru fáanlegar.

Gera má ráð fyrir að álagning og úthlutun höfundarréttargjaldsins eins og það er nú muni sæta endurskoðun síðar í ljósi breyttrar tækni eins og framangreind skýringarregla mælir fyrir um. Þess má geta í þessu tilfelli að Danir hafa sett inn í nýja breytingu á höfundalögum sínum ákvæði um endurskoðun þessara atriða að þremur árum liðnum.