Álagning STEF-gjalda á óskrifaða geisladiska

Miðvikudaginn 12. mars 2003, kl. 11:47:53 (4849)

2003-03-12 11:47:53# 128. lþ. 97.5 fundur 642. mál: #A álagning STEF-gjalda á óskrifaða geisladiska# fsp. (til munnl.) frá menntmrh., Fyrirspyrjandi SvanJ
[prenta uppsett í dálka] 97. fundur, 128. lþ.

[11:47]

Fyrirspyrjandi (Svanfríður Jónasdóttir):

Herra forseti. Það kemur fram hjá hæstv. menntmrh. að hann telur ekki ástæðu til endurskoðunar. Sú ástæða hefur samt verið fundin einhvern tíma frá því að ég leit á reglugerðina og þar til nú vegna þess að gjöldin hafa verið hækkuð um 100%. Það eru ekki lengur 17 kr. á minni diskana heldur 35 kr. í dag og ekki lengur 50 kr. á stærri diskana heldur 100 kr. Þannig, herra forseti, virðist hafa verið að mati hæstv. ráðherra ástæða til endurskoðunar og sú ástæða var til hækkunar um 100%. Það er líklega það sem hann talaði um hér áðan sem hæfilegt tillit til tækniþróunar. Eða hvað?

Fram kom í máli mínu að tækniþróunin er í þá veru að gera torveldara að afrita diska og ég er bara að tala um diska, ég er ekki að tala um annað. Tækniþróunin er í þá átt að gera það torveldara og sú tækni virðist virka. Það er þess vegna sem ég er að spyrja: Er ekki ástæða til endurskoðunar? Og þá var ég að sjálfsögðu, herra forseti, að velta því fyrir mér hvort ekki væri ástæða til að lækka gjaldið þveröfugt við þá niðurstöðu sem hæstv. ráðherra virðist hafa komist að með hækkun gjaldsins. Og af því að hann vísar til þeirra skuldbindinga sem við erum með gagnvart erlendum aðilum sem eigi rétt á endurgreiðslum vegna tónlistar sem flutt er hér, þá væri fróðlegt að fá upplýsingar hjá hæstv. ráðherra um það vegna þess að hann hlýtur að byggja þessa 100% hækkun á því sem er að gerast annars staðar: Hversu mikið er hægt að afrita af þeim diskum sem fluttir eru inn í landið með tónlist? Hafa þeir erlendu aðilar sem standa að útgáfu tónlistar á geisladiskum ekki uppgötvað þá tækni sem Skífan beitir með svo ágætum árangri að ekki er hægt að brjótast í gegn? Eða eru menn þar algerlega grandalausir gagnvart því að afritað sé af diskum? Hversu mikið er þetta og á hverju byggði hæstv. ráðherra þessa 100% hækkun þegar hann endurskoðaði gjöldin og hækkaði svo mikið sem raun ber vitni?