Meistaranám iðngreina

Miðvikudaginn 12. mars 2003, kl. 11:55:47 (4853)

2003-03-12 11:55:47# 128. lþ. 97.6 fundur 656. mál: #A meistaranám iðngreina# fsp. (til munnl.) frá menntmrh., Fyrirspyrjandi BjörgvS
[prenta uppsett í dálka] 97. fundur, 128. lþ.

[11:55]

Fyrirspyrjandi (Björgvin G. Sigurðsson):

Herra forseti. Ég þakka hæstv. menntmrh. fyrir svarið. Það er brýnt að ræða þessi mál á hinu háa Alþingi og velta því fyrir sér hvernig þessu sé til framtíðar best háttað og varið og ítreka ég mikilvægi samræmisins að því leytinu að iðnmeistaranám á Íslandi sé ekki mikið lengra en það sem víðast gerist og sérstaklega t.d. á Norðurlöndunum en það er kannski hvað auðveldast og sanngjarnast að bera okkar námsuppbyggingu saman við fyrirkomulagið þar. En til að efla aðsókn og undirbyggja iðnmenntun til framtíðar held ég að mikilvægt sé, herra forseti, að stytta námið og rúnna það af þannig að það sé aðgengilegra og kræsilegra fyrir iðnaðarmenn í fullri vinnu að takast það á hendur að sækja kvöldskóla og afla sér þessarar aukamenntunar og framhaldsmenntunar sem er ákaflega mikilvæg.

Þörfin er vissulega mismikil eftir greinum. Í mörgum greinanna blasir við að um alvarlegan skort á iðnmeisturum verður að ræða innan fárra ára verði ekki gripið til þeirra aðgerða sem hér hefur verið rætt um sem felast fyrst og fremst í því að stytta námið og gera það að fýsilegri kosti fyrir iðnaðarmenn til að sækja.

Það er sanngirnismál að samræming sé á milli umfangs og inntaks meistaranáms í iðnréttindum á Íslandi og í þeim löndum sem við viljum líkjast og bera okkur saman við eins og EES-löndunum og norrænu löndunum.