Höfundaréttur

Miðvikudaginn 12. mars 2003, kl. 11:59:08 (4855)

2003-03-12 11:59:08# 128. lþ. 97.7 fundur 674. mál: #A höfundaréttur# fsp. (til munnl.) frá menntmrh., Fyrirspyrjandi PHB
[prenta uppsett í dálka] 97. fundur, 128. lþ.

[11:59]

Fyrirspyrjandi (Pétur H. Blöndal):

Herra forseti. Hugverk mannsins eru ýmiss konar, t.d. ritsmíðar allt frá SMS-skilaboðum upp í þykkar bækur, höggmyndir, húsasmíði, ljósmyndir, stjórnun fyrirtækja, tónlist, leiklist, hugbúnað og ræður svo nokkuð sé nefnt. Flest af þessu má geyma í tölvu og vinna með tölvu. Og það er sífellt erfiðara að fylgjast með þessum hugverkum þar sem þau má flytja með símalínu eða í gegnum gervitungl hvert sem er milli tveggja staða í heiminum.

Samkvæmt lögum hefur verið lagt 35 kr. gjald á hvern geisladisk og 100 kr. gjald á stærri geisladiska og 1% gjald á hverja tölvu og er það innheimt eins og hver annar skattur. Af þessu tilefni hef ég eftirfarandi spurningar til hæstv. menntmrh.:

1. Hvaða samtökum höfundaréttarfélaga hafa verið settar samþykktir skv. 6. mgr. 11. gr. höfundalaga, nr. 73/1972? Hvaða reglur gilda um félagsaðild, endurskoðun reikninga, úthlutun höfundalauna, kæruleiðir og upplýsingagjöf hjá þessum samtökum?

2. Telur ráðherra að ákvæði 3. mgr. 11. gr. laganna, um að höfundar verka, sem útvarpað hefur verið eða gefin hafa verið út á hljóðriti eða myndriti, eigi rétt á sérstöku endurgjaldi vegna upptöku verka þeirra til einkanota á bönd, diska, plötur eða aðra hluti, samrýmist 65. gr. stjórnarskrárinnar um að allir skuli jafnir fyrir lögum, þ.e. að höfundar sumra hugverka fái innheimt gjöld fyrir atbeina löggjafans, m.a. af óskrifuðum geisladiskum og af tölvum, en ekki höfundar annarra hugverka, t.d. hugbúnaðar og ljósmynda, sem þó munu líklega geymd á þessum miðlum í mun meira mæli en hin fyrrnefndu?

3. Hvernig samrýmist það 40. og 41. gr. stjórnarskrárinnar að lög heimili ríkinu að innheimta gjald af einum hópi einstaklinga til að afhenda það öðrum hópi einstaklinga án fjárveitinga á fjárlögum?

Þau lög sem hér um ræðir eiga sér samsvörun í öðrum lögum eins og lögum um iðnaðargjald, búvörugjald o.s.frv., lögum um lífeyrissjóði sem skylda menn til að greiða til ákveðinna hópa eða stéttarfélaga og mér finnst vakna spurningar um það hvort slík lög samrýmist nýjum ákvæðum stjórnarskrárinnar um kvaðir sem þarf að setja á skattlagningu.