Höfundaréttur

Miðvikudaginn 12. mars 2003, kl. 12:02:29 (4856)

2003-03-12 12:02:29# 128. lþ. 97.7 fundur 674. mál: #A höfundaréttur# fsp. (til munnl.) frá menntmrh., menntmrh. (svar)
[prenta uppsett í dálka] 97. fundur, 128. lþ.

[12:02]

Menntamálaráðherra (Tómas Ingi Olrich):

Herra forseti. Þær spurningar sem hv. þm. hefur sett fram eru með þeim hætti að ég tel að ég eigi mjög óhægt um vik að svara þeim á fullnægjandi hátt á þeim tíma sem mér er ætlaður. Ég mun ganga eins langt og ég get að svara þessum raunar nokkuð flóknu spurningum og sjá til hvernig tíminn endist.

Að því er varðar samþykktirnar sem samtökum höfundaréttarfélaga hafa verið settar, þá gildir reglugerð nr. 141/1985, og samþykkt 333/1996, þar sem Innheimtumiðstöð gjalda er falið að annast innheimtu og úthlutun þeirra gjalda sem um getur í 3. mgr. 11. gr. höfundalaga, samanber 4.--6. mgr. 11. gr. og reglugerð nr. 125/2001, með síðari breytingum.

Um aðild að Innheimtumiðstöð gjalda gildir eftirfarandi samkvæmt samþykktum félagsins í grein 3.1. Aðilar að samtökum þessum eru STEF, Samband tónskálda og eigenda flutningsréttar, SFH, Samband flytjenda- og hljómplötuframleiðenda, Rithöfundasamband Íslands, Blaðamannafélag Íslands, Samband ísl. kvikmyndaframleiðenda, Félag kvikmyndagerðarmanna, Samtök kvikmyndaleikstjóra, Félag leikstjóra á Íslandi, Hagþenkir -- félag höfunda fræðirita og kennslugagna og Myndstef. Önnur félög en þau sem að framan eru greind geta sótt um aukaaðild að samtökunum, enda teljast þau hafa verulegra hagsmuna að gæta á þessu sviði.

Um endurskoðun reikninga hjá Innheimtumiðstöð gjalda gilda almennar reglur. Endurskoðaðir reikningar eru bornir upp til samþykktar á aðalfundi sem fer fram í marsmánuði ár hvert. Á aðalfundi eru kosnir tveir endurskoðendur.

Um úthlutun sérstaks gjalds til höfunda gildir eftirfarandi samþykkt samkvæmt Innheimtumiðstöð gjalda, þ.e. um meðferð fjármála. Til að mæta óvæntum kröfum aðila sem standa utan innheimtumiðstöðvarinnar og kostnaði miðstöðvarinnar sjálfrar öðrum en rekstrarkostnaði skal árlega leggja í varasjóð 5% af vergum tekjum samtakanna. Þegar höfuðstóll sjóðsins er orðinn 2,5 millj. kr. miðað við núverandi verðlag falla greiðslur til hans niður. Sé gengið á höfuðstólinn skulu greiðslur til hans hefjast að nýju samkvæmt sömu reglum.

Eftir að greitt hefur verið til varasjóðs samkvæmt reglu 5.1 og fé lagt til hliðar til greiðslu rekstrarkostnaðar skal skipta rekstrarafgangi samtakanna að frádregnu 15% framlagi Menningarsjóðs á milli aðildarsamtakanna eftir ákveðnum reglum. Tekjum af auðum hljóðböndum og hljóðbandatækjum skal skipta í hlutföllunum STEF 39%, SFH 45% og Rithöfundasamband Íslands 7%. Tekjum af myndböndum og myndbandstækjum skal skipta á milli fjölmargra aðila eftir ákveðnum hundraðshluta sem hægt er að upplýsa hv. þm. um ef þess er óskað en sú upptalning tæki alllangan tíma.

Endurskoða skal framangreinda skiptingu á milli aðildarsamtakanna ef eitthvert þeirra krefst þess og skal krafa þessi vera sett fram með eins árs fyrirvara miðað við áramót. Náist ekki samkomulag um breytingar á skiptingunni skal gerðardómur skera úr um ágreininginn. Aðildarsamtökin skulu úthluta einstaklingsbundið til rétthafa þar sem því verður við komið, m.a. í formi styrkja. Að öðru leyti skulu hver samtök ráðstafa sínum hluta samkvæmt reglum sem í gildi eru í hverjum þeirra fyrir sig.

Hvað varðar kæruleiðir er í samþykktum samtakanna ákvæði um gerðardómsmeðferð ágreiningsmála í 6. gr. þeirra. Að því er varðar upplýsingagjöf af hálfu innheimtumiðstöðvarinnar fá fulltrúar aðildarsamtaka miðstöðvarinnar upplýsingar um starfsemi samtakanna með því að fundargerðir stjórnarinnar eru sendar öllum stjórnarmönnum og aðildarfélögum. Hvað varðar rétt einstaklinga og félagasamtaka til að standa utan innheimtumiðstöðvarinnar til þess að fá upplýsingar um starfsemi samtakanna, þá veitir menntmrn. slíkar upplýsingar að svo miklu leyti sem þær varða framkvæmd reglugerðar nr. 141/1985 og samþykktar 333/1996, svo og reglugerðar nr. 125/2001, með síðari breytingum.

Önnur spurningin sem hv. þm. hefur lagt fram er með þeim hætti að henni er svarað svo: Það er rétt að taka fram að greinarmunur er gerður á heimilli og óheimilli eintakagerð til einkanota samkvæmt 11. gr. höfundalaganna. Meginregla 1. mgr. 11. gr. veitir einstaklingum rétt til eintakagerðar af frumverkum höfunda að því tilskildu að um einkanot sé að ræða og hæfilegt gjald til höfundar komi fyrir slík afnot í samræmi við 3. mgr. Gjaldi því sem innheimt er samkvæmt 3. mgr. 11. gr. er eingöngu ætlað að bæta höfundum og öðrum rétthöfum það tap sem ætla má að höfundurinn verði fyrir vegna heimillar eintakagerðar. Sé hins vegar um að tefla óheimila eintakagerð á höfundur ekki rétt á endurgjaldi samkvæmt 3. mgr. 11. gr. heldur er þá um að ræða refsivert höfundarréttarbrot sem heyrir undir lög um meðferð opinberra mála. Óheimilt er að gera eintök af þeim höfundaverkum sem tiltekin eru í 2. mgr. 11. gr. Undir slíkt bann falla m.a. tölvuforrit og gagnagrunnar á rafrænu formi. Ekki er rétt með farið að höfundar ljósmynda fái ekki úthlutað af gjaldi sem innheimt er samkvæmt 3. mgr. 11. gr. laganna. Myndhöfundasjóður Íslands, Myndstef, fer með réttindi höfunda ljósmynda og fær úthlutað frá innheimtumiðstöðinni í þeim hlutföllum sem fram koma í svari við fyrstu spurningu hv. þm.

Ég tel enga ástæðu til að ætla annað en að 3. mgr. 11. gr. höfundalaganna standist jafnræðisreglu 61. gr. stjórnarskrárinnar en síðasta orðið um það eiga að sjálfsögðu dómstólar vilji menn láta á það reyna. Af því að ég sé að tími minn er að renna út mun ég svara þriðju spurningu hv. þm. í þeim tíma sem mér er ætlaður á eftir.