Almennar stjórnmálaumræður (útvarpsumræður)

Miðvikudaginn 12. mars 2003, kl. 20:02:46 (4861)

2003-03-12 20:02:46# 128. lþ. 98.1 fundur 493#B almennar stjórnmálaumræður (útvarpsumræður)#, ÁRÁ
[prenta uppsett í dálka] 98. fundur, 128. lþ.

[20:02]

Árni R. Árnason:

Herra forseti. Góðir Íslendingar. Það er góður siður Alþingis að ljúka störfum með sérstakri stjórnmálaumræðu. Menn líta til baka og gera upp helstu mál eftir annir þingstarfanna og líta til framtíðar og virða fyrir sér hvað fram undan er. Kosningabaráttan er á næstu grösum með miklum átökum og að henni lokinni falla stjórnmálastörfin í farveg nýs kjörtímabils og sameiginleg viðfangsefni verða ráðin til lykta. Mestu skiptir að þannig verði unnið á hverjum tíma að það verði landi og þjóð fyrir bestu.

Við Íslendingar búum nú við góðan efnahag, betri en áður. Það er árangur af traustri og öruggri stjórn efnahagsmála, festu í ríkisfjármálum og betri stöðu ríkissjóðs en áður. Trúverðugir starfshættir og traust efnistök þriggja ríkisstjórna undir forustu Davíðs Oddssonar, formanns Sjálfstfl., hafa skapað lengra tímabil stöðugleika í efnahagsmálum en nokkru sinni fyrr. Hagvaxtarskeið hafa verið nýtt betur en áður og stærstum hluta af ávinningi þeirra varið til að auka kaupmátt ráðstöfunartekna án þess að verðbólgan hafi farið úr böndunum.

Kaupmáttur hefur aukist um þriðjung frá 1994, kaupmáttur lægstu launa um 58% á sjö árum og kaupmáttur lágmarkstekjutryggingar um 65% frá 1995. Á þessu ári mun kaupmáttur vaxa níunda árið í röð sem er einsdæmi. Sama má segja af öðrum mælikvörðum efnahagsmála, ekki síst verðbólgunni sem er með því minnsta, þ.e., efnahagslegur stöðugleiki er með því sem best gerist hjá grannþjóðum okkar. Ríkisfyrirtæki hafa verið einkavædd og það ásamt fleiru hefur orðið til að treysta innviði hagkerfisins.

Skattar á einstaklinga, fjölskyldur og fyrirtæki hafa verið lækkaðir, grundvallarbreytingar hafa verið gerðar á hagstjórnartækjum ásamt opnun hagkerfisins og fjármálamarkaðar. Stórfelldar breytingar á skattlagningu fyrirtækja hafa orðið til þess að erlend fyrirtæki sjá sér hag í starfsemi á Íslandi og í því að taka þátt í íslenskum fyrirtækjum. Innlend fyrirtæki geta nú fjárfest meira en áður í tæknivæðingu, þróun og nýsköpun sem er grundvöllur hagræðingar og hagvaxtar. Lánshæfismat Íslands á alþjóðlegum fjármálamörkuðum er nú það hæsta sem við Íslendingar höfum upplifað.

Hluta ávinnings af síðasta vaxtarskeiði hefur verið varið til að efla framlög til nýsköpunar. Þau hafa aukist bæði frá fyrirtækjum og opinberum sjóðum sem hafa verið endurskipulagðir og efldir með tilliti til vaxtarbrodda og nýjunga í atvinnulífinu og sérstaklega til þess að nýta afrakstur rannsókna í atvinnustarfsemi. Þannig hefur verið búið í haginn til framtíðar og hagkerfi landsins er nú það burðugt að geta fengist við stærri viðfangsefni en nokkru sinni fyrr og þau öll miða að bættum lífskjörum og meiri lífsgæðum.

Mikið undirbúningsstarf til að auka nýtingu fallvatna og jarðhita er nú að skila glæstum árangri. Á næstu missirum verður verksmiðja Norðuráls stækkuð og aflað raforku með Norðlingaölduveitu og jarðhitavirkjunum á Nesjavöllum og Reykjanesi. Í kjölfar þess verða áform um stórvirkjanir og stóriðju á Austurlandi loks að veruleika. Mikil iðnaðarmannvirki munu rísa á Reyðarfirði og byggð mesta vatnsaflsvirkjun landsins. Þessar miklu fjárfestingar verða afar stór verkefni fyrir hagkerfið en með vel tímasettum og hnitmiðuðum hagstjórnaraðgerðum verður unnt að mæta þeim án verðbólgubáls.

Breytingar á hagkerfinu undanfarin ár valda því að efnahagsleg áhrif framkvæmda af þessari stærðargráðu koma nú fram miklu fyrr en áður en síðar munu verða miklar breytingar í hagkerfinu með stórauknu útflutningsverðmæti stóriðju. Gagnrýnendur segja stefnt í fábreytni atvinnulífs og takmarkaða verðmætasköpun miðað við fjárfestingu. Ég hygg að annað muni koma í ljós því stóriðja er fólgin í fjölbreyttri starfsemi sem nýtir mikla fagþekkingu og tækniþekkingu bæði starfsfólks og stjórnenda. Fjárfesting á móti hverju starfi er vissulega mikil en það sama einkenni er nú þegar orðið á okkar sjávarútvegi eftir miklar fjárfestingar undanfarins áratugar í vélvæðingu og tæknivæðingu.

Hæstv. sjútvrh. hefur lagt sig fram um að ná sátt um stjórnkerfi fiskveiða. Löggjöfin kveður nú óyggjandi á um sameign þjóðarinnar á auðlindinni í hafinu. Auðlindanefnd tók á djúpstæðu deilumáli um gjald fyrir aðgang að sameiginlegri auðlind og tillögur hennar birtast í lagaákvæðum sem koma til framkvæmda á næsta ári. Margvíslegar lagfæringar hafa verið gerðar á lögunum til að gera mönnum betur fært að mæta þeim þrengingum sem mjög takmarkaðar aflaheimildir valda útgerð og vinnslu. Enn fremur hafa verið gerðar sérstakar breytingar í því skyni að allur afli geti komið á land og til vinnslu.

Ráðherra hefur nú hrundið af stað miklu átaksverkefni til að auka verðmæti sjávarafurða og er tilgangur þess að það meira en tvöfaldist á áratug. Markið er sett hátt og til að því megi ná hefur ráðherra þegar lagt grunn að stofnun sjóðs sem styðja mun rannsóknir og þróun. Þetta starf mun ná jafnt til eldis sjávarfiska, fiskveiða og vinnslu. Í því eru fólgin mikil sóknarfæri sem nýtast munu um allt land. Góður árangur af þessu starfi og fyrrnefndum verkefnum mun skila meiri störfum og verðmætari störfum okkar þjóð og landi til hagsbóta og heilla á komandi tímum. --- Góðar stundir.