Almennar stjórnmálaumræður (útvarpsumræður)

Miðvikudaginn 12. mars 2003, kl. 20:08:21 (4862)

2003-03-12 20:08:21# 128. lþ. 98.1 fundur 493#B almennar stjórnmálaumræður (útvarpsumræður)#, ÁMöl
[prenta uppsett í dálka] 98. fundur, 128. lþ.

[20:08]

Ásta Möller:

Herra forseti. Góðir áheyrendur. Við Íslendingar erum metnaðarfullir, bæði sem einstaklingar og sem þjóð. Við viljum ná árangri í því sem við tökum okkur fyrir hendur. Að undanförnu hafa birst úttektir erlendra matsstofnana á árangri þjóða. Þar hefur Ísland alls staðar fengið ágætiseinkunn. Það leiðir í ljós að hvergi er jöfnuður meiri en hér á landi, fátækt er með því minnsta og þjóðartekjur á mann eru með því hæsta sem þekkist. Skattbyrði heimilanna er lág í samanburði við flest önnur lönd, spilling einna minnst og frelsi fjölmiðla einna mest. Samkvæmt athugunum Sameinuðu þjóðanna er Ísland í sjöunda sæti af 174 þjóðum þegar skoðað er hvar best er að búa. Þetta er góður árangur.

Á síðustu árum höfum við upplifað eitt mesta hagsældartímabil í sögu lýðveldisins. Enginn hefur farið varhluta af því. Heimilin hafa nú úr þriðjungi meira að spila en fyrir átta árum. Bætt skilyrði til atvinnurekstrar hafa aukið umsvif fyrirtækja og skilað þeim árangri. Ríkissjóður hefur greitt niður skuldir sínar og hafa þær lækkað um nær helming á síðustu árum.

Niðurstaðan er sú að ríkisstjórnir Davíðs Oddssonar hafa með stefnufestu, hyggindum og með almannahag í huga búið í haginn til framtíðar.

Hér í kvöld munum við hlýða á stjórnarandstöðuna leggja sig fram við að finna veiki bletti á landstjórninni. Það er sjálfsagt þeirra hlutverk en hlutskiptið er ekki öfundsvert. Þau munu m.a. reyna að telja landsmönnum trú um að skattar hafi hækkað í tíð núverandi ríkisstjórnar. Sú fullyrðing er öfugmæli. Á yfirstandandi kjörtímabili hafa skattar þvert á móti lækkað. Ég minni á lækkun tekjuskatts og hátekjuskatts. Eignarskattur hefur verið lækkaður um helming og sérstakur eignarskattur verið afnuminn en það skiptir sérstaklega eldra fólk máli þar sem eignir eru yfirleitt skuldlitlar.

Ég minni á hækkun barnabóta og að persónuafsláttur er nú að fullu yfirfæranlegur milli hjóna. Ég minni á að húsaleigubætur eru nú skattfrjálsar og að tekjuskattur á fyrirtækjum hefur verið stórlækkaður. Það munar verulega um þessar skattalækkanir. En við munum ekki heyra um þetta frá stjórnarandstöðunni hér í kvöld. Við höfum þegar heyrt talsmenn Samfylkingarinnar halda því fram að skattbyrði þeirra sem lægstu launin hafa hafi aukist. Þeir hafa sagt að fólk sem ekki greiddi skatta áður greiði skatta nú. En ég spyr á móti: Hvernig má annað vera þegar laun hafa hækkað um tugi prósenta eins og raunin hefur orðið? Hvernig má það vera að talsmenn Samfylkingarinnar skilja ekki að launahækkun sem færir fólk yfir skattleysismörk þýðir að það fer að greiða skatta sem það gerði ekki áður? Er þetta skattahækkun? Nei, þetta staðfestir aðeins launahækkun. Það sem mestu máli skiptir er að laun hafa almennt hækkað um þriðjung eftir skatta á síðustu átta árum. Kaupmáttur lægstu launa hefur hækkað enn meir eða um tæp 60%. Fólk hefur úr meiru að spila en áður. Það er aðalatriðið.

En það er ekki ofsögum sagt af skilningi vinstri manna á fjármálum. Hann hefur aldrei verið þeirra sterkasta hlið. Íslenskir fræðimenn hafa staðfest það með rannsóknum sínum á íslenskri stjórnmálasögu að vinstri stjórnir halda verr utan um fjármál ríkisins en þegar sjálfstæðismenn eru við stjórn. Verðbólgan er meiri, ríkisútgjöld aukast og skattheimta eykst. Þessar niðurstöður eru staðfestar í fjármálastjórn R-listans í Reykjavík með skattahækkunum og skuldasöfnun út yfir öll velsæmismörk.

Góðir Íslendingar. Heilbrigðiskerfi landsmanna er gott og það skilar góðum árangri. Hins vegar er aðkallandi að gera skipulagsbreytingar til að tryggja að fólk fái skjóta þjónustu á réttu stigi og á réttum stað innan kerfisins. Koma þarf á símaráðgjöf til almennings um heilbrigðisþjónustu. Efla þarf þjónustu við sjúka í heimahúsum og auka samhæfingu félagsþjónustu, heimahjúkrunar og öldrunarþjónustu m.a. með því að setja stjórn þeirra á eina hendi hjá sveitarfélögunum. Heilsugæsluna þarf að efla. Þessar skipulagsbreytingar munu skýra verkaskiptingu innan heilbrigðisþjónustunnar, þær munu auka sérhæfingu, létta á sjúkrahúsunum og stytta biðlista eftir aðgerðum.

Skipulagsbreytingar fram undan þurfa einnig að fela í sér aukið samstarf ríkis og sjálfstæðra aðila um rekstur einstakra þátta í heilbrigðisþjónustu. Hér á ég ekki við einkavæðingu í heilbrigðiskerfinu í þeim skilningi að dregið verði úr ábyrgð ríkisins að greiða fyrir þjónustu. Það vill Sjálfstfl. ekki fremur en aðrir stjórnmálaflokkar. Við höfum hins vegar góða reynslu af samstarfi milli ríkis og einkaaðila þar sem ríkið semur við þá um að veita tiltekna þjónustu. Við eigum að halda lengra á þeirri braut og feta þar í fótspor frænda okkar annars staðar á Norðurlöndunum. Tilgangurinn er að veita fólki betri og skilvirkari heilbrigðisþjónustu.

Góðir Íslendingar. Í komandi kosningum verður kosið um framtíð þjóðarinnar. Árangur ríkisstjórnarinnar í stjórn efnahagsmála er einstakur þegar horft er til verðbólgu, hagvaxtar og stöðugleika. Allir landsmenn vilja leggja kapp á að varðveita þann umtalsverða árangur sem náðst hefur. Eingöngu með Sjálfstfl. í fararbroddi er hægt að tryggja framtíðarsýn með áframhaldandi hagvexti, lágri verðbólgu og frekari skattalækkunum sem bæta hag heimila og fyrirtækja í landinu. --- Góðar stundir.