Almennar stjórnmálaumræður (útvarpsumræður)

Miðvikudaginn 12. mars 2003, kl. 20:36:53 (4865)

2003-03-12 20:36:53# 128. lþ. 98.1 fundur 493#B almennar stjórnmálaumræður (útvarpsumræður)#, SvH
[prenta uppsett í dálka] 98. fundur, 128. lþ.

[20:36]

Sverrir Hermannsson:

Herra forseti. Formaður þingflokks Samfylkingarinnar, Bryndís Hlöðversdóttir, tönnlaðist enn og aftur á þeirri fullyrðingu Samfylkingarinnar að fylkingin væri eini flokkurinn sem lagt hefði fyrir tillögur til lausnar fiskveiðimálunum. Lögfræðingurinn Bryndís hlýtur að gera sér grein fyrir því að viðurlög eru við því að fara með vísvitandi ósannindi, þótt það sé erfiðara að ná til lögfræðingsins í þinghelginni.

Góðir hlustendur. Komið er að lokum kjörtímabils og kosningar eru í nánd. Á enda er kljáð kjörtímabil þar sem niðurlæging löggjafarsamkundunnar hefur orðið mest frá því að Alþingi var endurreist fyrir meira en hálfri annarri öld. Framkvæmdarvaldsmenn hafa vaðið yfir virðulegustu og merkilegustu stofnun þjóðarinnar með frekjufullum yfirgangi og ekkert vílað fyrir sér né heldur að grípa fram fyrir hendur á dómstólum landsins ef þeim líkaði ekki úrskurður þeirra. Þeir reistu löggjafarsamkundunni níðstöng með framferði sínu í öryrkjadómsmálinu og lítilsvirtu æðsta dómstól þjóðarinnar í leiðinni, sem að sínu leyti að vísu lagði höfuð sitt á höggstokkinn. Allir þingmenn stjórnarliðsins hafa verið barðir miskunnarlaust til hlýðni enda vita þeir af reynslu, þingmenn Sjálfstfl., hvað bíður þeirra ef þeir æmta.

Aðeins einn þingmaður flokksins hefur enn sem komið er lifað af pólitískt eftir að hafa neitað að gegna foringjanum umyrðalaust þegar þingmaðurinn sat hjá við afgreiðslu á 20 þús. millj. kr. styrkveitingunni til gjaldþrotafyrirtækisins deCODE. Foringinn hefur enn ekki þorað að senda styrkinn til Vatnsmýringanna enda of skammt til kosninga. En haldi ráðstjórn velli í kosningunum 10. maí mun æðsta ráð afgreiða málið 11. maí. Þeir sem styðja þá afgreiðslu hljóta að fylkja sér um þá sem þar sitja --- og eru aðalmennirnir að vísu horfnir af vettvangi.

Að vísu eru þeir búnir að afgreiða 6 þús. millj. kr. til handa deCODE þegar þeir létu ríkisbankana kaupa verðlaus hlutabréf í fyrirtækinu og formaður þingflokks Framsfl. staðfesti á dögunum en aðrir lengi haft grun um. Þegar svo bankarnir sáu hvert stefndi um verðgildi bréfanna hófu þeir söluherferð á hendur viðskiptavinum sínum, sér í lagi þeim sem í vök áttu að verjast gagnvart þeim, sviku bréfin inn á þá á gengi allt að 65 dollarar hvert bréf með gyllingum um að þau mundu hækka í 100 dollara innan hálfs árs eða svo. Þeir heimtuðu nýjar tryggingar, hús aldraðra foreldra ef svo vildi verkast. Bréfin munu nú ganga á tvo dollara stykkið og stefna í núll. Meðal annarra orða, hvað skyldu hinir nýju kaupendur Landsbankans hafa gefið fyrir þau deCODE-bréf sem enn voru í eigu bankans þegar þau kaup fóru fram? Það skiptir ekki máli hvað hinir svokölluðu kaupendur Búnaðarbankans keyptu þau bréf á því að þeir ætla sér ekki að greiða fyrir þau né annað fylgifé bankans, enda skortir þá fjármuni til, og ætla formanni Framsfl. að sjá um þau skuldaskil, sem og verður, ef sá flokkur situr áfram við kjötkatlana eftir kosningar. Ný stjórn mundi vafalaust rifta framsóknarsamningnum um sölu Búnaðarbankans ef tök verða á.

Enn má spyrja: Hvað gáfu Samsonarmenn fyrir 800 millj. kr. skuld sem framsóknarforkólfarnir létu Landsbankann stofna til við Jón nokkurn Ólafsson til að kaupa fyrir brasklóðir í Garðabæ? Þó væri enn forvitnilegra að fá upplýsingar um við hvaða verði þeir keyptu 2 milljarða kr. vanskilaskuldir Norðurljósa sem sömu forustumenn Framsóknar sáu um að Landsbankinn yfirtók eftir að þeir, ásamt aðalritara, höfðu hreinsað til í bankanum, eins og fyrrum formaður Framsóknar orðaði það af landskunnum frómleik sínum. Reikningarnir verða fyrir þessi fjármálaumsvif sendir skattborgurum þessarar þjóðar þegar þar að kemur ásamt með deCODE-fúlgunni.

Það eru trylltir, blátt áfram trylltir fjárglæframenn sem mestu ráða í íslensku fjármálakerfi. Þeir valsa með fjármuni þjóðarinnar sem sína eigin eign. Þeir sem vilja viðhalda því kerfi hljóta að fylkja sér um höfðingjana sem þarna sitja eða eiga að sitja raunar. Þeir hafa komið á því kerfi með því að mylja lungann úr auðæfum þjóðarinnar undir fáa útvalda. Yfir krásum á bolludaginn tala þeir svo hógværlega um að fjölmiðlajöfrarnir sýni fullmikla græðgi, sér í lagi þeir sem sýni ekki nóga auðsveipni við æðsta ráð. Á gamlársdag messa þeir svo um að stjórnmálamenn eigi að segja satt þar sem annað gæti leitt til ógæfu þjóðarinnar, hafa svo sjálfir heilræðin að engu aðra daga ársins.

Á Íslandi hefur gæðunum aldrei verið svo misskipt sem nú. Aldrei hefur óréttlæti og yfirgangi verið beitt sem nú um stundir. Í landinu búa tvær þjóðir, allur fjöldinn annars vegar og svo hinir fáu moldríku sem stjórnvöld bera á höndum sér og gagnkvæmt. Þeir sem vilja styðja og efla þá þróun mála kjósa áfram frumkvöðlana að þeirri skiptingu sem nú sitja að völdum.

Íslendingar þurfa að snúa við blaðinu í komandi kosningum og leysa sitjandi ráðstjórn frá völdum, endurreisa Alþingi til þess vegs og virðingar á nýjan leik, efla samhug og samheldni en eyða úlfúð og óvild sem vex og dafnar í þjóðfélagi misréttis og ójafnaðar, skila aftur þjóðinni frelsi til orða og athafna og leysa hana undan einokun, einokun þeirra sem hafa fengið afhenta gefins aðalauðlind þjóðarinnar, sjávarauðlindina. Íslensk þjóð þarf þegar í stað að kjósa til valda landstjórn sem gerir djarft átak í atvinnumálum með sérstakri eflingu smærri og meðalstórra fyrirtækja, átak í vaxtamálum, gengismálum, húsnæðismálum og tröllaukið átak í heilbrigðismálum. Eitt brýnasta verkefnið er að útrýma atvinnuleysi.

Íslendingar eiga góðra kosta völ ef þegnar landsins allir fá að njóta réttlætis og frelsis til orða og æðis. Við þurfum að setja okkur nýjar leikreglur þar sem fólk situr við sama borð en misnotkun peningavalds sem nú tröllríður þjóðfélaginu er úthýst. Okkur ber að útrýma fátækt en ekki að neita tilvist þess skelfilega fyrirbæris. Einni meðal ríkustu þjóða heims ber skylda til að rétta hlut þeirra sem nú eru hjálparþurfi, öryrkja, aldraðra og sjúkra. Við þurfum skilyrðislaust að stórlækka vexti og létta vaxtaokri og verðtryggingum af lánum ungs fólks sem er að hefja lífsbaráttuna og að fullnægja þeirri frumþörf sinni að byggja þak yfir höfuð sér og sínum.

Það þarf að létta undir með barnafólki og gefa öllum færi á sem bestri, mestri og fjölbreyttastri menntun og símenntun. Sjálfstfl. býður fram í kosningum ungt nýfrjálshyggjufólk sem vill stórhækka skólagjöld við Háskóla Íslands og aðrar ríkisreknar æðri menntastofnanir og víkja með þeim hætti til hliðar jafnrétti fólks til náms.

Ungir sjálfstæðismenn hafa einnig gert um það samþykktir opinberlega að selja beri sjúku fólki húsnæði, fæði og lyf sem þarf að gista sjúkrahús og aðrar heilbrigðisstofnanir. Foringinn sem þarna ætti að sitja á fremsta bekk mun hvetja kjósendur heils hugar að kjósa slíka hugsjónamenn á þing svo sanngirni þeirra fái notið sín við stjórn samfélagsins.

Þeim sem hér stendur verður á stundum hugsað til þess hvernig fyrrum foringjar Sjálfstfl. hefðu orðið til augnanna ef slíkur málatilbúnaður hefði verið lagður fyrir þá.

Ein hrapallegustu afglöp sem foringjum stjórnarflokkanna hefur orðið á var þegar þeir í Prag buðu Bush stríðsmanni að taka þátt í hernaðaraðgerðum hans. Þó ekki væri fyrir annað ber þjóðinni að kjósa frá slíka menn.