Almennar stjórnmálaumræður (útvarpsumræður)

Miðvikudaginn 12. mars 2003, kl. 21:04:26 (4868)

2003-03-12 21:04:26# 128. lþ. 98.1 fundur 493#B almennar stjórnmálaumræður (útvarpsumræður)#, ÞKG
[prenta uppsett í dálka] 98. fundur, 128. lþ.

[21:04]

Þorgerður K. Gunnarsdóttir:

Herra forseti. ,,Frelsið er yndislegt, ég geri það sem ég vil,`` syngur hljómsveitin Ný-dönsk. Já, frelsið er yndislegt en það er vandmeðfarið. Því fylgir ábyrgð sem á að vera augljós þeim mönnum sem njóta þess sem frelsið býður upp á. Frelsinu fylgja tækifæri en ekki síður lagaleg og samfélagsleg ábyrgð.

Tækifærum einstaklinga, fjölskyldna og fyrirtækja hefur fjölgað svo um munar á liðnum áratug. En það hefur ekki gerst sjálfkrafa og ekki alltaf átakalaust. Þótt stefnan að opnu, lýðræðislegu þjóðfélagi þar sem ekki eru lögð óþarfa höft á einstaklingana og fyrirtækin, hafi verið öllum sæmilega þenkjandi mönnum augljós hafa alltaf verið til úrtölumenn eða tækifærissinnar sem hafa fundið þessum breytingum á samfélaginu allt til foráttu. Hið sérkennilega er að ekki virðist alltaf hafa verið vilji til að stuðla að þessum sjálfsögðu, lýðræðislegu og efnahagslegu breytingum þótt í dag vilji allir Lilju kveðið hafa.

Óhætt er að taka undir með mörgum forsvarsmönnum íslenskra fyrirtækja sem hafa tjáð sig með afgerandi hætti um íslenskt efnahags- og atvinnulíf. Þeir hafa sagt að þær breytingar sem gerðar hafa verið á undanförnum missirum á skatta- og efnahagsmálum séu forsendur þess að íslenskt efnahagslíf eflist nú stöðugt og útrás fyrirtækja er jafnmikil og raun ber vitni. Þetta hefur leitt til þess að öryggi og hagur fjölskyldna hefur aukist. Fólkið og fyrirtækin eiga samleið en eru ekki andstæður eins og vinstri flokkarnir hafa til langs tíma haldið fram, ekki síst með verkum sínum.

Það er greinilegt að tækifærum fyrirtækja hefur fjölgað og er ánægjulegt að fylgjast með að einstaklingar líta einnig svo á. Í gær var kynnt í Háskólanum í Reykjavík alþjóðleg rannsókn sem sýnir að hér á Íslandi er frumkvöðlastarf mest innan Evrópu. Þetta er engin tilviljun því að lög og reglur hér hafa verið mótuð með það að markmiði að vera hvetjandi en ekki letjandi fyrir fólk til að nýta þau tækifæri sem við þeim blasa.

Þeir forustumenn íslenskra stjórnmála sem hafa leitt okkur í gegnum þetta mikla hagsældarskeið á undanförnum árum hafa ekki gert það þrautalaust. Erfiðar ákvarðanir hafa verið teknar og við þær hefur verið staðið. Við hér vitum að meðbyrinn er átakalaus en í mótbyr reynir virkilega á þann sem í stafninum stendur og þá er gott að vita að sá hinn sami er ekki eins og vindhani sem snýst í logni.

Það má fullyrða að það frelsi sem við hér á Alþingi höfum stuðlað að á liðnum árum hafi almennt verið vel nýtt af einstaklingum og fyrirtækjum. Það kann vel að vera að einhverjir hafi farið út af þeirri braut sem mörkuð hefur verið, þrátt fyrir skýrar leikreglur um samkeppni, fjármálaeftirlit og fjármálastarfsemi o.fl. Slíkt er ólíðandi því að misnotkun á frelsinu er misnotkun á trúnaði og trausti samfélagsins. En þegar upp er staðið hafa fyrirtækin að öllu jöfnu staðið við þær skyldur sem þetta sama samfélag hefur gert kröfu um.

Herra forseti. Hvað réttindi einstkaklinganna gagnvart hinu opinbera áhrærir þá hafa þau verið styrkt með afgerandi hætti á undanförnum árum. Um leið hefur lýðræðið eflst og réttaröryggi okkar allra aukist. Vald og réttindi hafa því markvisst verið færð til fólksins. En þessi þróun hefur heldur ekki gengið þrautalaust fyrir sig.

Þegar umboðsmaður Alþingis tók til starfa árið 1987 benti hann ítrekað á að rétti einstaklinga, fólksins í landinu, gagnvart ríkisvaldinu væri ábótavant. Þrátt fyrir þessar ítrekuðu ábendingar umboðsmanns gerði síðasta vinstri stjórn ekkert, akkúrat ekkert til að verða við þessum sjálfsögðu skilaboðum, skilaboðum sem skýrlega hefðu leitt til aukins réttaröryggis borgaranna. Ó nei, þegar vinstri menn höfðu tækifæri til að auka lýðræði og efla réttindi fólksins í landinu var lítið um gjörðir, margt í orði, ekkert á borði --- bara allt í plati.

Eitt af fyrstu verkum ríkisstjórnar Davíðs Oddssonar árið 1991 var að skipa nefnd sérfræðinga til að vinna að því markmiði að tryggja réttaröryggi einstaklinganna gagnvart ákvörðun stjórnvalda. Niðurstaða þeirrar nefndar varð síðan að þeim lögum sem við þekkjum betur sem stjórnsýslulög, lög sem í dag eru sjálfsagður hluti hins íslenska veruleika. Hið sama gildir um upplýsingalög sem samþykkt voru fyrir nokkrum árum en þau eru ein helsta forsenda þess að hægt er að tala um lýðræðislega stjórnarhætti.

Síðan þá hefur margt gerst innan stjórnsýslunnar og úttektir verið gerðar á ýmsum sviðum. Erlendar stofnanir segja að hvergi finnist minni spilling og að stjórnkerfið sé skilvirkt og gegnsætt. Allt þetta hefur leitt til þess að almenningur er meðvitaðri um rétt sinn en slíkt einkennir að sjálfsögðu virk lýðræðissamfélög.

Góðir Íslendingar. Okkur hefur fleygt hraðbyri áfram og jákvæð þróun hefur átt sér stað á flestum sviðum samfélagsins á liðnum árum. Þar eru lýðréttindi engin undantekning. Til að slík þróun eigi sér stað þarf hugsjónir, heiðarleika og markvissa stefnu sem breytist ekki frá degi til dags eftir því hvernig vindar í skoðanakönnunum blása. Til að gera þetta góða samfélag enn betra fyrir börnin okkar þurfa þeir sem standa í stafni að vera trúir sjálfum sér og stefnu sinni sem öllum er kunn og öllum er augljós.

Að sigla röstina er ekki auðvelt. Til þess þarf styrkan skipstjóra og góða áhöfn. Við í Sjálfstfl. höfum sýnt að við höfum yfir slíkri áhöfn að ráða. Við höfum staðið frammi fyrir miklum og góðum breytingum og lagt grunn að því lýðræðissamfélagi sem við búum í. Þetta samfélag er ekki fullkomið en sá sterki grunnur sem við höfum byggt upp er kjölfesta fyrir okkur til að gera enn betur fyrir framtíðina.

Já, herra forseti, frelsið er yndislegt en við skulum fara vel með það og hafa hugfast að heiðarleiki, trúnaður og traust eru helstu stoðir frelsisins og okkar ágæta þjóðfélags. --- Góðar stundir.