Almennar stjórnmálaumræður (útvarpsumræður)

Miðvikudaginn 12. mars 2003, kl. 21:45:32 (4875)

2003-03-12 21:45:32# 128. lþ. 98.1 fundur 493#B almennar stjórnmálaumræður (útvarpsumræður)#, MS
[prenta uppsett í dálka] 98. fundur, 128. lþ.

[21:45]

Magnús Stefánsson:

Hæstv. forseti. Góðir áheyrendur. Nú líður senn að því að síðasta þing Alþingis á þessu kjörtímabili ljúki störfum og fram undan er kosningabaráttan fyrir alþingiskosningarnar þann 10. maí nk.

Kosningabarátta snýst um að draga fram árangur stjórnmálaflokkanna, að kynna stefnumiðin og fá fylgi við þau og sannfæra kjósendur um ágæti einstakra frambjóðenda og flokka. Vonandi er að kosningabaráttan nú verði með þeim hætti en ekki sá leðjuslagur sem einkennt hefur umræðuna að undanförnu.

Framsfl. hefur fulla ástæðu til að ganga stoltur til kosninga enda árangur flokksins glæsilegur í gegnum tíðina. Grundvallarstefna flokksins höfðar til stórs hóps kjósenda og áherslumál hans falla í góðan jarðveg. Allt þetta hefur birst í því að mikill meiri hluti kjósenda hefur í skoðanakönnunum lýst því að þeir vilji að Framsfl. eigi aðild að ríkisstjórn. Það gengur hins vegar ekki eftir nema Framsfl. fái góða kosningu í maí. Fái flokkurinn ekki góða kosningu er það spá mín að eftir kosningar verði hér stjórnarkreppa með tilheyrandi afleiðingum, svo sem óðaverðbólgu.

Herra forseti. ,,Vinna, vöxtur og velferð`` eru kjörorð sem Framsfl. gengst undir fyrir komandi alþingiskosningar. Þessi þrjú orð segja mikið og lýsa vel grundvallarsýn framsóknarmanna. Traust og öflugt atvinnulíf er forsenda þess að hægt sé að bera uppi þá félagshyggju og velferðarstefnu sem Framsfl. vinnur að.

Eftir að hafa átt aðild að ríkisstjórn sl. átta ár hefur Framsfl. lagt grunn að áframhaldandi framsókn þjóðfélagsins. Góð staða þjóðarbúsins gerir það að verkum að á næstu árum verður mögulegt að efla velferðarkerfið enn frekar. Margt hefur verið gert á síðustu árum í þá veru og því verkefni lýkur seint. Við framsóknarmenn viljum fá tækifæri til að halda áfram verki okkar á þessum sviðum.

Atvinnustefna framsóknarmanna hefur nú skilað þeim árangri að á næstu árum verða mjög aukin umsvif á mörgum sviðum atvinnulífsins. Þjóðarframleiðsla mun aukast og það skilar okkur meiri tekjum en nokkru sinni. Athyglisvert er að meiri sátt ríkir nú um íslenskan landbúnað en oftast áður. Afkoman er misjöfn eftir búgreinum, mikil sóknarfæri eru í sumum þeirra en leggja verður sérstaka áherslu á að bæta kjör sauðfjárbænda.

Vegna þess svigrúms sem nú þegar hefur skapast mun Framsfl. beita sér fyrir því á næstu árum að tekjuskattar almennings verði almennt lækkaðir og við leggjum jafnframt til að dregið verði enn frekar úr tekjutengingu barnabóta þannig að öll börn fái ótekjutengdar barnabætur. Á þessu kjörtímabili var það skref tekið að öll börn innan sjö ára aldurs fengju ótekjutengdar barnabætur. Við viljum stíga skrefið til fulls.

Með sterkri stöðu Framsfl. eftir kosningar í maí mun flokkurinn áfram hafa aðstöðu til að fylgja atvinnustefnunni eftir. Það mun sem fyrr kalla fram hagvöxt, aukinn kaupmátt og vaxandi þjóðartekjur. Allt þetta mun auka svigrúm ríkissjóðs enn frekar til að efla velferðarkerfið, auk þess að lækka skatta á almenning og fyrirtæki.

Þegar rætt er um trúverðugleika stjórnmálaflokka, kosningaloforð og efndir þeirra skoðaðar kemur glöggt í ljós að þau markmið sem Framsfl. lagði upp með fyrir tvennar síðustu alþingiskosningar hafa gengið eftir í meginatriðum. Framsfl. leggur áherslu á að efndir fylgi orðum og leggur sig fram um að vera trúverðugur og traustur kostur fyrir kjósendur í landinu. Kosningar snúast öðru fremur um traust, framsækni og heiðarleika. Því stendur Framsfl. vel að vígi nú sem fyrr.

Góðir áheyrendur. Vinna, vöxtur og velferð eru grundvallarhugtök sem lýsa þeim áherslum sem við framsóknarmenn leggjum upp með fyrir komandi kosningar. Þau miða að því að bæta hag þjóðarinnar enn frekar þannig að Ísland verði áfram í fremstu röð þjóða heims ef litið er til lífskjara. Við framsóknarmenn vitum að almennt eru kjósendur sammála okkur og við vitum að reynsla kjósenda er sú að þeir geta trúað okkur og treyst. Framtíðarhagsmunir þjóðarinnar felast sem fyrr í því að veita Framsfl. brautargengi til áframhaldandi aðildar að landstjórninni. --- Góða nótt.