Almennar stjórnmálaumræður (útvarpsumræður)

Miðvikudaginn 12. mars 2003, kl. 21:50:26 (4876)

2003-03-12 21:50:26# 128. lþ. 98.1 fundur 493#B almennar stjórnmálaumræður (útvarpsumræður)#, GAK
[prenta uppsett í dálka] 98. fundur, 128. lþ.

[21:50]

Guðjón A. Kristjánsson:

Herra forseti. Góðir áheyrendur. Við þurfum að stöðva flóttann af landsbyggðinni. Frjálslyndi flokkurinn vill efla trú og traust þjóðarinnar á íslenskan landbúnað. Markmið Frjálslynda flokksins er að stöðva og snúa við flóttanum úr byggðum landsins. Tilraunir stjórnvalda til þess að aðstoða bændur við framleiðslu sína og við að stöðva fólksflóttann úr sveitunum með því að gefa bændum framleiðslurétt og síðar framseljanlegan rétt hafa misheppnast og gert það að verkum að áætlanir og fjárfestingar í sveitum landsins hafa verið og eru í uppnámi.

Alþjóðasamningar munu á næstu árum setja okkur kröfur um minni framleiðslutengda styrki og annan markaðsráðandi stuðning við hefðbundinn landbúnað. Við þurfum því að styrkja landbúnaðinn á nýjum forsendum fyrr eða síðar. Núverandi fyrirkomulagi styrkja í landbúnaði þarf að breyta þegar núgildandi búvörusamningar falla úr gildi, m.a. með upptöku fjölskylduvænna búsetustyrkja.

Frjálslyndi flokkurinn telur nauðsynlegt að halda áfram að leggja fjármagn til landbúnaðar á Íslandi en á öðrum forsendum en hingað til. Frjálslyndi flokkurinn vill stuðla að búsetu á sem flestum jörðum, tillögur Frjálslynda flokksins eru um búsetustyrki og takmarkaða framleiðslustyrki með það að markmiði að kleift verði að endurlífga sveitir landsins, tekjur fólksins og láta á það reyna hvort búskapur á Íslandi geti staðið undir sér án beinna afskipta opinberra yfirvalda af framleiðslunni.

Við viljum fjölskylduvænan landbúnað og að lögð verði í framtíðinni áhersla á að búsetustyrkir séu til fjöskyldubúa með sjálfstæða starfsemi. Markmið Frjálslynda flokksins eru að landbúnaður verði áfram grundvöllur byggðar í sveitum landsins, breyta þarf forsendum landbúnaðar svo að aðstæður batni og nýir möguleikar skapist í greininni. Frjálslyndi flokkurinn vill létta af landbúnaði hinni yfirgripsmiklu miðstýringu hafta og kvótakerfis sem greinin hefur búið við. Einstaklingsfrelsið til athafna þarf að fá að njóta sín í þessari atvinnugrein sem öðrum.

Því miður er enn til fátækt fólk á Íslandi. Misskipting þeirra ofurríku, sem gjafirnar fengu, og þeirra efnaminni fer vaxandi. Þess heldur er ástæða til þess að bæta velferðarþjónustuna og tryggja því fólki sem þess þarf með húsnæði með félagslegum úrræðum sveitarstjórna, stjórnvalda og Alþingis.

Í umræðum hér fyrr í kvöld vakti hv. þm. Ásta Möller athygli á því að á Íslandi hefði fólk það gott að meðaltali. Það minnir mig á söguna af manninum sem stóð með annan fótinn í heitu vatni og hinn í köldu og hafði það víst að meðaltali bara ágætt. Eftir því sem fleiri ofurlaunamenn fæðast í þjóðfélagi okkar munu þeir sjálfsagt hækka meðaltal þeirra fátæku og þannig geta auðvitað fulltrúar ríkisstjórnarinnar haldið því fram að að meðaltali höfum við Íslendingar það bara mjög gott. Við höldum áfram að horfa á það að fleiri og fleiri hafa tí- og tuttuguföld laun verkamanna. Og meðaltalið verður áfram mjög gott.

Hv. þm. Einar K. Guðfinnsson vék að því í ræðu sinni áðan að dæmin um auknar skattbyrðar á einstaklinga væru hjóm eitt og bull. Ef ég man rétt voru eldri borgarar í gær að kynna auknar skattgreiðslur félagsmanna sinna, eldri borgara. Og svo kemur hv. þm. og segir hér að fólkið sem finnur auknar skattbyrðar á sjálfu sér hljóti að vera haldið einhverjum sýndarveruleika. Það er ekki hægt að ráða annað af þeim orðum sem hann hafði hér uppi en að fólk eigi að sæta hærri skattbyrði í þjóðfélaginu.

Herra forseti. Það er þörf fyrir velferðarþjónustu, hvort sem er í heimahúsum, á dvalarheimilum eða heilsugæslu og sjúkrahúsum. Og það er rétt að leggja á það áherslu að þörfin fyrir velferðar- og heilbrigðisþjónustu hverfur ekki við það að ríkið dragi úr þjónustu eða veiti hana alls ekki.

Sú ríkisstjórn sem nú situr að völdum hefur æ meir hneigst í átt til þess að draga úr samfélagsþjónustunni. Við sjáum þess dæmi í heilbrigðisþjónustunni á hækkun lyfjakostnaðar og hækkun komugjalda á heilsugæslustöðvunum. Innan Sjálfstfl. eru líka uppi áform um að einkavæða heilbrigðiskerfið og velferðarþjónustuna. Ríkisstjórnin hefur lækkað skatta á hátekjufólk en aukið skattbyrði lágtekjufólks. Þessi ríkisstjórn hefur líka valið að setja það í forgang að lækka verulega skatta á stóreignamenn og fyrirtæki.

Samkvæmt stefnu ríkisstjórnarinnar eru fjármunir þjóðfélagsins best komnir í höndum sem fæstra, og núverandi ríkisstjórn hefur svo sannarlega unnið í þeim anda með því að færa örfáum mönnum á silfurfati sameign allrar þjóðarinnar, sjávarauðlindina.

Það er alveg ljóst að þrátt fyrir hagsæld í efnahagsmálum hafa lífskjör fólks á Íslandi aldrei verið eins misjöfn og þau eru nú. Það hefur myndast gjá milli þeirra sem hafa fengið fullt frelsi til að athafna sig með auðlind allrar þjóðarinnar og hinna sem fengu aldrei tækifæri til þess.

Góðir Íslendingar. Í vor verður kosið til nýs Alþingis. Frjálslyndi flokkurinn treystir því að hann eigi gott brautargengi með þjóðinni. Við munum fylgja eftir sannfæringu okkar sem hingað til og treystum á stuðning kjósenda. --- Góðar stundir.