Álbræðsla á Grundartanga

Fimmtudaginn 13. mars 2003, kl. 11:07:08 (4888)

2003-03-13 11:07:08# 128. lþ. 99.11 fundur 671. mál: #A álbræðsla á Grundartanga# (stækkun, skattlagning) frv. 85/2003, Frsm. 1. minni hluta SvanJ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 99. fundur, 128. lþ.

[11:07]

Frsm. 1. minni hluta iðnn. (Svanfríður Jónasdóttir) (andsvar):

Herra forseti. Sú þáltill. sem ég hef verið að vitna til og er 1. flm. að gengur út á það að skoðað yrði hvort ekki sé rétt að við tökum upp það sama fyrirkomulag og er í Noregi sem er eftirmynd þess fyrirkomulags sem er í Evrópusambandinu. Það er það sem við höfum sagt um þetta mál og okkur finnst rétt að gera það. Það er rétt að taka upp það sem virðist ganga vel hjá öðrum og virðist gefast vel, a.m.k. betur en sú pólitík sem hér hefur verið rekin þar sem oftar en ekki kemur upp kvittur um það að um pólitískt, jafnvel flokkspólitískt, ráðslag og stuðning sé að ræða þegar verið er að takast á við það að styrkja verkefni eða einstök fyrirtæki, og slíkt er alltaf undir gagnrýni.

Hvað varðar hins vegar þetta með jafnræðið heyri ég að hæstv. ráðherra skilur ekki muninn á því að öll fyrirtæki á Íslandi séu sköttuð og hinu að fyrirtæki séu meðhöndluð þannig að jafnræðis verði gætt þannig að samkeppnisforsendum verði ekki raskað. Álver, hvort sem það er á Grundartanga eða austur á fjörðum, er ekki í neinni samkeppni við bakaríið á Bolungarvík eða á Selfossi. Það er ekki verið að raska neinum samkeppnisforsendum þótt ekki gildi alfarið sömu reglur um þessi fyrirtæki ef menn vilja í framtíðinni takast á við mengun og útblástur frá fyrirtækinu.

Það hlýtur að vera frumréttur stjórnvalda hverju sinni að skoða hvernig þau takast á við þessa hluti. Það er ljóst að íslensk stjórnvöld eru ekki með þau áform að takast á við útblástur, hafa í rauninni vikið því frá, (Iðnrh.: Má hún tala mikið lengur?)

(Forseti (GÁS): Forseti stýrir þessum fundi.)

... en í framtíðinni kann þetta mál að koma upp og þá er óeðlilegt, herra forseti, að það sé búið að binda íslensk stjórnvöld í samningum við einstök fyrirtæki.