Álbræðsla á Grundartanga

Fimmtudaginn 13. mars 2003, kl. 11:12:30 (4891)

2003-03-13 11:12:30# 128. lþ. 99.11 fundur 671. mál: #A álbræðsla á Grundartanga# (stækkun, skattlagning) frv. 85/2003, Frsm. 2. minni hluta ÁSJ
[prenta uppsett í dálka] 99. fundur, 128. lþ.

[11:12]

Frsm. 2. minni hluta iðnn. (Árni Steinar Jóhannsson):

Herra forseti. Við fjöllum hér um frv. til laga um breytingu á lögum nr. 62/1997, um heimild til samninga um álbræðslu á Grundartanga, með síðari breytingum.

Virðulegi forseti. Ég er talsmaður 2. minni hluta iðnn. sem fulltrúi Vinstri hreyfingarinnar -- græns framboðs í iðnn. En áður en ég fer yfir nál. mitt vil ég geta þess að ég hef á síðustu tveimur árum átt þess kost að heimsækja álverið á Grundartanga, álver Norðuráls, núna síðast fyrir tveimur vikum var tekið á móti okkur fulltrúum Vinstri hreyfingarinnar -- græns framboðs í því fyrirtæki. Ég vil geta þess að ég tel að það sé mjög myndarlega að öllu staðið varðandi rekstur þessa fyrirtækis og ég tel forsvarsmenn álversins vera mjög meðvitaða um stöðu sína í samfélaginu og reyni að vinna vel að málum, bæði hvað varðar vöktun og umhverfismál, mengunarmál og starfsmannamál, eins og hægt er. Enda held ég að þeir sem eru í þessum iðnaði ... (Gripið fram í.) ég segi það vegna þess að ég tel að það sé reginmunur á fyrirtækjum. Þessir starfsmenn eru menntaðir í geiranum og hafa sett sig inn í starfsumhverfi þessa iðnaðar, mestmegnis erlendis, og það er alveg ótrúlegt hvað starfsmenn álversins eru miklu meðvitaðri um nauðsyn þess að ástunda t.d. umhverfisvöktun og lifa í sátt við náttúruna eins og möguleiki er til miðað við þennan iðnað, heldur en t.d. umræðan hér á hinu háa Alþingi er hjá fulltrúum nefnda, fulltrúum sveitarfélaga og jafnvel alþingismönnum. Ég vildi koma þessu á framfæri. Það er undarlegt að upplifa það að starfsmenn iðnaðarins virðast hafa miklu meiri skilning á gagnrýni þeirra sem hafa önnur sjónarmið hvað varðar þessa starfsemi en er t.d. ríkjandi hér á hinu háa Alþingi og á hinu pólitíska sviði.

[11:15]

Ég er fyllilega meðvitaður um það að hér er ég að hrósa þessum mönnum. Þeir hafa greinilega sett sig mjög vel inn í málin, sérstaklega umhverfismálin, þó þeir séu í þessum rekstri og þeir eru meðvitaðir um að gera það eins vel --- ég undirstrika það --- eins vel og hægt er miðað við þennan iðnað, (JÁ: Ertu hissa á þessu?) mjög vel. Nei, ég er kannski ekki hissa á því. En það er gleðileg staðreynd miðað við það andrúmsloft sem hér ríkir á hinu pólitíska sviði og í nefndastarfi. Þetta er alveg tvennt ólíkt. Hér vilja menn bara skella sér á magann gagnrýnislaust í mörgum tilvikum, eru ekki tilbúnir til þess að fara í grunnvinnu sem er undanfari þess að taka ákvörðun um svona hluti og það sýnir sig nú varðandi þetta frv. að það er sett hér fram í þingið viku fyrir þinglok. Ég er sannfærður um að forsvarsmönnum álversins mundi ekki detta í hug, ekki einu sinni detta það í hug, að vinna með þessum hætti og halda að það væru vönduð vinnubrögð. Það gera þeir ekki. En hið háa Alþingi lætur bjóða sér viku fyrir þinglok að skauta yfir þetta mál og afgreiða það sem lög frá Alþingi. Þetta er ekki sanngjarnt. Þetta mundu starfsmenn iðnaðarins aldrei gera, enda eru þeir með plön langt fram í tímann og leggja niður fyrir sér hvað þeir vilja.

Virðulegi forseti. Frv. til laga um breytingu á lögum nr. 62/1997 fjallar í stórum dráttum um að veita Norðuráli í Hvalfirði heimild til þess að stækka álverið þar úr 90 þús. tonnum í áföngum í 180 þús. tonn, síðan í 240 þús. tonn og auka heimild upp í 300 þús. tonn. Það sem hangir á spýtunni varðandi þetta mál er augljóslega það að til þess að geta gengið til samninga um þessa stækkun þarf Landsvirkjun í samvinnu við önnur orkufyrirtæki í landinu að fara í gríðarlega orkuöflun, fyrst upp í 180 þús. tonn og síðan upp í 240 þús. tonn. Það er meginforsenda þess að minni hlutinn telur ekki hægt að afgreiða þetta mál að svo stöddu, þ.e. vegna orkuþáttarins og orkuöflunarþáttarins í málinu. Ég vil undirstrika að álverið hefur nú þegar heimild til að stækka úr 90 þús. tonnum í 180 þús. tonn þannig að augljóslega er hægt að fara í þá framkvæmd ef fyrirtækið getur samið við Landsvirkjun um orkuöflun.

Hér seinna í dag verður 2. umr. um frv. sem er forsenda þess að hægt sé að fara í þá stækkun sem menn fyrirhuga á Grundartanga. Þar liggja þrjú verkefni undir eða í raun og veru fjögur vegna þess að til að þetta verkefni geti orðið að veruleika, þ.e. þessi stækkun, þá þarf Hitaveita Suðurnesja og Orkuveita Reykjavíkur og Landsvirkjun að koma að málinu með gríðarlegum virkjunarframkvæmdum. Ég segi fjögur fyrirtæki vegna þess að reiknað er með því að aukið verði við afl Nesjavallavirkjunar um 16 megavött. En síðan hangir á spýtunni í raun alveg nýtt orkuver á Reykjanesi upp á allt að 80 megavött. Þetta er algjör forsenda fyrir því að hægt sé að fara í þessar fyrirhuguðu stækkunarframkvæmdir uppi í Hvalfirði hjá Norðuráli.

Það hangir náttúrlega líka á spýtunni að talað er um stækkun í samvinnu við Orkuveitu Reykjavíkur og á hennar vegum, stækkun á Nesjavöllum sem lýtur að því að þar verður bætt við einni vél úr 90 megavöttum í 120 megavött. Síðan er það náttúrlega langumdeildasta verkefnið, Norðlingaölduveita, sem eykur afl í Þjórsárvirkjunum til þess að unnt sé að semja um þessa stækkun. Norðlingaölduveita er í sjálfu sér efni í umræðu út af fyrir sig vegna þess að hönnun veitunnar liggur engan veginn fyrir og verður á dagskrá á eftir hér í þinginu. Hönnun er í gangi og samkvæmt þeim upplýsingum sem nú liggja fyrir er alls ekkert útséð um það hvernig hönnun mannvirkisins fer fram á grunni álits hæstv. setts umhvrh. Hv. Alþingi hefur enga möguleika á því að setja sig inn í það svo fullnægjandi sé vegna þess að nú eru aðeins tveir dagar eftir af þinginu.

Þess vegna, virðulegi forseti, telur minni hlutinn að alls ekki séu forsendur fyrir því að koma fram hér með lagafrv. sem veitir svo miklar heimildir til samninga um stækkun á fyrirtækinu uppi í Hvalfirði. Fyrirtækið getur stækkað upp í 180 þús. tonn miðað við þá samninga sem nú eru fyrir hendi, úr 90 þús. tonnum í 180 þús. tonn. En fyrirtækið vill fara í 240 þús. tonn og hefur heimild til þess að fara í 300 þús. tonn.

Það er algjör krafa að menn hafi þann ramma sem nauðsynlegur er hvað varðar nýtingu vatnsafls og jarðvarma um hvernig á að fara í þessar auðlindir áður en gefnar eru heimildir af því tagi sem hér stendur fyrir dyrum að gefa, algjör. Hvar ætla menn að enda þessa ferð? Á bara að skella sér á magann og sjá svo til? Ætla menn bara að ímynda sér að Hengilssvæðið sé framtíðargnóttarorkuöflunarsvæði fyrir höfuðborgina sem dæmi (Gripið fram í: Plús Hellisheiðin.) plús Hellisheiðin. Það er ekki víst að svo sé. Það hefur komið fram í gögnum að það er lítils háttar niðurdráttur hvað varðar orkugetu Nesjavallasvæðisins. Hér er því alls ekkert um óþrjótandi orkulindir að ræða sem réttlæta það að við getum hagað okkur eins og við gerum.

Norðurál hóf framleiðslu á Grundartanga 1. júlí 1998 og í byrjun var ársframleiðsla álversins 60 þús. tonn eins og ég drap á áður. Sumarið 2001 var framleiðslan aukin í 90 þús. tonn á ári. Í upphaflegu starfsleyfi og mati á umhverfisáhrifum var gert ráð fyrir að fyrirtækið mundi framleiða allt að 180 þús. tonn af áli og að uppbyggingin yrði í áföngum á tiltölulega skömmum tíma. Norðurál, eins og ég gat um áðan, hefur nú þegar leyfi fyrir 180 þús. tonna álveri. Í frv. er hins vegar gert ráð fyrir að fyrirtækinu verði heimilt að stækka í allt að 300 þús. tonn ef samningar nást við Landsvirkjun um raforkuafhendingu. Upplýst hefur verið að fyrirtækið hyggst stækka í 180 þús. tonn eins og heimild er fyrir og síðan, ef þetta frv. verður samþykkt, í 240 þús. tonna ársframleiðslu. En áframhaldandi stækkun upp í 300 þús. tonn mun vera óljós. Forsendur stækkunarinnar eru auðvitað samningarnir við Landsvirkjun og afhending á rafmagni.

Annar minni hluti hefur þegar gert athugasemdir við frv. til laga um breytingu á lögum nr. 60/1981, um raforkuver, með síðari breytingum, þar sem kveðið er á um heimildir til virkjana sem eru grundvöllur þess að hægt sé að afhenda aukna orku til Norðuráls í Hvalfirði. Þar er um að ræða stækkunina í Svartsengi um 16 megavött, heimild til 80 megavatta virkjunar á Reykjanesi og stækkun úr 90 í 120 megavött á Nesjavöllum, auk Norðlingaölduveitu.

Annar minni hluti hefur gert alvarlegar athugasemdir við undirbúning þessara mála. Minnt skal á að unnið er að rammaáætlun um nýtingu vatnsafls og jarðvarma í landinu og telur 2. minni hluti einsýnt að fresta beri ákvarðanatöku um orkuvinnslu á öllum þessum svæðum þar til slík áætlun hefur verið lögð fram og samþykkt. Í ljósi þessa telur 2. minni hluti ekki tímabært að samþykkja frumvarp um heimild til stækkunar álvers Norðuráls í Hvalfirði í 300 þús. tonn.

Í tengslum við þetta mál eru líka óafgreidd mál sem mikil gagnrýni hefur verið uppi um og það eru mál varðandi línulagnir. Þar setja menn stór spurningarmerki við áframhaldandi línulagnir og stofnlagnir frá Landsvirkjunarkerfinu og frá virkjununum og inn á Brennimel. Hv. Alþingi hefur ekki haft tækifæri til þess að setja sig inn í málið svo viðunandi sé.

Almennt um þetta mál. Hér erum við líka, eins og með álverið á Reyðarfirði um daginn, með sérsamninga sem lúta að þessu eina fyrirtæki. Það er undarleg stefna hæstv. ríkisstjórnar að hægt sé að hygla stórfyrirtækjum með sérsamningum um skatta og aðra umgjörð, en neita síðan slíkum hugmyndum þegar talað er um okkar eigin iðnað eða uppbyggingu á eigin forsendum, á forsendum okkar sjálfra. Það tel ég að sé mjög gagnrýnivert og tek undir þær gagnrýnisraddir að slík fyrirtæki eiga að ganga inn í almennt skattalegt umhverfi í landinu en ekki að njóta gríðarlegra fríðinda umfram aðra. Hvað Norðurál varðaði þá voru fríðindin metin til 22 milljóna bandaríkjadollara bara hvað varðar skatta og gjöld og þá voru ekki með talin fríðindi eins og aðkoma sveitarfélaganna og ríkisins að uppbyggingu hafnar o.s.frv.

Virðulegi forseti. Aðalmálið er að við höfum ekki heildstæða mynd af því vegna vöntunar á rammaáætlun um nýtingu vatnsafls og jarðvarma hvernig við ætlum að nýta þessar orkuauðlindir. Sú áætlun verður að liggja fyrir og þar með verður að liggja miklu skýrar fyrir hvaða framtíðarorkuöflunarmöguleikar eru fyrir hendi fyrir höfuðborgarsvæðið. Það getur ekki verið rétt ef matið verður það að við séum að ganga á auðlindir til orkuöflunar í allra næsta nágrenni höfuðborgarinnar sem muni síðar koma okkur í koll. Þá er ég að tala um áratugi eða hagsmuni heillar kynslóðar. Rammaáætlun verður að liggja fyrir áður en frekari sala eða áform um sölu og uppbyggingu raforkuvera liggur fyrir. Það er grundvallaratriði.

Ég vil taka það fram að álverið hefur þarna möguleika til helmingsstækkunar og eflaust er það samningsatriði fyrirtækisins við Landsvirkjun hvort það getur fengið rafmagn á viðunandi verði til þess að fara í þá stækkun. En það stendur upp á okkur að gæta hagsmuna landsins í heild sinni og gæta þess að ekki sé vaðið áfram þannig að auðlindir landsins séu notaðar á þann hátt að það komi okkur í koll seinna þannig að við getum ekki notað þær til annarra og e.t.v. nauðsynlegri og hagkvæmari verkefna en við erum að fara í hér. Þá tala ég um til lengri tíma litið, virðulegi forseti.