Álbræðsla á Grundartanga

Fimmtudaginn 13. mars 2003, kl. 11:41:00 (4897)

2003-03-13 11:41:00# 128. lþ. 99.11 fundur 671. mál: #A álbræðsla á Grundartanga# (stækkun, skattlagning) frv. 85/2003, Frsm. 2. minni hluta ÁSJ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 99. fundur, 128. lþ.

[11:41]

Frsm. 2. minni hluta iðnn. (Árni Steinar Jóhannsson) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það er nú alltaf sérstakt þegar hæstv. iðnrh. kemur í andsvör og fer að meta það hver hugur manna sé til mála. Ég leyfi mér ekki að koma fram með slíkum hætti og halda því fram að hæstv. iðnrh. komi hér inn með eitthvert mál en hugur hennar standi til einhvers annars. Mér finnst það ósmekklegt í hæsta máta.

Það gefur náttúrlega augaleið að við erum ekki á móti virkjunum og höfum aldrei talað þannig. Hvað varðar nýtingu jarðvarmans hefur margkomið fram að hún byggir á því að farið sé hægt í jarðhitasvæðin. Og það sé húkkað upp nýjum vélum eftir því sem virkjunaraðilar læra að þekkja á svæðið. Það er alls staðar þannig þar sem við höfum farið í orkuframleiðslu á þessum grunni. Það er við Kröflu. Það er í Svartsengi. Forsvarsmenn í Svartsengi segja að það sé ráðlegt og ekkert mál að setja upp samstæðu sem auki aflið um 16 megavött. Auðvitað er það allt í lagi. Forsvarsmenn í Svartsengi hafa sagt mér að til þess að fara í virkjun á Reykjanesi þurfi að viðhafa nákvæmlega sömu vinnubrögð, að setja niður vél og skoða síðan hvernig svæðið artar sig, hvernig það ryður sig, og meta í framhaldi af því möguleikana á því að setja upp fleiri vélar til þess að svæðin endist. Nákvæmlega það sama í Kröflu. Og auðvitað á að vinna þannig.

Það liggur fyrir að það er niðurdráttur á Nesjavöllum. Mér hefur verið sagt að betra hefði verið að bíða í rólegheitum og sjá hvernig svæðið ryðji sig áður en menn færu að setja upp nýjar vélar í offorsi. Það er þetta sem ég er að tala um.