Álbræðsla á Grundartanga

Fimmtudaginn 13. mars 2003, kl. 12:02:44 (4901)

2003-03-13 12:02:44# 128. lþ. 99.11 fundur 671. mál: #A álbræðsla á Grundartanga# (stækkun, skattlagning) frv. 85/2003, SJS
[prenta uppsett í dálka] 99. fundur, 128. lþ.

[12:02]

Steingrímur J. Sigfússon:

Herra forseti. Hv. þm. Árni Steinar Jóhannsson hefur gert grein fyrir afstöðu okkar, þingmanna Vinstri hreyfingarinnar -- græns framboðs, til þessa máls og ég þarf ekki að endurtaka það sem þar var sagt. Það eru nokkur almenn atriði sem ég vil nota tækifærið og ræða hér í þessu sambandi og reyndar eitt eða tvö efnisatriði frv. sjálfs sérstaklega en kem að því betur á eftir.

Hér er á ferðinni, herra forseti, hluti af þeim gríðarlega stóriðjupakka hæstv. ríkisstjórnar sem er náttúrlega svo risastór að ég er ekki viss um að allir landsmenn átti sig á því hversu stór hann í raun og veru er og hversu stórtækar breytingar á samsetningu íslensks, ekki bara raforkumarkaðar og iðnaðar, heldur efnahags- og atvinnulífs er í raun verið að framkalla, minnst að vísu í gegnum þau störf sem í þessum fyrirtækjum verða eða þeim tengjast vegna þess að þau áhrif sem slík á íslenska vinnumarkaðinn eru ekki stór miðað við margt annað sem er að gerast hjá okkur. En hins vegar eru hér á ferðinni svo stórar fjárfestingar og svo miklar breytingar á t.d. samsetningu útflutnings frá Íslandi, svo miklar breytingar á því hvaða sveiflum á heimsmarkaði íslenskt efnahagslíf fer að tengjast í gegnum stóraukna framleiðslu á áli og samninga um afhendingu raforku til verksmiðja sem allir eru sama marki brenndir að þeir tengjast heimsmarkaðsverði á áli.

Hér er lagt til að heimildir verði veittar til að stækka álverið á Grundartanga upp í 300 þús. tonn. Nú er það svo eins og hér hefur komið fram að þetta fyrirtæki hafði fyrir starfsleyfi upp á 180 þús. tonn og áformar ekki að nýta nema 90 þús. tonna aukningu og framleiðslu upp í 180 þús. tonn fyrr en komið er fram undir lok þessa áratugar. Hér er því verið að gefa út mjög stóra óútfyllta heimild inn í framtíðina vegna framtíðaráforma þessa fyrirtækis og reyndar meira en það, því samkvæmt upplýsingum í greinargerð frv. standa áætlanir fyrirtækisins til þess að ráðast nú í stækkun um 90 þús. tonna framleiðslu og fara þá í 180 þús. tonn og að sú framleiðsluaukning verði þá komin í gagnið á árunum 2005--2006. Þar til viðbótar eru áform um að auka framleiðslugetuna um 60 þús. tonn í viðbót og þá yrði framleiðslan orðin 240 þús. tonn og það yrði kannski þegar komið yrði fram undir lok þessa áratugar, 2009--2010 eða svo.

En það á að gera betur. Það á að bæta þar við 60 þús. tonnum þannig að fyrirtækið geti einhvern tímann í framtíðinni farið í allt að 300 þús. tonn. Og Alþingi á sem sagt að samþykkja þetta, þeir sem ætla sér að styðja þetta frv., fullkomlega að sjálfsögðu óafvitandi um hvaða virkjunarkostir yrðu fyrir valinu í þessar mögulegu framtíðarstækkanir og hvaða aðstæður verða þá við lýði hvað varðar efnahagsmál, atvinnumál, umhverfismál eða annað í þeim dúr.

Er einhver ástæða til að standa svona að málum? Ég verð að segja alveg eins og er að ég fæ ekki botn í það að festa þurfi í lögum slíkar heimildir með þessum hætti hér og nú. Það er auðvitað fullkomlega óeðlilegt að standa þannig að verki. Kosturinn þó við að ræða þessa stækkun núna um 90 þús. tonn er sá að við vitum hvaða virkjunarkostir eru þar fyrirhugaðir. Og við getum þá rætt um þá og tekist á um það. Teljum við að það sé ásættanlegt eða réttlætanlegt t.d. að fara í þær virkjanir til að framleiða raforku í fyrirhugaða stækkun en varðandi framtíðina að öðru leyti vitum við ekki neitt?

Menn geta auðvitað giskað á það að mögulega komi t.d. virkjanir í neðri hluta Þjórsár til greina. Sumir hafa nefnt Villinganesvirkjun fyrir norðan ef fallist yrði á að ráðast í hana, sem er nú ekki víst og mjög ólíklegt held ég, að þá ætti að fara með þann straum suður, án þess að ég viti nú hvort heimamenn þar yrðu sérstaklega hamingjusamir ef það yrði niðurstaðan. Menn hafa jafnvel farið vestur á firði og talað um virkjun Hvalár í Ófeigsfirði. En þetta eru ósköp einfaldlega vangaveltur út frá því sem menn eru að geta sér til um og spá í eyðurnar. Auðvitað á ekki að vinna að þessum hlutum þannig.

Og það tekur steininn úr í ljósi þess, eins og áður hefur komið fram, að hér hefur ekki verið unnin nein sú grundvallarvinna sem auðvitað á að vinna í orkumálum, þ.e. að ljúka gerð rammaáætlunar um nýtingu vatnsafls og jarðvarma, forgangsraða virkjunarkostunum út frá umhverfissjónarhóli. Og þá er betur hægt að átta sig á því, herra forseti, hvaða möguleika við höfum, úr hverju við höfum að spila og hvernig við ætlum að nýta þá.

Auðvitað gengur hratt á heppilega virkjunarkosti á suðvesturhorni landsins í nágrenni höfuðborgarinnar ef þetta heldur fram sem horfir, t.d. virkjunarkosti sem væru afar heppilegir til að beisla í áföngum vegna vaxandi þarfa innlends notendamarkaðar. Það hefur augljósa kosti t.d. að nýta jarðvarmann á stöðum sem búið er að beisla að hluta til. Við getum tekið Nesjavelli þar sem dæmi eða Svartsengi eða Reykjanes. Það er ákaflega heppilegt að taka þar inn í áföngum viðbótarframleiðslu með viðbótartúrbínum og fellur vel að þörfum almenns notendamarkaðar.

Ég er ekki viss um að til langs tíma litið og út frá heildarhagsmunum séð sé það mjög gáfuleg áhersla í orkumálum að fara núna í þessi svæði og virkja þau, jafnvel fullvirkja þau, til að selja rafmagn til stóriðju. Fyrir utan að það er ekki góð orkunýting, það er ekki góð nýting á orkunni að fara í háhitasvæði og framleiða eingöngu rafmagn og henda þá allri þeirri orku sem fólgin er í 100 stiga heitu vatni eða þar um bil. Hins vegar er raforkuframleiðsla sem hliðarbúgrein með nýtingu varmans t.d. til húshitunar alveg ákaflega hagkvæm. Og sennilega er það sú hagkvæmasta raforka sem unnt er að skaffa fyrir utan þá allra hagkvæmustu vatnsaflsvirkjanir.

Mér finnst, herra forseti, að hlutir af þessu tagi hefðu þurft að vera hér til skoðunar og umræðu ef menn væru að taka sjálfa sig alvarlega. En það er náttúrlega ekki tilfellið. Hér er ævinlega öllu sullað í gegn bara á 150 km hraða, færibandið sett á fulla ferð.

Ég segi fyrir mitt leyti og það kom held ég skýrt fram í framsöguræðu okkar fulltrúa í iðnn. að ef á ferðinni hefði verið eingöngu sú stækkun sem nú er í undirbúningi og þeir virkjunarkostir sem þar hefðu komið til sögunnar hefðu verið ásættanlegir, þá hefði þetta mál snúið öðruvísi við og við skoðað hvort það væri þá ekki ásættanlegt og hægt að styðja það. En svo er ekki. Hér er undir einn virkjunarkostur sem ég tel að sé ákaflega hæpinn og það er Norðlingaölduveita, þrátt fyrir úrskurðinn fræga hjá settum umhvrh., og sérstaklega í ljósi þess hvernig Landsvirkjun virðist ætla að túlka möguleika sína til þess að athafna sig á svæðinu þrátt fyrir úrskurð ráðherrans, sem ég tortryggi mjög, og við komum kannski betur að þegar við förum að ræða frv. til laga um raforkuver sem er hér á dagskrá á eftir.

Herra forseti. Það eru þessi almennu atriði og kannski ekki síst það hversu gríðarlega mikið vægi ál og heimsmarkaðsverð á áli fer að hafa í okkar, ekki bara orkumálum og orkubúskap, heldur almennt í efnahagslífinu, sem ég tel að sé mikið umhugsunarefni. Og menn tala mikið um það að með þeirri þróun sé verið að reyna að skjóta fleiri stoðum undir íslenskt atvinnulíf og auka fjölbreytnina. Er það? Er verið að auka fjölbreytni með því að binda allt að 80% af orkuframleiðslu landsins í samningum um að bræða þennan eina málm? Og að heimsmarkaðsverðið á honum fer að ráða algerlega örlögum stóru orkufyrirtækjanna? Það má mjög deila um það.

Ef svo heldur sem horfir verður ál komið upp að hliðinni á sjávarútvegi með næstum því sambærilegt útflutningsverðmæti í lok þessa áratugar. (Gripið fram í.) Ja, þetta eru nú útreikningar sem ég gerði og hafði þjóðhagsáætlun mér til hjálpar í því. Ég yrði ekki hissa á því þótt þá yrði útflutningsverðmæti áls komið kannski í 90--100 milljarða, sjávarútvegurinn var að framleiða og flytja út líklega eina 110 milljarða á síðasta ári.

Við þekkjum plönin um álverið stóra eystra, þessa stækkun á Grundartanga í 180 og síðan 240 þús. og á endanum jafnvel í 300 þús. tonn. Í Straumsvík eru menn að hugsa sér til hreyfings, fara þar að vísu rólega í sakirnar. Síðan er hæstv. ráðherra af og til að taka á móti sendinefndum Rússa og Kínverja og guð má vita hvað það er og allir hafa í hyggju að fara að framleiða ál. Ef eitthvað af því bættist við til viðbótar, þá yrði þessi mynd enn þá svakalegri.

Það er mikið lagt undir, herra forseti, það er mikil trú manna á þennan eina málm. Gleymum því ekki að hér er um að ræða langtímasamninga og verðið er mjög lágt. Það er brot af því sem almennir notendur greiða. Er það endilega víst að þetta séu mjög góð viðskipti sem menn eru þarna að gera?

Herra forseti. Rætt var hér um þennan vinnustað og umhverfismál í tengslum við hann og því var meira að segja haldið fram að það væri allt fallið í ljúfa löð og allir orðnir sáttir sem áður höfðu haft efasemdir eða gagnrýnt. Ekki veit ég það nú. Ekki hefur mér heyrst það á einstökum mönnum, meira að segja þarna á nálægu svæði sem ég held að séu nú líka dálítið uggandi um þau áform um stórfellda aukningu stóriðjustarfsemi á því svæði sem kunna að vera í kortunum. Auðvitað vex mengun og uppsöfnuð mengun með stóraukinni framleiðslu þarna. Það er alveg óhjákvæmilegt þó að þetta kunni að vera innan þeirra marka sem menn hafa sett. En það er augljóst mál að eftir því sem framleiðslan verður meiri, þeim mun meiri er losun efna og ákveðin uppsöfnun á sér stað í mengun jafnvel þó að öllum ströngum reglum sé uppfyllt og þetta eru menn auðvitað að mæla og átta sig á í kringum álverið í Straumsvík. Ef þarna á að fara að byggja fleiri verksmiðjur, rafskautaverksmiðjur eða hvað það nú er, jafnvel með mikilli mengun, þá held ég að margir séu uggandi þarna á svæðinu um það hvernig ásýnd svæðisins breytist smátt og smátt og hvaða áhrif það hefur.

[12:15]

Herra forseti. Einn þátt enn um orkumálin vil ég gera aðeins að umtalsefni. Það er sú staðreynd að inn í þennan pakka ætla að bætast ásamt Landsvirkjun, Orkuveita Reykjavíkur og Hitaveita Suðurnesja, og fara þá að selja hluta af sinni framleiðslu til stóriðju. Þá er að verða enn frekara samkrull á ferðinni en verið hefur hingað til milli annars vegar orkuframleiðslu og sölu til almenns notendamarkaðar og hins vegar til stóriðju. Ég segi það hér, herra forseti, að þetta er óheillaþróun. Það var slæmt í upphafi, í byrjun, að lenda inn á þetta spor og það er jafnslæmt og óæskilegt í sjálfu sér að orkumarkaðurinn haldi áfram að þróast í þessa átt þannig að þarna bætist þá tvö stór orkufyrirtæki við sem verða komin í þessa stöðu að vera annars vegar að sinna þörfum almenns notendamarkaðar og selja orku eða afhenda orku þar og hins vegar í sölu til stóriðju.

Það átti frá byrjun að sjálfsögðu að halda þessu aðskildu í aðskildum fyrirtækjum, sjálfstæðum fyrirtækjum. Það er auðvitað aumingjaskapur að menn skuli þá ekki bara, þó seint sé, með lögum mæla fyrir um slíkan aðskilnað, t.d. þannig að Orkuveita Reykjavíkur yrði að stofna algerlega sjálfstætt dótturfélag um virkjanir, framleiðslu og sölu til stóriðjunnar.

Menn kunna að segja að það sé flókið þegar verið er að auka framleiðslu á þegar virkjuðu svæði og menn nýta í einhverjum mæli stofnkostnað sem fyrir liggur. En er ekki verið að mæla fyrir um ýmiss konar fjárhagslegan aðskilnað og jafnvel að skipta upp fyrirtækjum hist og her í atvinnulífinu, t.d. að hafa algerlega fjárhagslegan aðskilnað í starfsemi sem lýtur lögmálum einokunar eða er í fákeppnis- eða einokunarumhverfi annars vegar og svo hreinni samkeppnisstarfsemi hins vegar?

Úr því að ekki stendur til að taka á þessu með afgerandi hætti í orkulagafrv. þá er auðvitað spurning hvort Íslendingar hefðu ekki bara sjálfir átt að koma á þeirri skipan mála að þessu væri haldið algerlega aðskildu og þar með eytt allri tortryggni sem er landlæg og á sannarlega rót í staðreyndum mála, þ.e. að stóriðjan hafi í raun þegið meðgjöf frá hinum almenna notendamarkaði í gegnum tíðina, eða öfugt að menn hafi í reynd búið við hærra orkuverð en þeir hefðu ella þurft að gera vegna þeirra miklu fjárfestinga og þess lága verðs sem stóriðjan greiðir fyrir rafmagnið.

Herra forseti. Um efnahagsáhrifin af öllum þessum gríðarlegu stóriðjuframkvæmdum hefur verið rætt svo ítarlega, t.d. hér á dögunum þegar Kárahnjúkavirkjunarpakkinn var að klárast, að ég held ég vísi aðallega til þeirrar umræðu. Þó er athyglisvert að sjá að nú treysta ýmsir sér fram í dagsljósið og hafa skoðanir á þessum málum sem höfðu hægt um sig á meðan Alþingi var með þau mál beint til umfjöllunar. Það er greinilegt að forsvarsmönnum úti í efnahagslífinu og í atvinnulífinu er mjög brugðið yfir því hvaða framtíðarhorfur blasa nú við mönnum vegna efnahagsáhrifa af þessari stóru innspýtingu í hagkerfið. Varla líður sá dagur að ekki heyrist í einhverjum forsvarsmanni úr sjávarútvegi, ferðaþjónustu eða af hagfræðisviðinu sem ekki er með einhverjum hætti að reifa áhyggjur sínar í fjölmiðlum, í blaðagreinum eða á heimasíðum eða hvar það nú er. Allt er það með sama marki brennt, að það verði mjög vandlifað fyrir annað atvinnulíf, sérstaklega útflutningsatvinnugreinarnar, ef af þessu öllu saman verður og með óumflýjanlegum áhrifum á gengi krónunnar, vaxtastig í landinu og fleira.

Herra forseti. Hér eru í frv. klæðskerasaumuð utan um þarfir fyrirtækisins ýmiss konar sérákvæði í skattalegu tilliti eins og er alsiða og að sjálfsögðu leiðir eitt af öðru. Nú þarf að veita sömu ívilnanir til fyrirtækja á Grundartanga og í Straumsvík eins og gælufyrirtækið Alcoa fær fyrir austan. Það er allt á sínum stað hér sem og hið dæmalausa ákvæði að binda hendur manna með þeim hætti sem hér verður gert og til stendur eystra, að í fjárfestingarsamningi verði heimilt og með stoð í lögum að kveða á um að skattar og gjöld verði ekki lögð á raforkunotkun stóriðjunnar eða útblástur lofttegunda eða aðra losun úrgangsefna nema slíkir skattar og gjöld séu lögð með almennum hætti á öll önnur fyrirtæki hér á landi --- á öll önnur fyrirtæki hér á landi. Þetta er alveg furðuleg smíð, algjörlega furðuleg smíð. Hvað er verið að gera með þessu? Það er verið að setja þetta inn í þennan samning sem hefur stoð í lögum. Þetta verður löggerningur, verður aðfararhæft þannig að stóriðjufyrirtækið getur bara lögsótt ríkið og Alþingi á komandi árum eða áratugum ef mönnum dytti í hug að reyna að koma á einhverri annarri skipan, ella yrðu menn þá að kaupa sig frá þessum ákvæðum með samningum við fyrirtækin.

Hvers vegna í ósköpunum er verið að þessu svona? Þetta er algerlega fráleitt. Það er auðvitað engin leið að halda því fram að efnislegar ástæður séu endilega til þess að meðhöndla öll önnur fyrirtæki í landinu með sama hætti og stóriðjufyrirtækin sem eru að losa hér óhemju af mengandi lofttegundum, spýta brennisteini, koldíoxíði, flúor og öðru slíku út í andrúmsloftið í miklum mæli. Það er nú frægt auðvitað fyrir austan þar sem mengunin verður ellefuföld sú sem staðlar t.d. Alþjóðabankans mæla fyrir um og það þarf að reisa tæplega 80 metra háa strompa til að dreifa því nógu vel út yfir umhverfið. Þetta gagnrýnum við, herra forseti, og þetta er auðvitað fullkomlega óeðlilegt.

Síðan verð ég að segja alveg eins og er að ég var lengi að lesa hér efst á bls. 2 staflið e í 3. gr. Ég hélt að ég hlyti að vera að mislesa þetta því svona hroðvirknislega gæti frv. ekki verið unnið. En mér sýnist það nú engu að síður vera svo að þarna séu menn að segja akkúrat gagnstætt því sem þeir ætluðu sér. Það stendur, herra forseti, að eftirfarandi breytingar verði gerðar á 6. gr. laganna. Svo er það talið upp í stafliðum a, b, c, d og e og stafliður e hljómar svo, með leyfi forseta:

,,Félaginu skal óheimilt að draga frá skattskyldum tekjum á hverju ári og leggja í sérstakan innri fjárfestingarsjóð fjárhæð sem svarar til 4% af nafnverði hlutafjár.``

Ég hef aldrei áður séð svona lagatexta. Það er verið að taka það sérstaklega fram að félaginu sé þetta óheimilt, þ.e. að gera nákvæmlega þetta. Auðvitað er þetta augljóslega vitleysa. Þarna á væntanlega að standa ,,heimilt``. En ég vek athygli á því að iðnn. eftir hina glæsilegu vinnu sem formaður iðnn. lýsti hér --- hann sagði að það hefði verið alveg einstaklega vönduð vinna við þetta frv. Það hljómaði eins og menn hefðu legið yfir þessu í allan vetur. En það var nú ekki nema vika eða hvað sem þessu var sullað í gegnum þingið? Og vinnan er þá ekki betri en þetta, bæði hjá frumvarpshöfundunum í ráðuneytinu hjá hæstv. ráðherra og hinni óskeikulu iðnaðarnefnd undir forustu hv. þm. Hjálmars Árnasonar, að þvæla af þessu tagi er hér á prenti.

Nú spyr ég hv. þm., formann iðnn.: Stendur hann við hugmyndir sínar um að leggja það til við Alþingi að málið verði afgreitt óbreytt? Stendur formaður iðnn. við það? Er hann ekki hreykinn af þessum vinnubrögðum og þau systkini bæði, hv. þm. Hjálmar Árnason og hæstv. iðnrh., að bera þetta á borð fyrir menn svona, herra forseti?

Annars að lokum um þessi skattaákvæði, þá eru þau auðvitað öll þessu marki brennd að um alger forréttindafyrirtæki er að ræða. Það eru klæðskerasaumuð utan um þarfir þeirra alls konar sérákvæði í skattalögum og það er hreinasta öfugmæli að reyna að láta líta svo út sem þessi fyrirtæki borgi skatta og starfi samkvæmt almennum ákvæðum. Það er akkúrat öfugt. Það er bara til þess að slá ryki í augu fólks að þetta er sett fram með þessum hætti, þ.e. að fyrst er sagt að um starfsemi þeirra skuli gilda almenn ákvæði eða ákvæði almennra skattalaga, en síðan er það talið upp í ótal liðum að það skuli þó ekki gilda um þetta og þetta og þetta og þetta. Þegar upp er staðið eru þau því nánast að öllu leyti með sérákvæði í skattalegu tilliti og það er fullkomlega óeðlilegt. En það sýnir hvers konar forréttindi þessi atvinnugrein á að hafa í landinu og hver hugur stjórnvalda er í þeim efnum. Enda er alveg ljóst að hin blinda stóriðjustefna, þungaiðnaðarstefna ríkisstjórnarinnar, er eins og hún er keyrð hér áfram auðvitað ein allsherjar vantraustsyfirlýsing á almennt atvinnulíf í landinu. Menn hafa enga trú á því að hið almenna atvinnulíf geti skapað hér störf og byggt okkur hagsæld til frambúðar, sem er dapurlegt að horfa á. Engir hafa gengið lengra í þessu en framsóknarmenn sem hafa í ræðu og riti útmálað það hvers konar hörmungar bíði manna hér nema öll þeirra glórulausu stóriðjuplön gangi eftir.