Raforkuver

Fimmtudaginn 13. mars 2003, kl. 12:43:35 (4907)

2003-03-13 12:43:35# 128. lþ. 99.12 fundur 670. mál: #A raforkuver# (Norðlingaölduveita, Nesjavallavirkjun og Hitaveita Suðurnesja) frv. 67/2003, Frsm. meiri hluta HjÁ
[prenta uppsett í dálka] 99. fundur, 128. lþ.

[12:43]

Frsm. meiri hluta iðnn. (Hjálmar Árnason):

Herra forseti. Ég mæli fyrir nál. frá meiri hluta iðnn. um frv. til laga um breytingu á lögum nr. 60/1981, um raforkuver, með síðari breytingum.

Nefndin hefur fjallað allítarlega um málið. Hún fékk marga góða gesti á sinn fund og skriflegar umsagnir frá ýmsum aðilum. Þar að auki var svokölluðum umhverfisþætti málsins vísað til umsagnar hjá umhvn. að ósk nefndarmanns þar. Iðnn. fékk því umsagnir frá umhvn.

Segja má, herra forseti, að umræðan um þetta mál sé þegar hafin. Umræðan tengist mjög því máli sem hér hefur verið til umræðu í morgun, stækkun álverksmiðjunnar á Grundartanga hjá Norðuráli. Þetta frv. lýtur að orkuöflun til 1. áfanga þar. Það er grunnurinn að þessu frv. þar sem viðræður höfðu farið fram á milli Norðuráls og Landsvirkjunar um hvernig Landsvirkjun gæti útvegað orku vegna stækkunar Norðuráls á Grundartanga á þeim tíma sem fyrirtækið óskaði.

[12:45]

Segja má, herra forseti, að inn í þetta blandist líka frægur úrskurður sem ég hygg að hafi glatt þjóðina mjög, af viðbrögðum að dæma, og er ég þar að vísa í úrskurð hæstv. setts umhvrh., Jóns Kristjánssonar, vegna Norðlingaölduveitu. Í kjölfar þess úrskurðar kom í ljós að þau áform sem Landsvirkjun hafði haft uppi vegna Norðlingaölduveitu breyttust. Þar með var ljóst að Landsvirkjun hafði sjálf ekki næga orku til afhendingar fyrir þann tíma sem Norðurál hafði óskað eftir. Hins vegar leitaði fyrirtækið til Orkuveitu Reykjavíkur og Hitaveitu Suðurnesja um það hvort þessi fyrirtæki gætu útvegað þá orku sem upp á vantaði. Þær viðræður eru í gangi og tæknilega, ef svo má segja, hefur komið fram að bæði Orkuveita Reykjavíkur og Hitaveita Suðurnesja treysta sér til þess að afhenda þessa orku. Núna eru viðræður í gangi, annars vegar á milli þessara þriggja orkufyrirtækja og svo hins vegar við Norðurál um verð.

Ef ég aðeins vík fyrst að því sem vísar að Orkuveitu Reykjavíkur, þá er um að ræða heimild til þess að framleiða allt að 120 megavött á Nesjavöllum. Þar eru nú þegar fyrir þrjár túrbínur sem framleiða samtals 90 megavött og um er að ræða að bæta við túrbínu. Segja má að undirbúningur þess máls sé þegar að baki því Skipulagsstofnun hefur úrskurðað að sú framkvæmd muni ekki breyta það miklu í umhverfinu að þar sé þörf á að setja framkvæmdina í mat á umhverfisáhrifum.

Annað er hins vegar með Hitaveitu Suðurnesja og þær framkvæmdir sem þar er um að ræða. Þær eru tvíþættar. Það er annars vegar um að ræða allt að 80 megavatta afl á Reykjanesi og ég vil leiðrétta það sem fram hefur komið í umræðunni í morgun að ekki er verið að ræða um Trölladyngjusvæðið, heldur er verið að fylgja eftir margra ára rannsóknum á Reykjanesi í kringum saltverksmiðjuna, skammt frá Reykjanestánni. Hér fylgir umsögn Orkustofnunar um þær athuganir og rannsóknir sem fram hafa farið. Sérfræðingar Orkustofnunar mæla með þessu, en sú framkvæmd á auðvitað eftir að fara í mat og er bundin því skilyrði.

Hjá Hitaveitu Suðurnesja er hins vegar um að ræða stækkun jarðvarmavirkjunarinnar í Svartsengi um allt að 16 megavött. Þar er í rauninni ekki um boranir að ræða, heldur betri nýtingu einfaldlega með betri tækni hjá fyrirtækinu. Fyrirtækið hefur náð einstökum árangri líklega á heimsvísu í að beisla jarðvarma með þeim hætti sem raun ber vitni. Meðal annars er niðurdæling þar sem varmanum er að hluta til skilað aftur til jarðar og með því að ná jafngóðum tökum og raun ber vitni á því hafa opnast möguleikar til stækkunar og aukins afls án þess að fara í frekari verulegar framkvæmdir.

Um þetta snýst málið, herra forseti, þessa þrjá staði, þ.e. Norðlingaölduveitu á grundvelli úrskurðar hæstv. setts umhvrh. og hins vegar viðbótarafl frá Nesjavöllum, Svartsengi og á Reykjanesi hjá Hitaveitu Suðurnesja.

Hvað varðar Norðlingaöldu og þær framkvæmdir sem þar eru fyrirhugaðar ef samningar nást, þá er rétt að nefna það og taka mjög skýrt fram enn einu sinni, að þær framkvæmdir hafa ekki verið ákveðnar nákvæmlega, þ.e. með hvaða hætti þær verða. Útgangspunkturinn er þó úrskurður setts umhvrh., lögum samkvæmt, þar sem sett eru ýmis skilyrði sem þarf að uppfylla. Að þeim skilyrðum er verið að vinna.

Hér hefur því verið haldið fram að Landsvirkjun ætli sér að hunsa og virða að vettugi þann úrskurð og ég tel ástæðu til að vísa því á bug, því fram hefur komið að menn eru í einu og öllu að fylgja þessum úrskurði eftir. Það er ekkert óeðlilegt að í slíkri vinnu kynni Landsvirkjun þær hugmyndir sem hún er með, en það hefur komið fram m.a. hjá gestum sem komu til nefndarinnar, bæði fulltrúa Umhverfisstofnunar og ekki síður frá oddvita Gnúpverja, að samráðsvettvangurinn og samráðsferlið er til staðar. Þess er getið í úrskurðinum að Landsvirkjun og fulltrúar sveitarfélaganna á staðnum og Umhverfisstofnunar skuli hafa með sér samráð um útfærslu á þeirri virkjun sem þarna kann að rísa. Og það samráð er til staðar. Þar er engin niðurstaða komin og menn eru bara að rannsaka svæðið, Landsvirkjun neyddist til að breyta áætlunum sínum eftir úrskurðinn og er að skoða hvernig hægt er að koma upp virkjun á grundvelli úrskurðarins, þannig að hann verði virtur og að framkvæmdin verði arðbær fyrir Landsvirkjun. Og um þetta hafa menn fullt samráð.

Það er því rangt sem haldið hefur verið fram að Landsvirkjun sé að brjóta úrskurðinn, hún sé að virða hann að vettugi. Það er bara einfaldlega rangt, því menn geta ekki dæmt um þetta fyrr en að niðurstaða liggur fyrir. Og hún er einfaldlega ekki komin. Það er þó ljóst að á grundvelli úrskurðarins eru Þjórsárver og friðlandið í kringum Þjórsárver virt að öllu leyti, ekki lófastór blettur er tekinn þar undir setlón eða uppistöðulón, svo vitnað sé í yfirlýsingu þekkts manns í þjóðfélaginu. Landsvirkjun er að útfæra hugmyndir, skoða möguleika utan friðlandsins og hefur eins og nefnt var áðan um það fullt samráð við heimamenn.

Í fskj. III með frv. eru kynntar ákveðnar hugmyndir Landsvirkjunar sem hún hefur lagt fram í þessu samningaferli við heimamenn og Umhverfisstofnun. Hjá oddvita Gnúpverjahrepps hafa líka komið fram ákveðnar áhyggjur af tilteknum svæðum. Það eru einkum þrjú atriði sem þar eru nefnd. Menn ræða um grunnvatnið, grunnvatnsstöðuna á viðkvæmum svæðum, ekki síst í Þjórsárverum og þar er úrskurður hæstv. setts umhvrh. alveg afdráttarlaus, að þar þurfi að gæta mjög vel að grunnvatnsstöðunni í Þjórsárverum og vilji er til þess hjá öllum, enda úrskurðurinn á því formi.

Í máli oddvita Gnúpverjahrepps og í skriflegri umsögn hans koma fram áhyggjur vegna einkum þriggja atriða, þ.e. áhrifa á fossa í Þjórsá, lónhæðina við Norðlingaöldu og svo veitulón við Þjórsárjökul. Þessi sjónarmið hafa komið fram og það var staðfest af oddvitanum og fulltrúa Landsvirkjunar og Umhverfisstofnunar að menn eru að kynna sjónarmið sín, Landsvirkjun sín, heimamenn sín og Umhverfisstofnun sjónarmið sín og menn eru bara í ágætu ferli með að ræða þetta og við skulum vona að menn komist að sameiginlegri niðurstöðu. Verði raunin sú má segja að hinum ágæta, mjög svo ágæta úrskurði hæstv. setts umhvrh. sé framfylgt og það tel ég að sé grundvöllur í þessu máli að úrskurður hæstv. setts umhvrh. sé virtur. Er ekki að sjá nein teikn uppi um annað en að hann verði virtur í öllu eins og hér hefur komið fram.

Í umsögn frá meiri hluta hv. umhvn., sem vitnað er í á bls. 2 í nál. iðnn. kemur fram yfirlit um framkvæmd vegna Norðlingaölduveitu:

,,Komið hefur fram að verið er að skoða hvaða leiðir verði farnar. Lítur nefndin svo á að þær leiðir sem tilgreindar eru í fylgiskjalinu séu ekki bindandi á nokkurn hátt.``

Undir þetta sjónarmið tekur meiri hluti iðnn. Og hvað þýðir þetta? Þetta þýðir einfaldlega það að úrskurðurinn er lagður til grundavallar þar sem friðland Þjórsárvera er virt í hvívetna og menn skuli síðan komast að sameiginlegri niðurstöðu um hversu hátt lónið muni ná, hæðin mun þó aldrei fara upp fyrir friðlandsmörkin, hvort lónhæðin verður í 568,5 eða 566 eða einhverri annarri hæð mun koma í ljós í þessum sameiginlegu viðræðum þeirra aðila sem hér hafa verið nefndir.

Meiri hluti hv. umhvn. gerir ekki athugasemdir við frv., enda skal farið eftir úrskurði setts umhvrh. og lögum um mat á umhverfisáhrifum, nr. 106/2000. Svo einfalt er málið.

Það er undir þetta sjónarmið sem meiri hluti iðnn. tekur og leggur því til að frv. verði samþykkt óbreytt.

Undir nefndarálitið rita hv. þm. Guðjón Guðmundsson, Pétur H. Blöndal, Kjartan Ólafsson, Ísólfur Gylfi Pálmason, Árni Ragnar Árnason og Hjálmar Árnason.

Um þetta þarf ekki að hafa fleiri orð. Ég árétta að frv. er mjög bundið því frv. sem hér var til umræðu áðan, um stækkun Norðuráls, álverksmiðju á Grundartanga. Hér er um að ræða orkuöflun til fyrsta hluta þeirrar stækkunar upp í um 90 þús. tonn og grunnurinn að því er úrskurður hæstv. setts umhvrh. sem leiddi til þess að Landsvirkjun varð að minnka áætluð áform sín og leitaði því til Hitaveitu Suðurnesja og Orkuveitu Reykjavíkur um að útvega þessa orku með Landsvirkjun og málið er sem sagt í eðlilegum farvegi.