Kjör bænda

Fimmtudaginn 13. mars 2003, kl. 13:52:37 (4915)

2003-03-13 13:52:37# 128. lþ. 99.94 fundur 499#B kjör bænda# (umræður utan dagskrár), KHG
[prenta uppsett í dálka] 99. fundur, 128. lþ.

[13:52]

Kristinn H. Gunnarsson:

Herra forseti. Víst er að landbúnaðurinn hefur gengið í gegnum miklar breytingar á síðasta áratug eða rúmlega það, og að mörgu leyti hefur atvinnugreininni tekist vel að fóta sig í nýju umhverfi og nýjar greinar hafa skotið rótum á síðustu árum. Hinu er ekki að leyna að þær breytingar sem hafa reynst landbúnaðinum erfiðastar eru mikill niðurskurður eða samdráttur í framlögum ríkisins til atvinnugreinarinnar svo nemur milljörðum króna á ári. Sá peningur er tekinn einvörðungu úr launalið bóndans og rýrir því kjör hans. (Gripið fram í.)

Sú breyting sem mestu réði um þetta, herra forseti, var ákvörðun sem tekin var fyrir rúmum áratug í tíð þáv. landbrh., hv. þm. Steingríms J. Sigfússonar, um að afnema með öllu útflutningsbætur og ganga miklu lengra og hraðar en alþjóðasamningar kváðu á um. Ég minni á að enn er möguleiki á því að nýta sér útflutningsbætur samkvæmt alþjóðasamningum þó að í mun minna mæli sé en þá var, og ég hvet stjórnvöld til að skoða möguleikann til að nýta þær heimildir sem er að finna í alþjóðasamningum hvað það varðar.

En það vekur athygli mína að þáv. landbrh., hv. þm. Steingrímur J. Sigfússon, er ekki viðstaddur þessa umræðu. Ég er kannski ekkert hissa á því. Hann vill kannski ekki taka þátt í umræðu þar sem hann þarf að verja þessar gjörðir sínar sem hafa reynst bændum hvað erfiðastar í skauti á síðasta áratug. Það er vandfundin önnur ákvörðun stjórnvalda fyrr og síðar sem hefur reynst bændum jafnþungbær og sú sem hv. þm. beitti sér fyrir og er það alveg nýtt að hann skuli vera fjarverandi úr þingsal þegar tækifæri er til þess að koma í ræðustól og víkja orði að Framsfl. Eins og menn vita tekur sá hv. þm. sjaldan til máls öðruvísi en að tala um Framsfl. (BH: Var ekki þingmaðurinn í Framsfl. þá?) (Gripið fram í.)