Kjör bænda

Fimmtudaginn 13. mars 2003, kl. 13:54:45 (4916)

2003-03-13 13:54:45# 128. lþ. 99.94 fundur 499#B kjör bænda# (umræður utan dagskrár), JB
[prenta uppsett í dálka] 99. fundur, 128. lþ.

[13:54]

Jón Bjarnason:

Herra forseti. Hv. þm. Kristinn H. Gunnarsson hefði átt að verja tíma sínum til að ræða stöðu landbúnaðarins í dag, eftir tólf ára stjórnarsetu framsóknarsjálfstæðisráðherranna í landbrn. (Gripið fram í: Nei, átta.) Tólf. (Gripið fram í: Tólf.)

Herra forseti. Það er margt gott sem er að gerast í landbúnaðinum, og búseta og öflugt atvinnulíf úti um allt land er styrkur þjóðfélags okkar sem okkur ber að standa vörð um. Hins vegar er ekki allt eins og best verður á kosið. Fátækt og gjaldþrot blasir við fjölda bænda að óbreyttu ástandi, sagði formaður Bændasamtakanna á búnaðarþingi. Gífurleg samþjöppun hefur orðið í alifugla- og svínakjötsframleiðslu. Það eru 20 svínabú og fjögur alifuglabú á landinu. Svínakjöt er selt 150 kr. undir framleiðslukostnaðarverði, svipuð staða er uppi í kjúklinga- og nautakjötsframleiðslu. Mörg þessara búa eru rekin beint eða óbeint af lánastofnunum eða þrotabúum. Gríðarlegt kjötmagn er nú sett inn á markaðinn á undirverði. Þegar við bætist fákeppni á smásölumarkaðnum hlýtur eitthvað undan að láta. Venjulegir bændur, ég tala nú ekki um sauðfjárbændur, geta ekki keppt við langtíma\-niðurboð studd af öflugustu fjármálastofnunum landsins. Er félagsleg ábyrgð þessara fjármálastofnana alls engin? Mér er spurn. Borið er við samkeppnislögum. Heilbrigð og gagnsæ samkeppni er sjálfsögð, og drifkraftur framfara, en ef hægt er að rústa byggð og búsetumynstri í landinu á örfáum missirum í skjóli samkeppnislaga eða annarra slíkra laga þarf heldur betur að breyta þeim lögum.

Herra forseti. Það verður að grípa tafarlaust í taumana og rétta hlut bænda í þeim frumskógi villimennskunnar sem nú ríkir á kjötmarkaði.