Kjör bænda

Fimmtudaginn 13. mars 2003, kl. 13:56:54 (4917)

2003-03-13 13:56:54# 128. lþ. 99.94 fundur 499#B kjör bænda# (umræður utan dagskrár), EOK
[prenta uppsett í dálka] 99. fundur, 128. lþ.

[13:56]

Einar Oddur Kristjánsson:

Herra forseti. Það er rétt sem komið hefur hér fram að það er mjög margt bjart í íslenskum landbúnaði. Við getum verið bjartsýn fyrir hans hönd á mörgum sviðum enda þurfum við að byggja þetta land og það er grundvallaratriði að svo verði áfram.

Hins vegar er það staðreynd sem við stöndum frammi fyrir að sauðfjárræktin er í gríðarlegum vandræðum. Við höfum staðið með Bændasamtökunum, við höfum staðið með Landssamtökum sauðfjárbænda í að gera þessa samninga sem við höfum gert. Við höfum gert það í bjartsýni og ríkisstjórnin hefur staðið við samningana.

Hins vegar er það rétt að ýmislegt sem við gerðum ráð fyrir þá hefur ekki gengið eftir. Það er mjög langt frá því. Það er staðreynd í þessu þjóðfélagi að það vantar ekki kjöt og það er allt sem bendir til þess að þannig verði það í framtíðinni, að það vanti ekki kjöt. Því held ég að ljóst sé að við verðum að hugsa þessi hluti upp á nýtt. Við komumst ekki hjá því að horfast í augu við staðreyndirnar. Það borgar sig ekki að líta undan, þá erum við að bæta gráu ofan á svart.

Ég held að við verðum að horfa til þess að sauðfjárræktin í þessari stöðu verði fyrst og fremst byggðamál. Ég veit að mörgum bændum mun sárna að ég segi þetta en ég sé það í þessu ljósi. Ég lít svo á að það sé lífsnauðsynlegt að styrkja íslenska sauðfjárrækt. En við verðum að gera það á réttum forsendum og við eigum að standa rétt að því. Við megum ekki hika þó að núna sé kannski útlit fyrir að þessi orrusta tapist að einhverju leyti, við ætlum ekki að tapa stríðinu og við ætlum að standa með íslenskum landbúnaði og hjálpa bændum í gegnum þessi vandræði. En við verðum að hugsa hugsanirnar upp á nýtt, við verðum að gera okkur grein fyrir þessu og spyrja: Höfum við eitthvert gagn af þessum ramma sem sauðfjárræktin er í? Höfum við eitthvert gagn af afurðasölulögunum í þessari stöðu? Við verðum að þora að gera það og standa síðan með bændum í að horfast í augu við þann veruleika sem blasir við okkur í dag.