Kjör bænda

Fimmtudaginn 13. mars 2003, kl. 14:01:39 (4919)

2003-03-13 14:01:39# 128. lþ. 99.94 fundur 499#B kjör bænda# (umræður utan dagskrár), MS
[prenta uppsett í dálka] 99. fundur, 128. lþ.

[14:01]

Magnús Stefánsson:

Herra forseti. Starfsumhverfi landbúnaðarins er í stöðugri þróun og hefur tekið ýmsum breytingum á undanförnum árum. Margar búgreinar hafa góða stöðu og tryggan rekstur en aðrar greinar, t.d. sauðfjárræktin, kalla á tryggari starfsgrundvöll og að því er unnið eins og fram kom í máli hæstv. landbrh. Að þessu þarf að vinna í sátt við þjóðina og kalla til samstarfs aðila vinnumarkaðarins og samtök fólksins. Það hefur verið gert að undanförnu og gengið vel. Þessir aðilar komu að samningum um breytt starfsskilyrði í garðyrkju og hafa verið kallaðir til vegna nýs samnings um mjólkurframleiðslu.

Í tíð framsóknarmanna í landbrn. hefur verið byggð upp keðja landshlutabundinna skógræktarverkefna. Bændur hafa mikinn áhuga á þeim, þeir hafa þekkinguna, tækin og landið. Fyrir Alþingi liggur till. til þál. um skipulag þessara mála næstu fimm ár. Þar er gert ráð fyrir verulega auknum fjármunum til verkefna og áætlunin miðar að styrkari búsetu um allt land og auknum tekjum til bænda. Rannsóknastarf hefur gengið fagnandi mót nýjum tímum. Mikilvægt er að meðtaka nýjungar, gera bændum kleift að hagnýta þær og skapa sér hlutverk í breyttri framtíð.

Vert er að nefna líftæknifyrirtækið Orf, sem er sprotafyrirtæki hjá Rannsóknastofnun landbúnaðarins. Þar er unnið að möguleikum þess að bændur framleiði á ökrum sínum efnivið í lyfjaframleiðslu, flugvélar og hvaðeina sem nöfnum tjáir að nefna.

Herra forseti. Fjölmargt fleira væri vert að nefna í þessari umræðu en tíminn er skammur. Ég vil þó segja að lokum að það er góð sátt um landbúnaðinn meðal þjóðarinnar. Þjóðinni þykir vænt um sinn landbúnað, hefur sýnt það í verki og það er engum til góðs að reyna að tala íslenskan landbúnað niður eins og ekkert jákvætt sé þar að gerast.