Reynslulausn

Fimmtudaginn 13. mars 2003, kl. 14:24:03 (4928)

2003-03-13 14:24:03# 128. lþ. 99.6 fundur 517. mál: #A reynslulausn# þál. 21/128, EKG (grein fyrir atkvæði)
[prenta uppsett í dálka] 99. fundur, 128. lþ.

[14:24]

Einar K. Guðfinnsson:

Virðulegi forseti. Ég styð að sjálfsögðu þessa tillögu sem hér er verið að greiða atkvæði um. Ég vil hins vegar tekja athygli á því að fyrr í vetur flutti ég ásamt hv. þm. Össuri Skarphéðinssyni frv. sem tók að nokkru leyti á málinu sem snýr að reynslulausn. Ég tel að þau mál séu í miklum ólestri. Að hluta standa mál þannig núna að reynslulausn getur hreinlega ráðist af efnahag manna, af fjárhag manna. Það er auðvitað gjörsamlega óþolandi ástand. Ég vænti þess að sú nefnd sem hér er verið að gera ráð fyrir að verði skipuð til að fara ofan í þessi mál taki sérstaklega á þessu.

Í því sambandi á ég við að séu menn dæmdir til fjársektar en til fangelsisvistar sem vararefsingar og hafi menn ekki efni á því að borga þessar fjársektir og eru dæmdir þar með í fangelsi þá eiga þeir ekki möguleika á reynslulausn. Aðrir fangar eiga almennt möguleika á reynslulausn þannig að þarna er klárlega verið að mismuna fólki, m.a. á grundvelli efnahags. Ég harma að þessi mál skuli ekki hafa verið leidd til lykta í vetur. En úr því sem komið er styð ég tillöguna og vænti þess að m.a. verði tekið á þessu mikla óréttlæti.