Raforkuver

Fimmtudaginn 13. mars 2003, kl. 14:42:30 (4933)

2003-03-13 14:42:30# 128. lþ. 99.12 fundur 670. mál: #A raforkuver# (Norðlingaölduveita, Nesjavallavirkjun og Hitaveita Suðurnesja) frv. 67/2003, Frsm. 1. minni hluta ÁSJ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 99. fundur, 128. lþ.

[14:42]

Frsm. 1. minni hluta iðnn. (Árni Steinar Jóhannsson) (andsvar):

Virðulegi forseti. Þetta eru útúrsnúningar hjá hv. 10. þm. Reykn., Hjálmari Árnasyni. Við tölum um einhæfni í atvinnulífi þar sem við byggjum að mestu leyti á fiskveiðum hingað til og allir gera sér grein fyrir því að það eru margar hliðargreinar þar að lútandi. Auðvitað er verið að stuðla að einhæfni þegar um 80% orkuframleiðslunnar í landinu munu fara í þessa einu atvinnugrein og það er það sem verið er að tala um. Það er alveg óþarfi að hártoga hluti á þennan hátt.

Hvað varðar orkuvinnsluna þá treysti ég fyllilega þeim sem vinna í geiranum, ég byggi á framsetningu þeirra á orkuvinnsluaðferðum á háhitasvæðum. Hv. þm. Hjálmar Árnason hefur á alveg sama hátt og ég hlustað á verkfræðinga þessara fyrirtækja sem benda þráfaldlega á þá nauðsyn að fara rólega í vinnslu á svæðunum þannig að hægt sé að fylgjast með þeim og gera sér grein fyrir því í rólegheitum hvers megnug svæðin eru. Þess vegna liggur það alveg ljóst fyrir í mínum huga að það er ekkert vandamál við 16 MW stækkun í Svartsengi. En um nýtt vinnslusvæði út við saltverksmiðjuna gildir öðru máli og hljóta að gilda sömu lögmál.

Það eru líka margir sem hafa lýst áhyggjum vegna stækkunar á Nesjavöllum, það sé ekki tímabært og þyrfti að bíða kannski örlítið lengur. Það er niðurdráttur á svæðinu. Við þekkjum svona hluti víða um land þar sem menn hafa farið offari í orkuvinnslu og tekið úr svæðunum meira en góðu hófi gegnir og það er þetta sem er verið að benda á. Ég geri mér fulla grein fyrir því að við eigum færa verkfræðinga á þessu sviði en ég er að reiða mig á þær upplýsingar sem ég hef fengið frá þeim.