Raforkuver

Fimmtudaginn 13. mars 2003, kl. 14:46:37 (4935)

2003-03-13 14:46:37# 128. lþ. 99.12 fundur 670. mál: #A raforkuver# (Norðlingaölduveita, Nesjavallavirkjun og Hitaveita Suðurnesja) frv. 67/2003, Frsm. 1. minni hluta ÁSJ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 99. fundur, 128. lþ.

[14:46]

Frsm. 1. minni hluta iðnn. (Árni Steinar Jóhannsson) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég ætla ekki að ræða málið frekar. Tölurnar tala sínu máli varðandi einhæfni og hvernig við nýtum orkuna þannig að það getur hver metið fyrir sig.

Varðandi orkuvinnsluna eru auðvitað fleiri svæði þar sem búið er að setja fram tölur um hvað væri hægt að framleiða þar. Það eru settar fram hugmyndir um nýja Kröflustöð upp á 120 megavött. Það breytir samt ekki því sem ég var að segja, að það er mat þeirra í greininni að það sé óheppilegt að vaða fram og gera þetta allt í einu. Svæðið getur haft kvótann sér til orkuframleiðslu að mati jarðvísindamanna upp á 120 megavött þó að það standi eftir sem áður sem ég er að segja að það er óheppilegt að flestra mati sem í þessu standa að fara hratt í virkjun svæðanna. Þeir þurfa að þekkja þau og þeir þurfa að fylgjast með þeim og gera þetta í áföngum. Þannig hafa þessi mál verið lögð upp fyrir mig og ég trúi að svo sé. Reynslan sýnir það líka eins og varðandi Kröfluvirkjun og raunar líka Svartsengisvirkjun að það var vel að því staðið í áföngum.