Raforkuver

Fimmtudaginn 13. mars 2003, kl. 16:00:02 (4941)

2003-03-13 16:00:02# 128. lþ. 99.12 fundur 670. mál: #A raforkuver# (Norðlingaölduveita, Nesjavallavirkjun og Hitaveita Suðurnesja) frv. 67/2003, KolH (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 99. fundur, 128. lþ.

[16:00]

Kolbrún Halldórsdóttir (andsvar):

Síðasta spurningin fyrst, herra forseti. Svarið er: Jú, Suður-Afríka er á sama hnetti og við ef hv. þm. Pétur H. Blöndal hefur velkst í einhverjum vafa um það. (PHB: Ég?)

Hv. þm. spyr mig um afstöðu mína til hlýnunar lofthjúpsins. Ég er alveg sammála því, herra forseti, að hlýnun lofthjúpsins er gífurlegt vandamál og ég hef fylgst grannt með þeim tilraunum sem þjóðir heims hafa lagt út í til að sporna við þessari hlýnun. Ég veit að í öllum hinum vestræna heimi hafa þjóðir verið að setja sér reglur um takmörkun losunar CO2, þ.e. koltvísýrings, út í andrúmsloftið til þess að reyna að stemma stigu við þessari hlýnun. Kyoto-bókunin sem hefur verið fjallað um í tengslum við þetta mál er angi af því máli.

Vestrænar þjóðir hafa auðvitað verið haldnar tvískinnungi. Þær hafa í auknum mæli verið að koma mengandi málmbræðslu burt úr sínum eigin garði, og hvar hafa þær sett þær niður? Í þriðja heiminum, í þróunarríkjunum. Það er að mörgu leyti vegna þess að þróunarríkin eru fátæk og þurfa mikið á því að halda að koma upp einhverju efnahagskerfi sem þær hafa látið bjóða sér að taka við mengandi stóriðju á meðan Vesturlandabúar þurfa að búa til ál í bíla.

Herra forseti. Við vitum að það er ekki verið að búa til bíla fyrir fátækt fólk í Afríku. Ég segi bara: Guð hjálpi okkur ef allir Kínverjar færu að keyra um á bílum. Það er kannski mergurinn málsins, við þurfum að fara að skoða neyslumunstur okkar í þessum efnum. Við þurfum kannski að setja peninga, fjármagn og orku í að vísindamenn geti fundið upp önnur efni en ál til þess að við getum hætt að bræða ál, til þess að við getum hætt að búa til þennan málm sem ríkisstjórnin íslenska og hv. þm. Pétur Blöndal eru farin að trúa á.

Ég segi, herra forseti: Við erum ekki að spara nokkurn skapaðan hlut. Ég mótmæli því að hugtakið að spara, í þessu tilliti mengun, sé notað í þessu sambandi. Við erum ekki að spara nokkurn skapaðan hlut. Við erum bara að fara þá leið sem önnur vestræn ríki eru búin að yfirgefa.