Raforkulög

Fimmtudaginn 13. mars 2003, kl. 16:22:20 (4945)

2003-03-13 16:22:20# 128. lþ. 99.13 fundur 462. mál: #A raforkulög# (heildarlög, EES-reglur) frv. 65/2003, 463. mál: #A breyting á ýmsum lögum á orkusviði# frv. 64/2003, JB (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 99. fundur, 128. lþ.

[16:22]

Jón Bjarnason (andsvar):

Herra forseti. Markmið og gildissvið þessara laga, eins og kemur fram í 1. gr., er að skapa forsendur fyrir samkeppni í vinnslu og viðskiptum með raforku og jafnframt að stuðla að skilvirkni og hagkvæmni í flutningi og dreifingu raforku og tryggja öryggi raforkukerfisins og hagsmuni neytenda. Þetta er tíundað í 1. gr. frv.

Þegar kemur svo að frv. sjálfu er vikist undan því að taka á hinum veigamestu þáttum sem frv. kveður þó á um. Í sérstökum viðauka, ákvæði til bráðabirgða nr. VII, er kveðið á um að iðnrh. skuli skipa nefnd sem eigi að taka á þessum þáttum. Hér stendur, með leyfi forseta:

,,Hlutverk nefndarinnar er að gera tillögu um fyrirkomulag flutnings á raforku, þar með talið um stærð flutningskerfisins og hvernig rekstri flutningskerfisins og kerfisstjórnunar skuli háttað þannig að öryggi, skilvirkni og hagkvæmni kerfisins verði sem best tryggð. Þá skal nefndin móta tillögur um uppbyggingu gjaldskrár fyrir flutning raforku. Jafnframt skal nefndin móta tillögur um með hvaða hætti jafna eigi kostnaði vegna flutnings og dreifingar raforku.``

Er hér ekki meginkafla frv. slegið á frest? Hvers vegna er þá ekki bara öllu frv. slegið á frest úr því að meginkafla þess, meginverkefnum sem sett eru með frv. sem lúta að neytendum, dreifingu raforkunnar út um landið, rekstur flutningskerfisis, verðjöfnun og verði til neytenda --- allt er þetta megininntak frv. en því er öllu slegið á frest, herra forseti. Hvers vegna er þá ekki öllu frv. slegið á frest? Það stendur lítið eftir.