Raforkulög

Fimmtudaginn 13. mars 2003, kl. 16:28:21 (4948)

2003-03-13 16:28:21# 128. lþ. 99.13 fundur 462. mál: #A raforkulög# (heildarlög, EES-reglur) frv. 65/2003, 463. mál: #A breyting á ýmsum lögum á orkusviði# frv. 64/2003, Frsm. meiri hluta HjÁ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 99. fundur, 128. lþ.

[16:28]

Frsm. meiri hluta iðnn. (Hjálmar Árnason) (andsvar):

Herra forseti. Hv. þm. Jón Bjarnason er stríðsmaður mikill. Hann vill greinilega fara í þetta mál með stríðsöxi á lofti. Ég árétta það sem ég hef sagt að frv. er tilbúið. Hér er búið að smíða alveg ákveðið módel og með bráðabirgðaákvæði VII er í rauninni verið að gefa þeim aðilum sem eru í orkugeiranum og þar fyrir utan og pólitískum flokkum færi á því að finna enn aðra lausn. Það er verið að rétta fram sáttarhönd með því og reyna að samræma hin ólíku sjónarmið. (JB: Bara einkavæðing ...) Hv. þm. er búinn að tala. Eins og ég hef sagt hér áður er búið að fara afskaplega rækilega yfir þetta mál og allir þessir aðilar hafa komið oftar en einu sinni fyrir nefndina og það veit hv. þm. En það eru bara skipar skoðanir meðal þeirra. Með frv. eins og það er lagt fram núna er búið að höggva á ákveðinn hnút og þannig er módelið í frv. En með bráðabirgðaákvæðinu er einfaldlega verið að rétta fram sáttarhönd. Ef þessir aðilar geta fundið nýja og betri leið og orðið sáttir um hana og ef sú leið fellur að meginmarkmiði frv. opnar þetta bráðabirgðaákvæði fyrir því. Með öðrum orðum þá er búið að útfæra þetta. Það er búið að finna leið. Það eru ekki allir sáttir um hana eins og oft vill verða við róttækar breytingar. Mönnum er þó boðið upp á að finna sáttaleiðina. En ég heyri að hv. þm. Jón Bjarnason sem er mikill stríðsmaður vill ekki fara fram með slíkum friði heldur fara meira fram með ófriði. En meðan við hins vegar erum í Evrópska efnahagssvæðinu er óhjákvæmilegt fyrir okkur að innleiða þetta. Það má líka spyrja hvort óeðlilegt sé að taka upp samkeppni í raforkubisness eins og við erum að gera á flestum öðrum sviðum í atvinnulífi okkar.