Raforkulög

Fimmtudaginn 13. mars 2003, kl. 17:19:21 (4956)

2003-03-13 17:19:21# 128. lþ. 99.13 fundur 462. mál: #A raforkulög# (heildarlög, EES-reglur) frv. 65/2003, 463. mál: #A breyting á ýmsum lögum á orkusviði# frv. 64/2003, iðnrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 99. fundur, 128. lþ.

[17:19]

Iðnaðarráðherra (Valgerður Sverrisdóttir) (andsvar):

Hæstv. forseti. Þetta var að sumu leyti betri ræða en hv. þm. flutti við 1. umr. Í henni var ekki eins mikið um misskilning. Hv. þm. virðist telja að það verði mikill viðbótarkostnaður í sambandi við þetta nýja kerfi. Mér datt í hug hvort það væri vegna þess að hann væri enn á því sem hann talaði um við 1. umr., að það ætti að taka upp samkeppni í dreifingu og flutningi og þá yrðu kannski mörg kerfi um landið. (Gripið fram í.) Jæja, hann segir nei. Það er ekki vandamálið. Þá bið ég hann að útskýra hvers vegna hann notar þetta sem rök, að við séum svo fámenn þjóð í stóru landi, að þess vegna verði þetta svo dýrt. Það kemur í ljós þegar upptaka þessa nýja fyrirkomulags í Evrópu er skoðuð að víðast hvar hefur rafmagnskostnaðurinn lækkað við breytinguna.

Hv. þm. talar um að aðalatriðinu sé sleppt, þ.e. félagslega þættinum. Í því sambandi er vert að benda á að við lögðum fram frv. sem tók á þessu atriði. Það laut að því að lagt yrði sérstakt gjald á hverja selda kílóvattstund, 18 aurar, sem yrði notað til þess að taka á þessum kostnaði. Ákveðið var að flutningskerfið yrði sett inn í bráðabirgðaákvæði en þó þannig að það er fyllilega útfært í lagatextanum, en ef nefndin kemst að betri niðurstöðu er mögulegt að breyta því. Þar sem einhver óvissa ríkir um að þetta fyrirkomulag verði tekið upp þá verður líka að fresta upptöku á jöfnunarþættinum, hinum félagslega þætti málsins.

Ég held að hv. þm. hljóti að skilja þetta og ég líð ekki að hann komi hér upp til að reyna að gera mig tortryggilega, að ég sé ekki að hugsa um þennan þátt mála.