Raforkulög

Fimmtudaginn 13. mars 2003, kl. 17:23:19 (4958)

2003-03-13 17:23:19# 128. lþ. 99.13 fundur 462. mál: #A raforkulög# (heildarlög, EES-reglur) frv. 65/2003, 463. mál: #A breyting á ýmsum lögum á orkusviði# frv. 64/2003, iðnrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 99. fundur, 128. lþ.

[17:23]

Iðnaðarráðherra (Valgerður Sverrisdóttir) (andsvar):

Hæstv. forseti. Reyndin er sú að við erum svolítið að staglast á því sama. Ég veit ekki hver það er sem hv. þm. treystir ekki í þessu máli. Hann vildi ekki viðurkenna að hann treysti mér ekki. Hann hlýtur að treysta flokki sínum, sem er þó stærsti flokkurinn á hv. Alþingi, hvað sem verður. Þessi stefna liggur skýr fyrir.

Miðað við að hv. þm. Samfylkingarinnar hafa talað sama rómi og Vinstri grænir þá veit ég ekki hvernig það gæti gerst að einhver pólitísk átök yrðu um það að taka á þessum þætti, sem kallaður er félagslegur þáttur eða kostnaður við dreifingu á raforku í mesta dreifbýlinu. Það er enginn ágreiningur um það á hv. Alþingi. Hv. þm. er þannig að búa sér til ágreiningsmál, sennilega í pólitískum tilgangi. Ég ætla að fylgjast vel með málflutningi hans á Vestfjörðum og í Norðvesturkjördæmi fyrir kosningar. Ég trúi því að þetta eigi að vera aðalkosningamálið, að iðnrh. sem fari með byggðamál sé ekki að hugsa um dreifbýlið. Ég er alveg farin að heyra þessa ræðu.

Í sambandi við kostnaðinn við eftirlitið þá er hann innan við 100 kr. á heimili á ári eins og þetta lítur út. Það er nú allt og sumt. Hv. þm. getur séð fyrir sér Fiskistofu og eitthvað annað sem hann er ekki ánægður með hvernig hefur þróast. Ég get alveg tekið undir það að ýmislegt í eftirlitskerfi okkar hefur orðið dýrt. En í þessu tilfelli er ekki um það að ræða. Hv. þm. hefur ekki kynnt sér þetta mál í þaula. Hann notar tækifærið þegar það kemur til umræðu í þingsal og hefur uppi stór orð sem hann á síðan í erfiðleikum með að standa við.