Raforkulög

Fimmtudaginn 13. mars 2003, kl. 17:25:30 (4959)

2003-03-13 17:25:30# 128. lþ. 99.13 fundur 462. mál: #A raforkulög# (heildarlög, EES-reglur) frv. 65/2003, 463. mál: #A breyting á ýmsum lögum á orkusviði# frv. 64/2003, EOK (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 99. fundur, 128. lþ.

[17:25]

Einar Oddur Kristjánsson (andsvar):

Herra forseti. Ég veit ekki hvaða stóryrði það eru sem ég á í vandræðum með að standa við. Hef bara ekki hugmynd um það. Ég spyr, herra forseti: Ef þetta er allt tilhæfulaust, ef ég er að búa til það vandamál sem er ekkert vandamál vegna þess að menn muni standa svo skýrt við einhverja stefnu um jöfnun raforku, af hverju er þetta þá ekki afgreitt núna? Ef þetta er ekkert vandamál, af hverju er þá málið ekki afgreitt núna? (JB: Akkúrat.) Ég spyr að því. (JB: Akkúrat.) Ég held nefnilega að ég sé ekki að búa til vandamál. Ég óttast að þetta vandamál sé til staðar. Óskaplega yrði ég feginn, herra forseti, ef það væri rangt hjá mér. Ég segi líka, herra forseti, óskaplega yrði ég feginn ef ég hefði rangt fyrir mér og eftirlitsiðnaðurinn í raforkunni mundi ekki vaxa eins og ég óttast. Óskaplega yrði ég feginn og glaður.

Raforkuverð í Evrópu hefur lækkað eftir að tilskipunin tók gildi vegna þess að þar var umframorka sem hefur nýst betur. Það varð til að lækka verðið. Hér er ekkert í spilunum sem bendir til að verðið muni lækka. Það er bara eitt í spilunum, þ.e. að ofan á orkuverðið komi kostnaður. Ég óttast það en ef það væri rangt hjá mér yrði ég mjög glaður. En það á eftir að reyna á það. Því miður hræða sporin. Því miður er reynsla okkar hingað til af öllum öðrum eftirlitsstofnunum alveg þveröfug. Ég vona að það reynist svo með þessa nýju eftirlitsstofnun að hún blási ekki út eins og hingað til hefur gerst með allar opinberar stofnanir á þessum vettvangi.