Raforkulög

Fimmtudaginn 13. mars 2003, kl. 17:27:19 (4960)

2003-03-13 17:27:19# 128. lþ. 99.13 fundur 462. mál: #A raforkulög# (heildarlög, EES-reglur) frv. 65/2003, 463. mál: #A breyting á ýmsum lögum á orkusviði# frv. 64/2003, Frsm. meiri hluta HjÁ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 99. fundur, 128. lþ.

[17:27]

Frsm. meiri hluta iðnn. (Hjálmar Árnason) (andsvar):

Herra forseti. Margt fróðlegt hefur komið fram í ræðu hv. þm. Einars Odds Kristjánssonar. Ég get tekið undir með honum varðandi það að óttast megi að svokallaður eftirlitsiðnaður vaxi upp úr öllu valdi. En ég vil um leið nefna að eftirlit í frjálsri samkeppni er mjög mikilvægt. Þar kann að vera ágreiningur á milli mín og hv. þm. Ég vil jafnframt draga fram að í ítarlegri umfjöllun hv. iðnn. fóru menn rækilega yfir eftirlitsþáttinn, skoðuðu sérstaklega á innra eftirlit og mæltust mjög til að frv. yrði breytt á þann veg að innra eftirlit yrði aukið hjá einstökum fyrirtækjum og hið opinbera hefði fremur eftirlit með svokölluðu innra eftirliti. Með því móti tókst strax að lækka áætlaðan eftirlitskostnað.

Ég vil í annan stað nefna að það kom mér á óvart að heyra hv. þm. fordæma að Alþingi ætlaði sér að samþykkja frv. með skipan nefndar til að fjalla um ágreiningsmál. Hann taldi það forkastanlegt. Þar með held ég að hv. þm. hafi breytt um skoðun. Þetta hefur oft gerst hér á Alþingi. Ég nefni t.d. auðlindanefnd sem hér var skipuð um enn meira ágreiningsmál en þetta. Ef ég man rétt þá greiddi hv. þm. Einar Oddur Kristjánsson atkvæði með því að slík nefnd væri skipuð. Til hvers? Til þess að ná sáttum í enn stærra deilumáli en hér er verið að fjalla um.

Hvað varðar jöfnuðinn þá skipta þar mestu markmiðin um að ná jöfnuði í raforkuverði. Það er hið pólitíska markmið.

Það er rétt að vekja athygli á að verið er að bjóða hinni fjölskipuðu nefnd að finna betri lausn á útfærslu flutningskerfisins. Ég vænti þess að ég geti komið betur að því síðar í andsvari.