Raforkulög

Fimmtudaginn 13. mars 2003, kl. 17:36:50 (4964)

2003-03-13 17:36:50# 128. lþ. 99.13 fundur 462. mál: #A raforkulög# (heildarlög, EES-reglur) frv. 65/2003, 463. mál: #A breyting á ýmsum lögum á orkusviði# frv. 64/2003, ÖJ
[prenta uppsett í dálka] 99. fundur, 128. lþ.

[17:36]

Ögmundur Jónasson:

Herra forseti. Ég vil byrja á því að taka undir allflest sem kom fram í máli hv. þm. Einars Odds Kristjánssonar og ætla að víkja að einstökum efnisþáttum á eftir. Fyrst langar mig til að nefna tvennt sem kom fram í máli hæstv. iðnrh., Valgerðar Sverrisdóttur. Hún talaði um gegnsæi, nauðsyn þess að allt væri gegnsætt, allar staðreyndir uppi á borðum og að þetta frv. og þessar kerfisbreytingar sem hér væri verið að innleiða mundi stuðla að því. Þetta er sami hæstv. ráðherra og hefur streist á móti því að þingið yrði upplýst ... (Gripið fram í.) Já, ég er að beina orðum mínum til hæstv. iðnrh., Valgerðar Sverrisdóttur. Hún hefur streist á móti því að þingið yrði upplýst, t.d. um raforkuverð í samningunum við Alcoa-fyrirtækið. Hún hefur streist á móti því að Alþingi yrði upplýst um hvaða gögn eru send til ESA, eftirlitsstofnunarinnar, varðandi samningana við ESA. Hæstv. ráðherra hefur neitað því að svara spurningum sem hafa verið settar fram um ýmsa efnislega þætti þeirra samninga, ég nefni t.d. mengunarþáttinn sem fram kom á lokastigum umræðunnar. Spurningum sem fram voru settar var einfaldlega ekki svarað. Það sama á við um ýmsa efnahagslega og fjárhagslega þætti. Þeim er ekki svarað. Síðan kemur hæstv. ráðherra fram hér og talar um nauðsyn þess að allt sé gegnsætt, allar staðreyndir, allar tölur, allar upplýsingar uppi á borðum. Veruleikinn er hins vegar sá að allt er á bak við hin lokuðu tjöld, læst niðri í skúffu og Alþingi neitað um aðgang að þessum upplýsingum.

Síðan var annað atriði sem mér fannst athyglisvert í framlagi hæstv. iðnrh. til þessarar umræðu. Það var um traustið á flokknum. Hún spurði hv. þm. Einar Odd Kristjánsson hvort hann treysti virkilega ekki flokki sínum í þessu máli. Ég spyr: Er ekki kominn tími til þess að við gerum tvennt, í fyrsta lagi að treysta á eigin sannfæringu og samvisku? Er ekki ástæða til að við gerum það og hættum að hugsa eftir flokkslínum, heldur reyni hver og einn að gera málin upp við sig á eigin forsendum eftir að hafa vegið og metið gögn sem fram eru sett í málinu? Þá skiptir náttúrlega í öðru lagi öllu máli að þeir sem eiga að taka ákvörðun hafi raunverulega öll gögn sem nauðsynleg eru til að mynda sér skoðun.

Það vekur athygli mína að í meðförum þingsins eru sniðgengnir þeir aðilar sem hafa haft gagnrýni fram að færa. Þar nefni ég t.d. stærstu samtök starfsfólks í almannaþjónustu, BSRB. Þingið leitaði ekki eftir áliti BSRB um þetta frv. (Iðnrh.: Við höfum BSRB á þinginu.) Höfum BSRB á þinginu? Þá skal þingið líka fá að finna fyrir BSRB. (Gripið fram í.) Því skal ég lofa. En ég er að vekja athygli á því að starfsfólk innan BSRB starfar innan þessa geira. Það eru fjölmennustu samtök starfsfólks í þessum geira, og það fólk er sniðgengið. En ég skal glaður færa þessi skilaboð inn á vettvang BSRB þar sem mönnum er ekki skemmt yfir afstöðu ríkisstjórnarinnar til samtakanna. Og ég spyr: Hvernig stendur á því að ekki er leitað til þeirra samtaka um álit á þessu stórmáli? Ég óska eftir svörum, öðrum en útúrsnúningi og skætingi, frá hæstv. iðnrh. og formanni iðnn. sem hefur velkst í þessu starfi fyrir hönd þingsins í iðnn. Það var ekki fyrr en samtökin sjálf höfðu frumkvæði að því að nálgast iðnn. að plögg frá BSRB komust inn á borð nefndarinnar. Enginn fulltrúi var hins vegar kallaður á fundinn þótt það væri boðið. Ég ætla að leyfa mér, herra forseti, að óska eftir því að formaður iðnn. verði viðstaddur umræðuna hér, a.m.k. framan af, til þess að hann geti svarað þeim spurningum sem ég beini til hans og þeirri gagnrýni sem ég er að setja fram.

(Forseti (HBl): Er óskað eftir að fá formann iðnn.?)

Já.

(Forseti (HBl): Ég skal gera ráðstafanir til þess að ... (Iðnrh.: Er ekki nóg að hafa ráðherrann?) Ætli það sé ekki rétt við 2. umr. máls að formenn nefnda séu við ef þess er óskað?)

Ég þakka hæstv. forseta fyrir og hér er formaður iðnn. kominn. Mig langar til að beina þeirri spurningu og hef orðað hana hér í fjarveru hv. formanns iðnn. hvernig á því standi að fulltrúar þeirra samtaka sem hafa innan sinna vébanda allflest starfsfólkið í raforkugeiranum eru ekki beðnir um álit á þessu stórmáli. Hvernig stendur á því? Hvernig stendur á því að samtökin þurfa sjálf að hafa frumkvæði að því að koma gögnum á framfæri við nefndina? Er það vegna þess að úr þeirri átt hafa komið fram gagnrýnin viðhorf? Er það vegna þess? Ég vek athygli á því að í umsögn BSRB um þetta frv. er sérstaklega boðið að fulltrúar frá samtökunum komi með ítarlegar upplýsingar um þær staðhæfingar sem samtökin setja fram við iðnn. þingsins. Ég óska eftir því að fá skýringar á því hvernig á þessu standi. Ég vek einnig athygli á því að í þeirri nefnd sem á að fjalla um veigamikla þætti þeirrar nýskipanar sem menn gera ráð fyrir í raforkugeiranum er enginn fulltrúi frá BSRB, enginn fulltrúi frá fjölmennasta starfshópnum innan raforkugeirans. Þar er leitað til Alþýðusambandsins, til sveitarfélaganna, Neytendasamtakanna, þingflokka á Alþingi, Samorku og fleiri aðila. En hvernig stendur á því að enga fulltrúa er að finna frá þessum samtökum, fjölmennustu samtökum starfsfólks innan þessa geira? Er það vegna þess að þaðan er að vænta gagnrýni á stjórnvöld? Mér finnst þetta sannast sagna ekki lýsa mikilli trú á eigin málstað, ekki mikilli sannfæringu fyrir því að málstaðurinn þoli gagnrýnið ljós, að þora ekki einu sinni að fá á sinn fund fulltrúa sem er á öndverðum meiði.

[17:45]

Varðandi þau atriði sem hv. þm. Einar Oddur Kristjánsson nefndi vil ég byrja á að taka undir það sjónarmið hans að það hafi verið rangt hjá okkur í upphafi að fallast á tilskipun Evrópusambandsins. Ég man eftir því að þegar málið kom fyrst inn á borð þingsins þá var það í stórri þáltill. þar sem var að finna fjölmargar tilskipanir frá Evrópusambandinu. Við hjá Vinstri hreyfingunni -- grænu framboði höfðum farið rækilega í gegnum plaggið og vorum þeir einu á þingi sem bentum þá á hve vafasamt þetta væri. Við vildum undanskilja þessa tilskipun öðrum í umræddri þáltill. Síðan hafa aðrir tekið undir þessa gagnrýni okkar. Ég nefni þar hv. þm. Björn Bjarnason og nú hv. þm. Einar Odd Kristjánsson. Fleiri kunna að vera sömu skoðunar. Undir þetta vildi ég taka.

Hann nefndi einnig öryggisþáttinn. Ég hef nálgast öryggisþáttinn út frá öðru sjónarhorni en hv. þm. Einar Oddur Kristjánsson. Ég tel það ekki þjóna öryggissjónarmiðum að fara með raforkuframleiðslu og dreifingu, raforkugeirann, á markað. Ég tel það ekki auka öryggið. Þvert á móti mun daga úr því. Við höfum áður farið yfir reynsluna erlendis frá hvað þetta snertir. Ég hef vísað í reynsluna hjá British Energy sem sér um fjórðunginn af raforkuframleiðslunni í Bretlandi. Þar hafa verið miklar hremmingar. Nefna má að hlutabréfin féllu þar á einu ári um 91%. Það er búið að pumpa inn í það fyrirtæki milljörðum á milljarða ofan en fyrirtækið er enn í miklum vandræðum. Við þekkjum þetta úr öðrum geirum einnig, vatnsframleiðandann franska, Vivendi, sem hefur einnig orðið fyrir slíku hruni. Hvað gerist þá? Ríki og sveitarfélög verða að hlaupa undir bagga vegna þess að það þarf að tryggja þessa þjónustu. Þetta hafði ég um öryggisþáttinn að segja.

Þá kemur að eftirlitsiðnaðinum sem hér blómstrar. Ég heyrði ekki nákvæmlega hvað hv. þm. Einar Oddur Kristjánsson sagði um það efni. Almennt byggja þessar kerfisbreytingar, ættaðar frá Brussel, á því að starfsemi sem fyrst og fremst var skipulögð sem þjónustustarfsemi við borgarana er tekin undan lýðræðislegu valdi, sett á markað og síðan spretta upp eftirlitsstofnanir. Hér koma tvær stofnanir til með að gegna eftirlitshlutverki innan raforkugeirans, Orkustofnun annars vegar og síðar Samkeppnisstofnun. Ég er ekki viss um að ég gagnrýni þennan þátt á sömu forsendum og hv. þm. Einar Oddur Kristjánsson. Til þess þyrfti ég að kynna mér sjónarmið hans betur. Ég tel hins vegar að hagsmunum notandans, borgarans, sé ekki eins vel borgið í þessu fyrirkomulagi og því sem við búum við, að reka þessa starfsemi sem þjónustustarfsemi fyrst og fremst í stað þess að reka hana á markaði, reka fyrirtæki sem á að skapa eigendum sínum arð. Það má vel vera að hægt sé að halda aftur af þessum fyrirtækjum með slíku eftirliti og eflaust virkar það í þá áttina en ég tel hins vegar að þetta fyrirkomulag, þessi uppbygging á almannaþjónustunni sé ekki heppileg.

Þetta voru þeir þættir sem hv. þm. nefndi sérstaklega. Hann gagnrýndi síðan að frv. eða lagabreytingarnar yrðu ekki kláraðar, ekki rekinn endahnútur á þetta verk. Hann gagnrýndi að hluti breytinganna skyldi settur í nefnd sem ætti að freista þess að ná samkomulagi. Ég tek undir það sjónarmið hv. þm. Einars Odds að auðvitað er eðlilegt að allur pakkinn sé afgreiddur í heilu lagi á Alþingi og ekkert þar undan skilið.

Ég held að þessi ægilegi ótti manna við Brussel, við að menn kunni þar að reiðast svo voðalega töfinni á að við framfylgjum þessum skipunum, sé ekki á rökum reistur. Ég er hins vegar almennt á þeirri skoðun, að sjálfsögðu, að þegar menn undirgangast samninga eigi þeir að sjálfsögðu að standa við þá. Stundum hefur manni fundist skondið að ýmsir sem voru fylgjandi EES-samningunum á sínum tíma vilja skjóta sér undan því að samþykkja þá eða flýta reglugerðarverkinu sem á þeim byggir. Við sem gagnrýndum samningana og þóttumst sjá fyrir ýmsa vankanta á þeim og á hvern hátt draga mundi úr lýðræðislegu valdi innan lands höfum verið talsmenn þess að virða þá samninga sem við höfum undirgengist. Í þessu efni tel ég hins vegar ekki hundrað í hættunni. Það var einmitt ástæðan fyrir því að við töldum rétt að undanskilja þennan þátt í EES-reglugerðarverkinu. Við erum svo fjarri hinum evrópska markaði að það ætti ekki að koma að sök.

Síðan ætla ég í örfáum orðum að víkja að hugmyndafræði frv. Þetta frv. byggir á hugmyndafræði. Þetta frv. byggir á pólitískri hugmyndafræði. Ég ætla að byrja á að fletta upp á bls. 19 í þessu plaggi, fyrstu athugasemdum við lagafrv. Þar segir m.a., með leyfi forseta:

,,Frumvarp þetta byggist á nýjum viðhorfum í raforkumálum sem hafa verið að ryðja sér til rúms víða um heim á undanförnum árum. Meginefni þeirra felst í því að skilja í sundur náttúrulega einkasöluþætti raforkukerfisins (flutning og dreifingu) og þá þætti þar sem samkeppni verður við komið (vinnslu og sölu). Þannig hefur verið lagður grunnur að markaðsbúskap í raforkukerfi margra landa. Í ríkjum Evrópusambandsins hefur þróunin almennt grundvallast á tilskipun 96/92/EB um innri markað raforku. Með ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar 168/1999 frá 26. nóvember 1999 um breytingu á viðauka IV við EES-samninginn varð tilskipunin hluti af EES-samningnum. Ísland átti að innleiða efni tilskipunarinnar í íslenska löggjöf fyrir 1. júlí 2002.

Hefðbundin viðhorf til raforkumála hafa því verið að breytast. Hér áður fyrr var það viðtekin skoðun að hið opinbera hefði óhjákvæmilega lykilhlutverki að gegna á öllum sviðum þeirra vegna þess að markaðslausnir ættu þar ekki við, meðal annars vegna einkaréttar í starfsemi af þessu tagi. Á síðustu árum hafa hins vegar verið þróaðar aðferðir þar sem markaðsöflum hefur verið beitt á þessu sviði, einkum í vinnslu og sölu raforku. Þessar aðferðir hafa í aðalatriðum reynst vel og er nú almennt talið að meiri árangur náist að jafnaði í vinnslu og sölu þar sem samkeppni ríkir en þar sem hefðbundinn einkaréttur er allsráðandi.

Þessi nýju sjónarmið og reynslu annarra er sjálfsagt að færa sér í nyt á Íslandi þótt hér eins og annars staðar þurfi jafnframt að taka mið af aðstæðum. Þetta verður best gert með því að endurskipuleggja raforkubúskapinn á núverandi grunni með markaðssjónarmið að leiðarljósi í vinnslu og sölu raforku.``

Á bls. 41 í þessu sama plaggi segir síðan, með leyfi forseta:

,,Breytingarnar miða að því að koma á markaðsbúskap í viðskiptum með raforku. Samhliða er stefnt að því að draga úr opinberum rekstri. Breytingar í frjálsræðisátt í öðrum löndum urðu oftast af því að talið var að það skipulag sem var við lýði hefði leitt til óhagkvæmni og ósveigjanleika í rekstri, fjárfestingu og verðlagningu. Markaðsskipulagið hefur sannað yfirburði sína í viðskiptum með vöru og þjónustu og leiðir til hagkvæms skipulags og fjölbreyttrar og sveigjanlegrar þjónustu.

Frumvarpið byggir á því að öll vinnsla, flutningur, dreifing og sala á raforku verði rekin á einkaréttarlegum grundvelli. Ætlunin er að vinnsla og sala á raforku verði rekin á samkeppnisgrundvelli í markaðskerfi ...``

Hér er sem sagt í fyrsta lagi talað um hin breyttu viðhorf í Evrópu, um hin breyttu viðhorf almennt í heiminum og vísað sérstaklega í reynslu af þessum breytingum. Nú auglýsi ég eftir umræðu um þá reynslu. Samtök á borð við BSRB, sem eru gagnrýnin á þetta frv., hafa að undanförnu viðað að sér upplýsingum um hver reynslan raunverulega sé. Það er verið að auglýsa eftir umræðu um það. Ef það sem kemur frá þessum samtökum eða öðrum sem hafa uppi gagnrýni er rangt þá þarf bara að sýna fram á það. En umræðan verður að sjálfsögðu að fara fram.

Ég hef áður bent á breytingar á raforkuverði á Norðurlöndum þar sem orðið hefur sprenging á raforkuverði eftir að raforkukerfin þar voru einkavædd. Þetta er staðreynd. Það hefur áður verið vísað í reynsluna frá Noregi og afstöðu norsku neytendasamtakanna sem bentu á að á árinu 2000 hafi hagnaður norskra rafveitna verið um 11,6 milljarðar kr. og rafveiturnar greitt 3,7 milljarða norskra króna í arð til eigenda sinna. Það er verið að taka þessa miklu fjármuni, þessa gríðarlegu fúlgu út úr kerfinu, og háfa þá út, eins og það var orðað af talsmanni norsku neytendasamtakanna. Þetta er ein ástæðan fyrir því að verðlagið hefur farið upp. Önnur ástæða fyrir því að verðlagið hefur rokið upp úr öllu valdi, t.d. í Svíþjóð, er að hinar einkavæddu rafveitur sýndu ekki sömu fyrirhyggju og almannaþjónustan hafði áður sýnt varðandi umframorku, að hafa umframorku upp á að hlaupa. Þegar orka var ekki lengur til var ekki annarra kosta völ en að kaupa orkuna frá öðrum löndum á meginlandi Evrópu á uppsprengdu verði. Þetta er ein ástæðan fyrir því að raforkuverðið hefur hækkað í Svíþjóð.

Raforkuverðið hefur víða tekið breytingum og ekki alls staðar upp á við. En þær breytingar sem raktar eru til einkavæðingarinnar eru upp á við. Það er hækkun og ef ég er að fara með staðlausa stafi þá þarf að sýna fram á það. Það er verið að auglýsa eftir rökræðu um þetta mál. Það er verið að tefla fram upplýsingum, staðhæfingum og tölum. Ef þær eru rangar þá hvílir sönnunarbyrðin að sjálfsögðu á stjórnvöldum, að sýna fram á annað. Þeir sem setja fram þessa gagnrýni eru hins vegar algerlega virtir að vettugi. Þeir fá ekki einu sinni að komast að umræðuborði. Þegar skipa á nefnd til að fjalla um næstu skref eru þessi samtök að sjálfsögðu undanskilin, enginn fulltrúi þaðan. Í ofanálag eru þetta samtök starfsmanna innan þessa geira og þá fara að vakna ýmsar spurningar. Hæstv. ráðherra segir síðan: Þetta er alger óþarfi. Við höfum fulltrúa samtakanna hér á þingi. Ég er ekki viss um að fólki verði mjög skemmt yfir þessu.

Ég get upplýst hæstv. ráðherra um að innan BSRB er að sjálfsögðu, eins og í öðrum samtökum, fólk í öllum stjórnmálaflokkum. Þar eru sjálfstæðismenn, framsóknarmenn og fólk úr Samfylkingunni, þar eru vinstri grænir og frjálslyndir. Þar er fólk úr öllum flokkum og þau samtök taka á engan hátt flokkspólitíska afstöðu og alls ekki til mála af þessu tagi. Menn hafa boðist til að koma upplýsingum um þessi mál á framfæri við þingið. Ef menn vilja láta virða sjónarmið sem sprottin eru af athugunum og rannsóknum finnst mér alla vega að ráðherrar skuldi þessum samtökum einhver svör. Hið sama gildir að sjálfsögðu einnig um hv. formann iðnn.

Herra forseti. Ég ætla ekki að hafa um þetta mörg fleiri orð að þessu sinni. Það á eftir að ræða frekar um þetta frv. Á þessu stigi vildi ég fyrst og fremst koma þessum almennu sjónarmiðum á framfæri og jafnframt auglýsa eftir því að það sem ég hef verið að segja um raforkuver t.d. á Norðurlöndunum, í Noregi, Svíþjóð og víðar, verði hrakið. Hitt stendur hér í gögnum ríkisstjórnarinnar, stjórnarmeirihlutans og hér eru tveir þeirra sem ábyrgir eru fyrir þeim texta, hæstv. iðnrh. og hv. formaður iðnn. Þau staðhæfa að reynslan erlendis frá sýni okkur ótvírætt að verulegur ávinningur sé af markaðsvæðingu á rafmagni. Ég spyr: Hvaðan er sú reynsla sótt? Til Nýja-Sjálands? Er hún kannski sótt til Kaliforníu? Er það Enron sem menn hafa í huga? Er það breska fyrirtækið British Energy? Eru það Norðurlöndin? Hvaðan er þessi reynsla sótt og hver er hún? Væri hægt að fá tölulegar upplýsingar um hana?

Á í þessu máli eins og öðrum að láta Alþingi samþykkja frv. með bundið fyrir augun samkvæmt formúlu hæstv. iðnrh. sem segir að menn eigi bara að treysta sínum flokki? Hún spurði hér áðan hv. þm. Einar Odd Kristjánsson með þjósti hvers konar villuráfandi sauður hann eiginlega væri, hvort hann bæri ekki traust til flokks síns (Gripið fram í: Og síns ráðherra.) og síns ráðherra. Nei, sem betur fer eru til menn sem treysta á eigin dómgreind og eigin samvisku. Ég vildi óska þess að þeir væru fleiri.