Raforkulög

Fimmtudaginn 13. mars 2003, kl. 18:03:05 (4965)

2003-03-13 18:03:05# 128. lþ. 99.13 fundur 462. mál: #A raforkulög# (heildarlög, EES-reglur) frv. 65/2003, 463. mál: #A breyting á ýmsum lögum á orkusviði# frv. 64/2003, Frsm. meiri hluta HjÁ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 99. fundur, 128. lþ.

[18:03]

Frsm. meiri hluta iðnn. (Hjálmar Árnason) (andsvar):

Herra forseti. Eins og við var að búast kom hv. þm. Ögmundur Jónasson víða við í ræðu sinni. Ekki er ég sammála öllu því sem hann segir. En ég vil reyna að svara því sem hann beindi til mín. Ég tel þó rétt að taka fram í byrjun að mér fannst hann blanda nokkuð saman einkavæðingu og samkeppni. Hér er ekki verið að einkavæða orkufyrirtækin. Það er á engan hátt verið að einkavæða. Það er verið að innleiða samkeppni á þessum markaði. Í tengslum við þetta sagði hv. þm. nokkur orð um arðsemiskröfu. Það er ekkert nýtt í þessu frv. Í dag eru gerðar arðsemiskröfur til orkufyrirtækja og eins og hv. þm. veit væntanlega, hefur m.a. Orkuveita Reykjavíkur greitt eiganda sínum, Reykjavíkurborg, arð reglulega inn í borgarsjóð sem hefur verið kærkomið og ég hygg að borgarfulltrúar hafi tekið við því nokkuð fagnandi hvar í flokki sem þeir standa.

Ég legg áherslu á að hér er ekki verið að einkavæða. Hér er verið að innleiða samkeppni og það er vísað til reynslu af samkeppni í Evrópu. Frá því að hún var tekin upp, eins og fram hefur komið, hefur orkuverð lækkað bæði til húshalds og til fyrirtækja. Það sýna yfirlitsmyndir sem við höfum fengið m.a. frá Orkustofnun sem Evrópusambandið hefur gefið út, þ.e. að frá því að samkeppni var tekin upp hefur orkuverð lækkað bæði til neytenda og til atvinnulífsins. Það er einmitt markmið þessa frv. Markmið frv. er ekki að einkavæða heldur að innleiða samkeppni vegna þess að reynslan í Evrópu er nokkuð góð. Eins og ég sagði í framsöguræðu minni þá hljóta menn að spyrja: Hví ekki samkeppni á því sviði eins og mörgum öðrum sviðum í atvinnulífinu ef það er til hagsbóta fyrir neytendur og atvinnulíf?